63. fundur

  1. fundur byggðaráðs Bláskógabyggðar, haldinn í Aratungu þann 2. janúar 2007 kl. 15:00.

 

Mætt: Margeir Ingólfsson, Þórarinn Þorfinnsson varamaður vegna fjarveru Sigrúnar Lilju Einarsdóttur, Drífa Kristjánsdóttir og Valtýr Valtýsson sveitarstjóri sem ritaði fundargerð. 

 

Margeir Ingólfsson lagði fram tillögu að breytingu á dagskrá, að inn kæmi nýr liður 4.4.  Samþykkt samhljóða.

 

  1. Samningur við Vinnumálastofnun vegna atvinnuleysisskráningu.

Lögð fram drög að samningi milli Vinnumálastofnunar og Bláskógabyggðar vegna þjónustu við atvinnuleitendur í sveitarfélaginu.  Gildistími samnings þessa er frá 1. júlí 2006 til 31. desember 2007.

Byggðaráð leggur til að samningur þessi verði samþykktur og sveitarstjóra falið að undirrita samninginn fyrir hönd sveitarfélagsins.

 

  1. Skipulagsmál.

2.1.    Tillaga að breytingu aðalskipulags Biskupstungnahrepps 2000-2012; Kjarnholt.

Byggðaráð leggur til að heimiluð verði auglýsing þessarar tillögu að breytingu aðalskipulags Biskupstungnahrepps, þó með þeim fyrirvara að áður en að auglýsingu komi verði uppdráttur lagfærður og settur upp á þann hátt að hann sýni bæði núgildandi skipulag ásamt uppdrætti af breytingatillögunni.  Fram komi á uppdrætti landnýting viðkomandi svæðis og þeirra svæða sem liggja að umræddu landsvæði.  Einnig komi fram stærð umrædds skipulagssvæðis í greinargerð.

 

2.2.    Aðalskipulagsbreytingar í Bláskógabyggð:

2.2.1.    Efri-Reykir í Biskupstungum.

Lögð fram tillaga að breytingu á aðalskipulagi Biskupstungnahrepps 2000-2012 í landi Efri-Reykja.  Í breytingunni felst að um 30 ha svæði breytist úr landbúnaðarsvæði í svæði fyrir frístundabyggð.  Svæðið afmarkast af Laugarvatnsvegi að sunnan, Brúará að norðan og núverandi svæðum frístundabyggða að austan og vestan.

Tillagan var í auglýsingu frá 31. ágúst til 28. september 2006, og með athugasemdafresti til 12. október 2006.  Engar athugasemdir bárust og umsögn Umhverfisstofnunar liggur fyrir.  Umhverfisstofnun gerir athugasemd um annars vegar að stærð landsvæðis sé ekki tilgreint í greinargerð og hins vegar að ekki eigi að afmarka svæði undir frístundabyggð nær Brúará en 100 m.

Byggðaráð Bláskógabyggðar bendir á að í samræmi við athugasemdir UST verði að færa inn stærð hins nýja skipulagssvæðis í greinargerð með breytingartillögunni.  Varðandi afmörkun svæðisins sem snýr að Brúará, þá leggur byggðaráð til að fallist verði á afmörkun svæðisins 50 m frá Brúará, enda samræmist það stefnumörkun aðalskipulags Biskupstungnahrepps 2000-2012 og samræmist einnig aðliggjandi frístundasvæðum meðfram Brúará.

Byggðaráð leggur til við sveitarstjórn að umrædd tillaga að breytingu aðalskipulags Biskupstungnahrepps 2000-2012 verði samþykkt, sbr. 18. gr. Skipulags- og byggingarlaga og feli skipulagsfulltrúa að vinna málið áfram.  Þó skal færa inn stærð skipulagssvæðisins inn í greinargerð fyrir endanlega afgreiðslu skipulagstillögunnar.

2.2.2.    Austurhlíð í Biskupstungum.

Lögð fram tillaga að breytingu aðalskipulags Biskupstungnahrepps 2000-2012 í landi Austurhlíðar.  Tillagan gerir ráð fyrir því að 8 ha lands norðan þjóðvegar og ofan við bæjartorfuna breytist úr landbúnaðarsvæði í svæði fyrir frístundabyggð.

