6. fundur

Umhverfisnefnd Bláskógabyggðar.

Fundur nr. 6  haldinn í Aratungu, Reykholti  kl. 09.00  þann  21.06.2012

Mætt: Herdís Friðriksdóttir, Pálmi Hilmarsson, Sigríður Jónína Sigurfinnsdóttir.

1.  Herdís formaður setti fund og bauð alla velkomna. Umræður hófust á því að ræða um
uppgang Skógarkerfils og Spánarkerfils. Snerist það að nokkru um hver væri skylda
sveitarfélagsins gagnvart eyðingu kerfils meðfram þjóðvegum og hvort Vegagerðin
eða sveitarfélagið ætti að sjá um þá vinnu og kostnað sem því fylgir. Nokkrar áhyggjur
eru af uppgangi Kerfilsins en t.d. í Eyjafirði standa menn frammi fyrir stórum vanda
og þar er eitrað skipulega til að halda honum niðri. Sigríður gerði lauslega könnun á
umfangi hans með vegum en talsvert er nú af honum við Iðu og slæðingur er alveg að
Ósabakka og einnig nánast upp að Hrosshaga í hina áttina. Eyfirðingar eru búnir að
setja inn á heimasíðuna esveit.is talsverðar upplýsingar um kerfilinn, útbreiðslu og
hvernig best sé að standa að því að halda honum niðri. En ljóst er að landeigendur
hverju sinni bera ábyrgð á því að fjarlægja hann. Vel hefur gefist að nota eitur sem ber
nafnið Clinic en fara þarf varlega með það því það drepur allan gróður sem það kemst
í snertingu við. Miðað við þær upplýsingar sem gefnar eru upp á netinu um þetta efni
þá mælir umhverfisnefnd með að reynt sé sem fyrstu aðgerðir að nota þetta efni til að
eitra fyrir kerfil. Ákveðið að hafa samband við Svan G. Bjarnason svæðisstjóra hjá
Vegagerðinni og kanna hvort þeir muni sjá um eitrun á vegköntum í sveitarfélögum.
Einnig að senda bréf á öll heimili í sveitarfélaginu þar sem varað er við útbreiðslu
kerfils og hver viðbrögð eiga helst að vera og bent þar á upplýsingar um kerfil á
heimasíðu sveitarinnar undir umhverfismál. Þar að auki fái sveitarstjórn sérstakt bréf
þar sem hvatt er til að sveitarfélagið sjái um að þau lönd sem því tilheyrir séu laus við
kerfil og upplýsingar séu vel aðgengilegar á heimasíðu.

2.  Þá var rætt um umhverfisverðlaun sem verða veitt nú seinni part sumars en að þessu
sinni á að verðlauna þá iðnaðarlóð sem þykir skara  fram úr hvað snyrtimennsku
varðar. Helst er verið að horfa til þéttbýliskjarna sveitarfélagsins að þessu sinni og þá
starfsemi sem þar er eins og t.d. ferðaþjónusta, garðyrkjulóðir eða aðrar iðnaðarlóðir.
Stefnt er að því að veita verðlaunin á sveitahátíð  sem halda á í Bláskógabyggð 25
ágúst næstkomandi.

3.  Rætt var aðeins um frárennslismál sveitarinnar og ákveðið að fá Kristinn svæðisstjóra
á næsta fund hjá nefndinni til upplýsingar um hvernig þau mál standa nú. Stefnt er á að
sá fundur verði 8 eða 9 ágúst.

Fundi slitið kl. 10.30

Pálmi Hilmarsson.