53. fundur
- fundur sveitarstjórnar Bláskógabyggðar haldinn
þriðjudaginn 7. febrúar 2006, kl 13:30
í Fjallasal, Aratungu
Mætt voru:
Sveinn A. Sæland oddviti, Sigurlaug Angantýsdóttir, Margeir Ingólfsson, Margrét Baldursdóttir, Drífa Kristjánsdóttir, Gunnar Þórisson sem varamaður Snæbjörns Sigurðssonar og Kjartan Lárusson. Einnig var mættur Valtýr Valtýsson, sveitarstjóri sem ritaði fundargerð.
- Fundargerð byggðaráðs til staðfestingar:
1.1. 52. fundur, dags. 31. janúar 2006.
Fundargerð staðfest samhljóða.
- Fundargerð til staðfestingar:
2.1. 1. fundur byggingarnefndar Uppsveita Árnessýslu, dags. 31. janúar 2006.
Fundargerð staðfest samhljóða.
- Fundargerðir til kynningar:
3.1. 213. fundur Launanefndar sveitarfélaga, dags. 28. janúar 2006.
- Aðalskipulagsmál; meðferð athugasemda og afgreiðsla:
4.1. Iða í Biskupstungum; innan þéttbýlisuppdráttar Laugaráss.
Lögð fram tillaga að breytingu aðalskipulags Biskupstungnahrepps 2000 – 2012 á svæði innan þéttbýlisuppdráttar Laugaráss. Tillagan gerir ráð fyrir að 55 ha lands breytist úr svæði undir landbúnað í svæði undir frístundabyggð. Þau svæði eru vestan þjóðvegar en einnig á spildu sunnan núverandi frístundabyggðar. Einnig breytist lóðin númer 4 við Hamarsveg (Hálsakot) úr svæði undir frístundabyggð í svæði undir landbúnað. Tillagan var í kynningu frá 16. nóvember – 14. desember 2005. Frestur til að skila inn athugasemdum var til 28. desember 2005. Athugasemdir Skipulagsstofnunar, sem komu fram áður en tillagan var auglýst, voru kynntar með tillögunni á auglýsingartíma.
Vegna athugasemda Skipulagsstofnunar, sem snertir liði 4.1., 4.2. og 4.3. vísast til sérstakrar bókunar sveitarstjórnar undir lið 4.3.
Ein athugasemd barst frá Birni Gunnlaugssyni þar sem óskað er eftir því að skipulagstillögunni verði breytt þannig, að reitirnir á norðanverðum Austur- og Suðurás verði felldir út og verði áfram merktir sem landbúnaðarsvæði en fari ekki undir frístundabyggð.
Sveitarstjórn samþykkir að leggja til við landeigendur að Iðu II að tekið verði tillit til framkominna athugasemda og óskar eftir því að þeir breyti skipulagstillögunni í samræmi við það, þannig að Austurás verði áfram merktur sem landbúnaðarsvæði.
Sveitarstjórn Bláskógabyggðar samþykkir samhljóða umrædda breytingartillögu á aðalskipulagi Biskupstungna sbr. 18. gr. Skipulags- og byggingarlaga, með fyrirvara um að Austurás verði áfram merktur sem landbúnaðarsvæði, og felur skipulagsfulltrúa að vinna málið áfram.
4.2. Iða II í Biskupstungum; utan þéttbýlisuppdráttar Laugaráss.
Lögð fram tillaga að breytingu aðalskipulags Biskupstungnahrepps 2000 – 2012 á svæði utan þéttbýlisuppdráttar Laugaráss. Tillagan gerir ráð fyrir að 77 ha lands breytist úr svæði undir landbúnað í svæði undir frístundabyggð. Þau svæði eru vestan þjóðvegar að Hvítá og austan hans á móts við frístundabyggð í hlíðum Vörðufells.
Tillagan var í kynningu frá 16. nóvember – 14. desember 2005. Frestur til að skila inn athugasemdum var til 28. desember 2005. Athugasemdir Skipulagsstofnunar, sem komu fram áður en tillagan var auglýst, voru kynntar með tillögunni á auglýsingartíma. Vegna athugasemda Skipulagsstofnunar, sem snertir liði 4.1., 4.2. og 4.3. vísast til sérstakrar bókunar sveitarstjórnar undir lið 4.3. Engar aðrar athugasemdir bárust.
Sveitarstjórn Bláskógabyggðar samþykkir samhljóða umrædda breytingartillögu á aðalskipulagi Biskupstungna sbr. 18. gr. Skipulags- og byggingarlaga, og felur skipulagsfulltrúa að vinna málið áfram.
