64. fundur

  1. fundur byggðaráðs Bláskógabyggðar, haldinn í Aratungu þann 30. janúar 2007 kl. 15:00.

 

 

Mætt: Margeir Ingólfsson, Þórarinn Þorfinnsson varamaður vegna fjarveru Sigrúnar Lilju Einarsdóttur, Drífa Kristjánsdóttir og Valtýr Valtýsson sveitarstjóri sem ritaði fundargerð. 

 

Margeir Ingólfsson lagði fram tillögu að breytingu á dagskrá, að inn komi nýr liður 6.3. Samþykkt samhljóða.

 

  1. Tillaga að breytingu á aðalskipulagi Biskupstungnahrepps 2000 – 2012; Iða II.

Lögð var fram tillaga að breytingu á aðalskipulagi Biskupstungnahrepps 2000 – 2012 í landi Iðu II.  Þann 13. desember 2005 samþykkti sveitarstjórn Bláskógabyggðar að auglýsa tillöguna. Hún fól í sér að svæði, sem nær yfir lóðir 10 og 11 í frístundabyggð í Vörðufelli, verði breytt í íbúðarsvæði.

 

Í afgreiðslu Skipulagsstofnunar skv. 2. mgr. 17. gr. skipulags- og byggingarlaga dags. 7. júlí 2006 kom m.a. fram að stofnunin teldi að um væri að ræða grundvallarbreytingu á aðalskipulaginu og þess vegna þyrfti að kynna tillöguna fyrir íbúum svæðisins í samræmi við 1. mgr. 17. gr. skipulags- og byggingarlaga áður en hún yrði afgreidd til auglýsingar og kynningar.  Einnig komu fram athugasemdir Skipulagsstofnunar í þessu bréfi.

 

Þann 28. nóvember 2006 var tillagan send til allra lóðarhafa í landi Iðu II til kynningar og var gefinn frestur til 2. janúar 2007 til að koma fram með athugasemdir.  Alls bárust 11 athugasemdir undirritaðar af 22 einstaklingum og fulltrúa eins eigendafélags.

 

Í stuttu máli má segja að athugasemdirnar snúist að miklu leyti að núverandi ónæði vegna íbúa á lóð 10 og 11, og að með þessari breytingu sé verið að auka rétt þeirra á svæðinu miðað við það sem nú er, t.d. í tengslum við atvinnustarfsemi.  Umkvartanir snúast m.a. að miklu ónæði af bílaumferð (hávaða og hraða) og dýrahaldi (lausum hundum og gæsum).  Einnig er bent á að efast er um að hús á umræddri lóð standist kröfur um íbúðarhús og að lóðir á þessu svæði hafi verið seldar sem frístundalóðir, forsendur sem lágu til grundvallar þegar aðrir eigendur keyptu sínar lóðir.  Flestir þeir sem gera athugasemdir áskilja sér rétt til skaðabóta ef tillagan verður samþykkt.

 

Að mati byggðaráðs Bláskógabyggðar þarf almennt að fara varlega í að blanda saman íbúðar- og frístundabyggð.  Í ljósi athugasemda leggur byggðaráð til að aðalskipulaginu verði ekki breytt á þann hátt að lóðir 10 og 11 verði skilgreindar sem íbúðarsvæði.

 

  1. Erindi frá Gufu ehf. – hækkun á hlutafé.

Lagt fram bréf frá Gufu ehf, dags. 17. janúar 2007, þar sem kynnt er tillaga um aukningu á hlutafé félagsins sem samþykkt var á hluthafafundi þann 5. desember 2006.  Í tillögunni kemur fram að núverandi hluthafar skulu eiga forgangsrétt til áskriftar á nýju hlutafé í réttu hlutfalli við hlutaeign sína í félaginu.

Sveitarstjóra og oddvita falið að ræða við forsvarsmenn Gufu ehf. vegna fyrri ákvörðunar sveitarstjórnar um hlutfjárkaup í félaginu, sem bókuð var á fundi sveitarstjórnar þann 10. maí 2005.