Tillagan var auglýst frá 19. október til 16. nóvember 2006 með athugasemdafresti til 30. nóvember 2006.  Engar athugasemdir bárust.

Byggðaráð Bláskógabyggðar leggur til við sveitarstjórn að umrædd breytingartillaga á aðalskipulagi Biskupstungnahrepps verði samþykkt, sbr. 18. gr. Skipulags- og byggingarlaga og feli skipulagsfulltrúa að vinna málið áfram.

2.2.3.    Laugarás í Biskupstungum.

Lögð fram tillaga að breytingu aðalskipulags Biskupstungnahrepps 2000-2012, þéttbýlið Laugarás.  Tillagan gerir ráð fyrir því að 5 ha verslunar- og þjónustusvæði umhverfis Iðufell breytist í íbúðarsvæði til að mæta vaxandi eftirspurn eftir lóðum undir íbúðabyggð í Laugarási.

Tillagan var auglýst frá 19. október til 16. nóvember 2006 með athugasemdafresti til 30. nóvember 2006.  Engar athugasemdir bárust.

Byggðaráð Bláskógabyggðar leggur til við sveitarstjórn að umrædd breytingartillaga á aðalskipulagi Biskupstungnahrepps verði samþykkt, sbr. 18. gr. Skipulags- og byggingarlaga og feli skipulagsfulltrúa að vinna málið áfram.

2.2.4.    Lækjarhvammur í Laugardal.

Lagt fram bréf Skipulagsstofnunar, dags. 30. nóvember 2006, vegna tillögu að breytingu á aðalskipulagi Laugardalshrepps 2000-2012, frístundabyggð í landi Lækjarhvamms.

Í bréfi Skipulagsstofnunar kemur fram að stofnunin mun afgreiða erindi Bláskógabyggðar, dags. 20. nóvember 2006 þegar umsögn Fornleifaverndar liggur fyrir og sveitarfélagið hefur tekið afstöðu til athugasemda Umhverfisstofnunar varðandi votlendi, sbr. bréf dags. 14. ágúst 2006.

Byggðaráð vill benda á að deiliskipulag fyrir umrætt landsvæði mun ekki verða tekið til afgreiðslu hjá sveitarstjórn fyrr en umsögn Fornleifaverndar liggur fyrir.  Til þessa hefur ekki talist þörf á umsögn Fornleifaverndar þegar um breytingu á aðalskipulagi er að ræða.

Varðandi athugasemdir Umhverfisstofnunar um röskun votlendis vísar Byggðaráð Bláskógabyggðar til sveitarstjórnar eftirfarandi tillögu að svari við umræddum athugasemdum:

Það landsvæði sem umrædd breytingartillaga fjallar um er utan hverfisverndarsvæðis eins og skilgreint er í aðalskipulagi Laugardalshrepps 2000-2012 og fjallar um verndun ákveðinna votlendissvæða.  Sveitarstjórn hefur á fundi sínum þann 7. nóvember 2006 samþykkt að beina athugasemdum UST til eigenda umrædds lands þar sem þær snúa að deiliskipulagstillögunni en ekki aðalskipulagstillögunni.  Í bókun sveitarstjórnar komu einnig fram efasemdir um að umrætt landsvæði bæri eins þétta byggð og deiliskipulagstillagan gerði ráð fyrir.

Sveitarstjórn hefur því á fyrri stigum þessa máls talið að mögulegt sé að hafa frístundabyggð á svæðinu án mikillar röskunar á votlendinu með því að minnka þéttleika byggðarinnar.  Jafnframt er rétt að benda á að umrætt landsvæði er ekki nema að hluta til votlendi.  Nánari útfærsla á nýtingu landsins komi fram í deiliskipulagstillögu og þá verði þess gætt að sem minnst röskun á votlendi eigi sér stað.  Rétt er að benda á, að ekki er lengur gert ráð fyrir að grafnir verði skurðir meðfram vegum til að koma í veg fyrir óþarfa skerðingu á votlendinu.

Byggðaráð vill ítreka fyrri afstöðu sveitarstjórnar, að efasemdir eru um þéttleika byggðar sbr. tillögu að deiliskipulagi og óskar eftir því við landeigendur og þá sem vinna að deiliskipulagi svæðisins að leitast verði eftir því að vernda votlendi svæðisins að svo miklu leyti sem kostur er.

