68. fundur
- fundur sveitarstjórnar Bláskógabyggðar haldinn
þriðjudaginn 9. janúar 2007, kl 15:00
í Fjallasal, Aratungu
Mætt voru:
Margeir Ingólfsson oddviti, Drífa Kristjánsdóttir, Sigrún Lilja Einarsdóttir, Jóhannes Sveinbjörnsson, Þórarinn Þorfinnsson, Jens Pétur Jóhannsson sem varamaður Snæbjörns Sigurðssonar og Kjartan Lárusson. Einnig var mættur Valtýr Valtýsson, sveitarstjóri sem ritaði fundargerð.
Oddviti lagði fram tillögu að dagskrárbreytingu. Inn komi nýr 2. liður og færast aðrir liðir til sem því nemur. Einnig komi inn nýir liðir 9.4, 9.5 og 10. Samþykkt samhljóða.
- Fundargerð byggðaráðs til staðfestingar:
- fundur byggðaráðs, dags. 2. janúar 2007. Staðfest samhljóða.
- Fundargerðir til staðfestingar:
Fundargerð 11. fundar fræðslunefndar Bláskógabyggðar og Grímsnes- og Grafningshrepps, 8. janúar 2007. Staðfest samhljóða með fyrirvara um samþykki fræðslunefndar.
- Skipulagsmál:
Erindi frá Samvinnunefnd um svæðisskipulag miðhálendisins, dags. 17.11.2006. Í bréfinu er leitað eftir viðbrögðum Bláskógabyggðar vegna athugasemda Umhverfisstofnunar og Landverndar, sem voru meðfylgjandi bréfi samvinnunefndar.
Sveitarstjórn bendir á að umferð um svæðið hefur nú þegar aukist mikið frá því sem áður var og mun að öllum líkindum halda áfram að aukast á komandi árum í samræmi við almenna aukningu ferðamanna og aukinn áhuga á ferðum um óbyggðir landsins. Þegar svæðisskipulag miðhálendisins var í vinnslu á sínum tíma var ekki gert ráð fyrir hálendismiðstöð í Skálpanesi enda var þá ekki séð fyrir sú þróun sem orðið hefur á svæðinu síðan m.t.t. fjölda ferðamanna. Forsendur hafa breyst og er nú staðan þannig að um 30 þúsund ferðamenn koma að Skálpanesi á ári hverju og er ekki séð annað en að þessi þróun eigi eftir að halda áfram. Eins og Umhverfisstofnun bendir á, þá hefur aukinn fjöldi ferðamanna í för með sér aukið álag á umhverfið og er því nauðsynlegt að gera ráðstafanir til að geta tekið á móti þessum fjölda, m.a. með skynsamlegri uppbyggingu á ákveðnum svæðum og stýra þannig umferð um þetta viðkvæma svæði. Þar sem umferð um Skálpanes er þegar í dag orðin töluvert mikil, þá er að mati sveitarstjórnar skynsamlegt að halda uppbyggingu áfram á þessu svæði.
Ljóst er að uppbygging hálendismiðstöðvar mun hafa einhver sjónræn áhrif í för með sér en með faglega unnu skipulagi og skynsamlegri uppbyggingu í samráði við þá sem hagsmuni hafa að gæta, þá telur sveitarstjórn að hún muni ekki hafa neikvæð áhrif í för með sér. Með því að bjóða upp á gistingu aukast einnig möguleikar fleiri ferðamanna en áður að njóta þess sem svæðið hefur upp á að bjóða. Bent er á að framkvæmdina þarf að tilkynna til Skipulagsstofnunar í samræmi við 6. gr. laga nr. 106/2000 m.s.br. og er í því ferli tilefni til að fara nánar yfir hvaða áhrif fyrirhuguð uppbygging hefur á umhverfið.
Varðandi umsögn Landverndar um að ekki sé um hefðbundna hálendismiðstöð að ræða heldur „afþreyingarhótel“ að þá getur sveitarstjórn ekki séð hver munur á þessu tvennu er. Öll ferðamennska byggir á einhvers konar afþreyingu og í greinargerð svæðisskipulags miðhálendisins kemur fram að starfsemi hálendismiðstöðva tengist alhliða ferðamennsku, þjónustu við vetrarumferð, veiðimenn, hestamenn og skíðafólk. Ekki er að sjá annað en að fyrirhuguð uppbygging í Skálpanesi sé í samræmi við þetta.
Staðsetning á hálendismiðstöð í Skálpanesi er innan þeirra marka sem flokkað er undir almenn verndarsvæði í svæðisskipulaginu. Réttilega er þó bent á að staðsetningin er utan við hin svokölluðu mannvirkjabelti á hálendinu. Rétt er þó að hafa það í huga að það er í dag ekki algild regla og má benda á að hálendismiðstöðin í Kerlingafjöllum og Dreki í Þingeyjarsýslu eru einnig utan mannvirkjabeltis. Í þeim tilfellum, sem og í Skálpanesi, þá hafa aðstæður og fjöldi ferðamanna kallað eftir aðstöðu á þessum stöðum. Sveitarstjórn telur að ekki sé hægt að líta fram hjá staðreyndum, en frekar verði að bregðast við með réttum hætti til að hafa betri stjórn á straumi ferðamanna með verndarsjónarmið í huga.
Að lokum vill sveitarstjórn benda á að kostnaður vegna uppbyggingar og viðhalds á vegi að Skálpanesi hefur verið styrkt af styrkvegasjóði Vegagerðarinnar. Ljóst er að ef þessi uppbygging verður að veruleika er kominn nýr flötur gagnvart Vegagerðinni að endurskoða flokkun þessa vegar og taka afstöðu til þess hvort vegurinn eigi ekki að flokkast sem fjallvegur.