 

  1. Sorphirðumál

Margeir kynnti niðurstöður greiningarvinnu á kostnaði við sorphirðu í sveitarfélaginu, sem unnin var af forstöðumanni þjónustumiðstöðvarinnar.  Einnig kynnti hann niðurstöður fundar með forsvarsmönnum Gámaþjónustunnar.

Í ljósi þess að unnið er að markvissri greiningu og kostnaðareftirliti við sorphirðuna leggur byggðaráð til að samningur við Gámaþjónustuna verði framlengdur til eins árs.  Á þessu ári mun gagnasöfnun og eftirlit skila mun betri gögnum sem hægt er að leggja til grundvallar ef bjóða skal út sorphirðu sveitarfélagsins að nýju.

 

  1. Innsend bréf og erindi:

4.1. Bréf frá Hrunamannahreppi, dags. 16. janúar 2007.

Í bréfinu kemur fram ósk Hrunamannahrepps að endurskoðað verði samkomulag um eflingu atvinnulífs frá 1981.

Byggðaráð leggur til að oddviti sveitarstjórnar Bláskógabyggðar taki þátt í viðræðum við forsvarsmenn hinna sveitarfélaganna, Hrunamannahrepps og Skeiða- og Gnúpverjaharepps, um endurskoðun þessa samkomulags, með það að markmiði að samkomulagið verði fellt úr gildi.

4.2. Bréf frá Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu, dags. 22. janúar 2007.

Í bréfinu er óskað eftir umsögn sveitarstjórnar um drög að reglugerð um takmarkanir á tóbaksreykingum, svo og drögum að reglugerð um smásölu tóbaks.

Byggðaráð hefur engar athugasemdir við framlögð drög að reglugerðum.

 

  1. Efni til kynningar:

5.1. Umboðsmaður Alþingis, dags 29. desember 2006.

Um er að ræða álit umboðsmanns Alþingis í tilefni kvörtunar Hreins Pálssonar, vegna ákvörðunar sveitarstjórnar um álagningu seyrulosunargjalds.  Í álitinu koma fram tilmæli til sveitarfélagsins að það taki til endurskoðunar ákvæði gjaldskrár 410/2005 og ákvæði samþykktar 408/2005 um hirðu og meðhöndlun seyru. Byggðaráð leggur til að framkomin tilmæli verði höfð til hliðsjónar við endurskoðun samþykktar og gjaldskrár sem fara mun fram á þessu ári.

5.2. Menntamálaráðuneytið, dags. 22. desember 2006.

Kynntar breytingar á grunnskólalögum nr. 66/1999 og endurskoðaður almennur hluti aðalnámskrár grunnskóla frá 1999.

5.3. Menntamálaráðuneytið, dags. 20. desember 2006.

Kynning á leiðbeinandi verklagsreglum um tilkynningarskyldu starfsfólks leik-, grunn- og framhaldsskóla til barnaverndarnefnda.

 

  1. Fundargerðir til staðfestingar:

6.1. Fundargerð skipulagsnefndar Uppsveita Árnessýslu, 33. fundur.

Staðfest samhljóða.

 

6.2. Fundargerð félagsmálanefndar Uppsveita Árnessýslu, 88. fundur.

Staðfest samhljóða.

6.3. Fundargerð 23. fundar oddvita Uppsveita Árnessýslu, 25. janúar 2007.

Staðfest samhljóða.

 

  1. Fundargerðir til kynningar:

7.1. Fundargerð Sambands íslenskra sveitarfélaga, 738. fundur

7.2. Fundargerð SASS, 399 fundur

7.3. Fundargerð Heilbrigðisnefndar Suðurlands, 95. fundur

7.4. Fundargerð Atvinnuþróunarfélags Suðurlands, 263. fundur

7.5. Fundargerð Atvinnuþróunarfélags Suðurlands, 264. fundur

 

 

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 17:00.