4.3. Kjaransstaðir í Biskupstungum.
Lögð var fram tillaga að breytingu aðalskipulags Biskupstungnahrepps 2000 –2012. Tillagan gerir ráð fyrir því að 77 ha lands í nyrsta hluta jarðarinnar breytist úr landbúnaðarsvæði í frístundabyggð.
Tillagan er auglýst samhliða tillögu að deiliskipulagi frístundalóða á umræddu svæði.
Tillagan var í kynningu frá 16. nóvember – 14. desember 2005. Frestur til að skila inn athugasemdum var til 28. desember 2005. Athugasemdir Skipulagsstofnunar, sem komu fram áður en tillagan var auglýst, voru kynntar með tillögunni á auglýsingartíma. Engar aðrar athugasemdir bárust.
Sveitarstjórn Bláskógabyggðar samþykkir samhljóða umrædda breytingartillögu á aðalskipulagi Biskupstungna sbr. 18. gr. Skipulags- og byggingarlaga, og felur skipulagsfulltrúa að vinna málið áfram.
Bókun sveitarstjórnar vegna bréfs Skipulagsstofnunar og athugasemda, dags. 20. október 2005:
Í bréfi Skipulagsstofnunar, dags. 20. október 2005, gerir stofnunin athugasemdir við að með aðalskipulagsbreytingum í landi Iðu og Kjaranstaða sé verið að stækka verulega það svæði sem ætlað sé undir frístundabyggð í Biskupstungum, skv. aðalskipulagi Biskupstungnahrepps 2000 – 2012. Þessar athugasemdir snerta dagskrárliði 4.1., 4.2. og 4.3.
Jafnframt var bent á í bréfinu, að “áhrif frístundahúsabyggðar á umhverfi og samfélag voru ekki metin nema að litlu leyti á aðalskipulagi Biskupstungnahrepps 2000 – 2012 og ekki er gerð tilraun til þess að meta þessi áhrif í tilefni af þeim þremur breytingum sem nú liggja fyrir”.
Sveitarstjórn bendir á, að síðan aðalskipulag Biskupstungnahrepps 2000 – 2012 var unnið hefur uppbygging á frístundasvæðum og ásókn í frístundahús verið mun meiri en menn sáu fyrir. Í gildandi aðalskipulagi er gert ráð fyrir því að þétting frístundabyggðar verði fyrst og fremst í tengslum við þau svæði sem frístundahús eru fyrir. Þessar breytingartillögur sem nú liggja fyrir samræmast þessu ágætlega auk þess sem umrædd landsvæði hafa ekki verið nýtt til landbúnaðar undanfarin ár. Á Kjaranstöðum er reyndar ekki mikil frístundabyggð fyrir, en þar er heldur ekki gert ráð fyrir þéttri byggð þar sem hver lóð verður u.þ.b. 10 ha að stærð. Sveitarstjórn telur að umræddar aðalskipulagstillögur hafi jákvæð áhrif á samfélagið og muni bæta búsetuskilyrði og leggur því til að breytingarnar verði staðfestar.
4.4 Fell í Biskupstungum.
Lögð fram tillaga að breytingu aðalskipulags Biskupstungnahrepps 2000 – 2012. Tillagan gerir ráð fyrir því að 26 ha lands í landi Fells sunnan Biskupstungnabrautar, breytist úr landbúnaðarsvæði í frístundabyggð. Tillagan er auglýst samhliða tillögu að deiliskipulagi frístundalóða á umræddu svæði. Engar aðrar athugasemdir bárust.
Sveitarstjórn Bláskógabyggðar samþykkir samhljóða umrædda breytingartillögu á aðalskipulagi Biskupstungna sbr. 18. gr. Skipulags- og byggingarlaga, og felur skipulagsfulltrúa að vinna málið áfram.
4.5. Laugarás í Biskupstungum.
Tillaga að breytingu aðalskipulags Biskupstungnahrepps 2000 – 2012 innan þéttbýlisuppdráttar Laugaráss. Tillagan nær til austasta hluta byggðarinnar og gerir ráð fyrir því að athafnasvæði austan Laugarássbýlisins stækkar um 0,7 ha til suðurs og að opið svæði til sérstakra nota milli Austurbyggðar og Lindarbrekku breytist í íbúðarsvæði. Tillagan er auglýst samhliða tillögu að endurskoðuðu deiliskipulagi á holtinu.