 

  1. Bæjarhlið í Reykholti.

Lögð fram tillaga frá Vegagerðinni, ásamt uppdrætti, að bæjarhliði á Biskupstungnabraut ofan við þéttbýlið í Reykholti.

Forsenda þess að þessi tillaga verði að veruleika er að vegtengingum inn á Biskupstungnabraut, annars vegar við Gilbrún verði lokað, og hins vegar vegtenging inn að Vegholti þar á móti verði lokað og breytt í reiðveg.

Byggðaráði lýst vel á þessar hugmyndir og felur oddvita / sveitarstjóra að kynna þessar hugmyndir íbúum við Dalbraut og hesthúsaeigendum við Vegholt áður en endanleg ákvörðun verur tekin.

 

  1. Innsend bréf og erindi:

4.1.    Snorraverkefnið 2007, dags. 5. desember 2006.

Byggðaráð leggur til að ekki verði tekið þátt í verkefninu árið 2007.

 

4.2.    Golfklúbburinn Dalbúi, mótt. 21. desember 2006.

Byggðaráð leggur til að veittur verður styrkur á árinu 2007 vegna vega- og bílastæðaframkvæmda við kirkjuna í Miðdal að upphæð kr. 200.000.  Einnig leggur byggðaráð til að veittur verður samsvarandi styrkur vegna framkvæmda við aðkomu og bílastæði við kirkjugarðinn og kirkju í Úthlíð að upphæð kr. 200.000 á árinu 2007.

Varðandi beiðni Golfklúbbsins Dalbúa um viðræður við sveitarstjórn Bláskógabyggðar um barna- og unglingastarf klúbbsins, þá tekur byggðaráð vel í þá beiðni og lýsir sig reiðubúið til viðræðna við forsvarsmenn golfklúbbsins.

 

 

4.3.    Tillaga að hækkun aðgangseyris í sundlaug og íþróttahús, Reykholti.

Lögð fram tillaga frá forstöðumanni íþróttamiðstöðvarinnar í Reykholti um breytingu á aðgangseyri að íþróttahúsi og sundlaug í Reykholti.

Byggðaráð leggur til að tillagan verði samþykkt og að aldursbil fyrir gjaldskrá barna verði 5 – 16 ára.

 

4.4.    Erindi frá Dóms- og kirkjumálaráðuneytinu, dags. 27. desember 2006.

Lagt fram bréf frá Dóms- og kirkjumálaráðuneytinu þar sem óskað er eftir umsögn um nýja reglugerð um stjórnsýsluumdæmi sýslumanna og lögregluumdæmi lögreglustjóra.

Byggðaráð Bláskógabyggðar hefur engar athugasemdir við nýja reglugerð.

 

  1. Efni til kynningar:

5.1.    Umhverfisráðuneytið, dags. 18. desember 2006, kynning á erindis Jóns Viðars Sigurðssonar um efnistöku við lagningu Sultartangalínu 3.

5.2.    Bréf til sveitarstjórnarmanna á Suðvesturlandi frá Þorsteini Hákonarsyni, dags 4. desember 2006.

 

  1. Fundargerðir til staðfestingar:

6.1.    Fundargerð 87. fundar félagsmálanefndar Uppsveita Árnessýslu.

Staðfest samhljóða.

6.2.    Fundargerð 32. fundar skipulagsnefndar Uppsveita Árnessýslu.

Staðfest samhljóða.

 

  1. Fundargerðir til kynningar:

7.1.    Fundargerð 78. fundar Brunavarna Árnessýslu.

7.2.    Fundargerð 94. fundar Heilbrigðisnefndar Suðurlands.

7.3.    Fundargerð 90. fundar stjórnar Skólaskrifstofu Suðurlands.

7.4.    Fundargerð 3. fundar Inntökuráðs Gaulverjaskóla.

7.5.    Fundargerð 4. fundar Inntökuráðs Gaulverjaskóla.

7.6.    Fundargerð 137. fundar stjórnar Sorpstöðvar Suðurlands.

 

 

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 16:45.