59. fundur
- fundur byggðaráðs Bláskógabyggðar, haldinn í Aratungu þann 29. ágúst 2006 kl. 15:00.
Mætt: Sigrún Lilja Einarsdóttir, formaður, Margeir Ingólfsson, Drífa Kristjánsdóttir og Valtýr Valtýsson sveitarstjóri sem ritaði fundargerð.
- Bréf frá hjólhýsaeigendum á Laugarvatni dags. 27. júlí 2006 varðandi byggingu sólskála við hjólhýsin. Bréfinu fylgir undirskriftarlisti frá aðilum sem hafa hjólhýsi á svæðinu.
Byggðaráð vill benda á að allar byggingar sem grunda skal þurfa skipulagðan byggingarreit sem hlotið hefur formlega afgreiðslu í deiliskipulagi og með lóðarblaði. Ekki er um slíkt að ræða þar sem hjólhýsasvæðið er skilgreint í aðalskipulagi með sama hætti og tjaldsvæði.
Byggðaráð leggur til að þessu erindi verði hafnað.
- Bréf frá Hilmari Erni Agnarssyni og Karli Hallgrímssyni dags. 17. ágúst 2006 þar sem óskað er eftir fjárstyrk til að fullvinna hljóðupptökur með söng 12 – 16 ára barna úr Kammerkór Biskupstungna.
Byggðaráð leggur til að erindinu verði vísað til menningarmálanefndar til umsagnar.
- Bréf frá Sveini Geir Sigurjónssyni dags. 14. ágúst 2006 þar sem óskað er eftir því að Bleikjubær ehf. fái greiðslufrest á fasteignagjaldaskuld fyrirtækisins við Bláskógabyggð.
Byggðaráð leggur til að sveitarstjóra verði falið að semja við eigendur Bleikjubæjar ehf. um greiðslufyrirkomulag gjaldfallinna fasteignargjalda.
- Endurskoðun á gjaldskrá mötuneyta Bláskógabyggðar.
Byggðaráð leggur til að gjaldskrá mötuneyta Bláskógabyggðar fyrir nemendur, aldraða og starfsmenn sveitarfélagsins hækki í samræmi við breytingu neysluverðsvísitölu frá 1. ágúst 2005 til 1. ágúst 2006, en það er 8,55% hækkun.
Einnig leggur byggðaráð til að gjaldskrá fyrir kostgangara hækki um 14%. Breytingarnar taki gildi frá og með 1. september 2006.
- Endurskoðun á þóknun fyrir fundarsetu hjá Bláskógabyggð.
Byggðaráð leggur til að þóknun fyrir fundarsetu fyrir kjörtímabilið 2006 – 2010 verði eftirfarandi:
- Aðalmenn í sveitarstjórn fái greitt kr. 25.000 á mánuði og breytist þóknunin tvisvar á ári í samræmi við launavísitölu, miðað við 1. janúar og 1. júlí ár hvert og í fyrsta skipti 1. janúar 2007. Varamenn fái greitt 3% af þingfarakaupi fyrir hvern setinn fund.
- Fulltrúar í byggðaráði fái greitt 3% af þingfarakaupi fyrir hvern setinn fund. Formaður fái greidda tvöfalda þóknun fyrir hvern fund.
- Fulltrúar í öðrum nefndum Bláskógabyggðar, skv. samþykktum sveitarfélagsins, fái greitt 1,5% af þingfarakaupi fyrir hvern setinn fund. Formaður fái greidda tvöfalda þóknun fyrir hvern fund.
- Fulltrúar í fræðslunefnd fái greitt skv. samstarfssamningi um skólamál sem í gildi er við Grímsnes- og Grafningshrepp.
- Veitustjórn ákveður nefndarlaun fyrir fulltrúa í stjórn.
- Skoðunarmenn fái greitt 4% af þingfarakaupi á ári fyrir sín störf.
- Oddviti og sveitarstjóri fá ekki greitt sérstaklega fyrir fundarsetu.
- Akstur er almennt ekki greiddur vegna fundarhalda innan sveitarfélagsins. Þó er gert ráð fyrir því að jafna ferðakostnað innan sveitarfélagsins vegna fundarhalda með því að akstur umfram 300 km á ári verður styrktur skv. aksturstaxta RSK. Til þess að fá akstur greiddan og kostnað vegna funda utan sveitarfélagsins þarf viðkomandi að vera sérstaklega kjörinn fulltrúi sveitarfélagsins á þeim fundi.
- Eftirfarandi fundargerðir eru lagðar fram til staðfestingar:
6.1 Fundargerð 82. fundar félagsmálanefndar Uppsveita Árnessýslu sem haldinn var 27. júlí 2006. Staðfest samhljóða.
6.2 Fundargerð bygginganefndar Uppsveita Árnessýslu sem haldinn var 8. ágúst 2006.
Varðandi lið 1468 í fundargerð, umsókn um endurbyggingu og stækkun hesthúss að Spóastöðum, þá beinir byggðaráð því til byggingarnefndar að endurskoða afgreiðslu þessa liðar í ljósi nýrra upplýsinga sem liggja fyrir.
Fundargerðin staðfest samhljóða að öðru leyti.
6.3 Fundargerð 28. fundar skipulagsnefndar Uppsveita Árnessýslu sem haldinn var 9. ágúst 2006.
Varðandi lið 20 í fundargerð, Syðri-Reykir, lóðarblað – Eyrar, þá samþykkir byggðaráð umrætt lóðarblað með fyrirvara um samþykki eigenda aðliggjandi landa.
Fundargerðin staðfest að öðru leyti samhljóða.
- Eftirfarandi erindi eru lögð fram til kynningar:
7.1 Reglugerð um framkvæmd verndunar vatnasviðs og lífríkis Þingvallavatns.
7.2 Fundargerð 87. fundar stjórnar Skólaskrifstofu Suðurlands sem haldinn var 16. ágúst 2006.
7.3 Bréf frá Skipulagsstofnun dags. 18. ágúst 2006 varðandi breytingu á aðalskipulagi í landi Leynis í Laugardal.
7.4 Fundargerð 86. fundar stjórnar Skólaskrifstofu Suðurlands sem haldinn var 24. maí 2006.
7.5 Fundargerð 88. fundar Heilbrigðisnefndar Suðurlands sem haldinn var 28. júlí 2006.
7.6 Fundargerð 395. stjórnarfundar SASS sem haldinn var 10. ágúst 2006.
7.7 Bréf frá Skólaskrifstofu Suðurlands, dags. 1. ágúst 2006.
7.8 Bréf frá Atvinnuþróunarfélagi Suðurlands, dags. 31. júlí 2006.
7.9 Bréf frá Félagsmálaráðuneytinu, dags. 11. ágúst 2006.
Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 16:15.