Ein athugasemd barst frá Jens Pétri Jóhannssyni, dags. 27. desember 2005, þar sem hann mótmælir því að svæðið austan við götuna Laugarás breytist úr íbúðabyggð í athafnasvæði í aðalskipulagi, sérstaklega hvað varðar lóðir númer 2 og 4 í deiliskipulagstillögunni.
Sveitarstjórn er sammála framkomnum athugasemdum og staðfestir að lóðir nr. 2 og 4 falli undir íbúðabyggð.
Sveitarstjórn Bláskógabyggðar samþykkir samhljóða umrædda breytingartillögu á aðalskipulagi Biskupstungna sbr. 18. gr. Skipulags- og byggingarlaga, með fyrirvara um að lóðir 2 og 4 við Laugarás verði skilgreindar sem íbúðabyggð, og felur skipulagsfulltrúa að vinna málið áfram.
- Bréf frá skipulagsfulltrúa Uppsveita Árnessýslu:
5.1. Bréf dags. 24. janúar 2006; lóðarblað sumarhúsalóðar að Birkihlíð, Laugarvatni.
Sveitarstjórn staðfestir samþykkt skipulagsnefndar. Jafnframt vill sveitarstjórn benda á að umrædd lóð verður innan íbúðasvæðis skv. samþykkt sveitarstjórnar þann 17. janúar 2006, liður 3.2.
5.2. Bréf dags. 24. janúar 2006; 3 lóðarblöð vegna makaskipta, Laugarvatni.
Sveitarstjórn staðfestir samþykkt skipulagsnefndar.
5.3. Bréf dags. 24. janúar 2006; framkvæmdaleyfi fyrir vegslóða, Fremstaver.
Sveitarstjórn staðfestir samþykkt skipulagsnefndar.
- Mat á umhverfisáhrifum Gjábakkavegar.
Tekið fyrir erindi frá Skipulagsstofnun frá 17. janúar 2006, þar sem óskað er eftir umsögn Bláskógabyggðar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar.
Vegagerðin hefur lagt fram nýja matsskýrslu um Gjábakkaveg, þar sem lagðir eru fram átta kostir til athugunar, 5 austan megin og 3 vestan megin.
Sveitarstjórn hefur yfirfarið framkomin gögn og telur að í nýju umhverfismati komi einungis fram frekari staðfesting á að leið 3 + 7 sé hentugasta tenging á milli Laugarvatns og Þingvalla.
Sveitarstjórn Bláskógabyggðar samþykkir því að halda sér við fyrri samþykkt sína frá 15. október 2004 og felur sveitarstjóra að gefa umsögn um umhverfismatið í samræmi við 22. gr. reglugerðar nr. 671/2000 og með rökstuðningi í samræmi við fyrri samþykktir og umræðu á fundinum.
- Málefni hitaveitna.
Margeir gerði grein fyrir stöðu mála og lagði fram eftirfarandi bókun:
Á fundi sveitarstjórnar Bláskógabyggðar sem haldinn var 12. júlí 2005 var samþykkt að undirritaðir yrðu fulltrúar sveitarfélagsins í viðræðum við Orkuveitu Reykjavíkur. Kanna átti hvort grundvöllur væri fyrir sameiningu veitufyrirtækja Bláskógabyggðar og OR með það að markmiði að skapa frekari möguleika til eflingar byggðar og uppbyggingu atvinnulífs í Bláskógabyggð.
Eins og fram kom á minnisblaði sem lagt var fram á fundi sveitarstjórnar 17. janúar 2006 þá hafa aðilar komið sér saman um helstu forsendur sem nota skal við útreikninga á virði veitna sveitarfélagsins. Nú þegar að niðurstöður virðismatsins liggja fyrir þá getum við ekki lagt til að veiturnar verði seldar eða sameinaðar OR á þessum forsendum.
Þrátt fyrir það leggjum við sérstaka áherslu á að áfram verði kannað hvort grundvöllur sé fyrir samstarfi við OR á öðrum sviðum s.s. á sviði kaldavatns-, upplýsinga- og frárennslismála.
Margeir Ingólfsson
framkvæmdastjóri veitna Bláskógabyggðar
Valtýr Valtýsson
sveitarstjóri Bláskógabyggðar
Sveitarstjórn Bláskógabyggðar samþykkir með 5 atkvæðum (SAS, MI, SA, MB, GÞ) framlagða tillögu, en 2 sitja hjá (DK, KL). Kjartan gerði grein fyrir atkvæði sínu, og fagnaði því að ekki kæmi til sölu veitnanna.