- Uppsögn samstarfssamnings um samvinnu í skólamálum.
Lagt fram bréf Grímsnes- og Grafningshrepps, dags. 27. desember 2006, þar sem Grímsnes- og Grafningshreppur segir upp samstarfssamningi um samvinnu í skólamálum. Samstarf Bláskógabyggðar og Grímsnes- og Grafningshrepps í skólamálum hefur verið mjög gott á liðnum árum og finnst sveitarstjórn Bláskógabyggðar miður að þessum samstarfssamningi skuli hafa verið sagt upp. Í uppsagnarbréfinu er óskað eftir samningi um áframhaldandi kennslu eldri nemenda úr Grímsnes- og Grafningshreppi í Grunnskóla Bláskógabyggðar, Reykholti. Sveitarstjórn Bláskógabyggðar felur sveitarstjóra að ganga frá samningnum fyrir hönd Bláskógabyggðar.
- Samningur milli KSÍ og Bláskógabyggðar um byggingu sparkvalla í Reykholti og á Laugarvatni.
Lagðir fram samningar milli Bláskógabyggðar og KSÍ um byggingu sparkvalla í Reykholti og á Laugarvatni. Samkvæmt samningum skulu vellirnir vera fullbyggðir fyrir 15. október 2007. Á fundi byggðaráðs Bláskógabyggðar 31. janúar 2006 var samþykkt að sækja um tvo sparkvelli til KSÍ og var þá jafnframt bókað: “Byggðaráð leggur áherslu á að samstarf takist um verkefnið með fyrirtækjum, foreldrafélögum skólanna og ungmennafélögum”. Í samræmi við bókunina er æskulýðsnefnd falið að boða til fundar alla þá sem að uppbyggingu vallanna geta komið. Sveitarstjórn felur sveitarstjóra að undirrita samningana fyrir hönd Bláskógabyggðar.
- Samningur um álagningarhluta Landskrár fasteigna.
Lögð fram drög að samningi milli Landskrár fasteinga og Bláskógabyggðar um notkun álagningarhluta Landskrár fasteigna.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða fyrirliggjandi samning og felur sveitarstjóra að undirrita samninginn fyrir hönd sveitarstjórnar.
- Afskriftarbeiðni vegna ógreidds útsvars, frá Sýslumanninum á Selfossi.
Sveitarstjóri gerði grein fyrir beiðni Sýslumannsins á Selfossi um afskrift ógreidds útsvars, dags. 27. desember 2006, afskriftarbeiðni nr. 200612221025329. Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að afskrifa umræddar kröfur að upphæð kr. 1.003.293.
- Fjárhagsáætlun Bláskógabyggðar 2007 (þriðja umræða)
Áætlunin ásamt greinargerð var send til sveitarstjórnar með tölvupósti þann 8. janúar s.l. Sveitarstjóri gerði grein fyrir fjárhagsáætlun Bláskógabyggðar fyrir árið 2007. Breytingar hafa verið gerðar frá fyrri umræðum, með tilliti til breyttra forsenda vegna framlaga Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga. Fjárhagsáætlunin gerir ráð fyrir að heildartekjur samstæðureiknings Bláskógabyggðar, þ.e. sveitarsjóðs og félaga í eigu sveitarfélagsins verði kr. 644.266.000. Rekstrargjöld samstæðu ásamt afskriftum kr. 598.894.000. Fjármagnsgjöld áætluð kr. 42.245.000. Rekstrarniðurstaða samstæðureiknings áætluð jákvæð að upphæð kr. 3.127.000.
Gert er ráð fyrir að fjárfestingar ársins verði kr. 25.000.000 en innheimt gatnagerðargjöld á móti kr. 10.000.000. Nettófjárfesting verði því kr. 15.000.000. Gert er ráð fyrir lántöku til skuldbreytingar og fjárfestingar að upphæð kr. 50.000.000.
Oddviti bar upp fyrirliggjandi tillögu að fjárhagsáætlun Bláskógabyggðar 2007 til samþykktar. Tillagan samþykkt samhljóða.
- Innsend bréf og erindi:
9.1. Bréf frá Karli Björnssyni, dags. 27. desember 2006; ógilding byggingarleyfis.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að óska eftir umsögn byggingarnefndar og byggingarfulltrúa, sem lögð verði fyrir næsta fund sveitarstjórnar.
9.2. Bréf frá Karli Björnssyni, dags. 27. desember 2006; hundar í frístundabyggð.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að beina þessu erindi til forstöðumanns Þjónustumiðstöðvar, þannig að eigendur þessara hunda, sem og annarra, fari eftir gildandi reglum sveitarfélagsins um hundahald. Að öðrum kosti verði að grípa til viðeigandi aðgerða.
9.3. Bréf frá Sýslumanni á Selfossi; umsögn um leyfi fyrir gistiskála.
Sveitarstjórn hefur engar athugasemdir vegna fyrirliggjandi umsóknar um sölu gistingar, eða útleigu á sumarhúsi.
9.4. Bréf frá Vilborgu Guðmundsdóttur og Lofti Jónassyni, dags. 8. janúar 2007, þar sem þau óska eftir að taka á leigu hús á Biskupstungnaafrétti.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að fela oddvita og sveitarstjóra að eiga viðræður við bréfritara og leggja fyrir sveitarstjórn drög að samkomulagi.
9.5. Ársreikningur 2005, Minningarsjóðs Biskupstungna.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða fyrir sitt leyti framlagðan ársreikning.
- Efni til kynningar:
Námskeið fyrir sveitarstjórnarmenn á vegum Sambands íslenskra sveitarfélaga, sem kynnt er með bréfi frá SASS, dags. 9. janúar 2007 og með bréfi frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, dags. 8. janúar 2007.
Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 18:30.