- 3ja ára áætlun Bláskógabyggðar 2007 – 2009.
Önnur umræða. Valtýr gerði grein fyrir framlagðri þriggja ára áætlun Bláskógabyggðar með greinargerð, fyrir árin 2007 – 2009.
Helstu lykiltölur áætlunar fyrir samstæðureikning eru:
2007 2008 2009
Tekjur 592.745 619.764 645.412
Gjöld 546.068 567.439 586.131
Rekstrarniðurst. 17.864 25.969 35.357
Eignir 659.205 652.825 654.794
Skuldir 458.391 426.042 392.654
Eigið fé 200.814 226.783 262.140
Fjárfestingar (nettó) 6.000 12.000 15.000
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða framlagða þriggja ára áætlun.
- Samstarfs- og þróunarsamningur við Gámaþjónustuna hf.
Lögð fram drög að samstarfs- og þróunarsamningi við Gámaþjónustuna hf. og gerði Valtýr grein fyrir forsendum hans.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða framlögð drög að samningi.
- Almennir fólksflutningar til Þingvalla og innan Bláskógabyggðar.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að vinna ályktun um fyrirkomulag almenningssamgangna til og innan Bláskógabyggðar. Ályktunin verði lögð fram á næsta fundi sveitarstjórnar.
- Hollvinasamtök Gufubaðsins.
Almennar umræður urðu um uppbyggingaráform hjá Hollvinasamtökum Gufubaðsins og Gufu ehf.
- Tillögur frá Launanefnd sveitarfélaga:
12.1. Samþykkt LN vegna Félags leikskólakennara.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að nýta sér heimild LN um tímabundnar launaviðbætur við gildandi kjarasamning við Félag leikskólakennara og bæta við launaflokkum og eingreiðslum skv. samþykkt LN dags. 28. janúar 2006.
12.2. Samþykkt LN v/ stéttarfélaga sem samið hafa um starfsmat.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að nýta sér heimild LN um tímabundnar launaviðbætur við gildandi kjarasamning við Samflot bæjarstarfsmannafélaga. Umsamin ný launatenging starfsmats taki gildi frá 1. janúar 2006, að lægsti viðmiðunarlaunaflokkur útborgaðra launa verði lfl. 115 og að bætt verði við mánaðarlegum eingreiðslum eins og tilgreint er í dálkum C í fylgiskjali með samþykkt LN dags. 28. janúar 2006.
- Innsend bréf og erindi:
13.1. Málflutningsskrifstofan, 30. janúar 2006; Landamerki Kjarnholta I og II.
Lagt fram bréf frá Málflutningsskrifstofunni, dags. 30. janúar 2006, sem ritað er að beiðni Magnúsar Einarssonar, Kjarnholtum I, vegna landamerkja Kjarnholta I og Kjarnholta II.
Vísað er til bókunar skipulagsnefndar Uppsveita Árnessýslu, 17. nóvember 2005, lið 4, þar sem lögð voru fram sjö landspildublöð sem sýna skiptingu Kjarnholta II.
Þar sem ljóst er, að uppi er ágreiningur um landamerki jarðanna Kjarnholta I og Kjarnholta II samþykkir sveitarstjórn að fella úr gildi samþykkt á því landspildublaði (spilda 4), þar sem ágreiningur er um landamerki jarðanna.
13.2. Beiðni um styrk til Hjálparsveitar skáta í Hveragerði.
Fram er lögð beiðni um styrk til Hjálparsveitar skáta í Hveragerði. Sveitarstjórn sér sig ekki fært að veita fjárstyrk, en óskar sveitinni alls hins besta við endurbyggingu aðstöðunnar fyrir starfsemina.
13.3. Beiðni um styrk ; Íþróttasamband Lögreglumanna.
Styrkumsókn hafnað.
13.4. Jöfnunarsjóður sveitarfélaga; dags 26. janúar 2006.
Lagt fram bréf frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga, dags. 26. janúar 2006, þar sem óskað er eftir sjónarmiðum sveitarfélaga varðandi núverandi reglur sem gilda um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga. Oddvita og sveitarstjóra falið að senda inn svör til nefndarinnar.
- Efni til kynningar:
14.1. Félag fagfólks í frítímaþjónustu, dags. 19. janúar 2006.
14.2. Landbúnaðarháskóli Íslands, dags. 27. janúar 2006.
Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 18:00.