80. fundur

  1. fundur sveitarstjórnar Bláskógabyggðar haldinn

þriðjudaginn 8. janúar 2008, kl 15:00

í Fjallasal, Aratungu

 

 

Mætt voru:

Margeir Ingólfsson oddviti, Drífa Kristjánsdóttir, Jens Pétur Jóhannsson sem varamaður Sigrúnar Lilju Einarsdóttur, Jóhannes Sveinbjörnsson, Þórarinn Þorfinnsson, Snæbjörn Sigurðsson og Kjartan Lárusson. Einnig  var mættur Valtýr Valtýsson, sveitarstjóri og Sigurrós H Jóhannsdóttir sviðsstjóri sem ritaði fundargerð. 

 

  1. Fjárhagsáætlun Bláskógabyggðar 2008 (lokaumræða).

Sviðsstjóri þjónustusviðs, Halldór Karl Hermannsson, mætti á fundinn undir þessum lið og gerði grein fyrir viðhalds- og framkvæmdaáætlun 2008.

Fyrirliggjandi fjárhagsáætlun var send til sveitarstjórnar með tölvupósti þann 7. janúar s.l.  Sveitarstjóri ásamt sviðsstjóri þjónustusviðs gerðu grein fyrir fjárhagsáætlun Bláskógabyggðar fyrir árið 2008. Breytingar hafa verið gerðar frá fyrri umræðum, með tilliti til breyttra forsenda vegna framlaga Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga.  Fjárhagsáætlunin gerir ráð fyrir að heildartekjur samstæðureiknings Bláskógabyggðar, þ.e. sveitarsjóðs og félaga í eigu sveitarfélagsins verði kr. 673.656.000.  Rekstrargjöld samstæðu ásamt afskriftum kr. 600.551.000.  Fjármagnsgjöld áætluð kr. 33.566.000.  Rekstrarniðurstaða samstæðureiknings áætluð jákvæð að upphæð kr. 39.539.000.

Gert er ráð fyrir að fjárfestingar ársins verði kr. 50.000.000 en innheimt gatnagerðargjöld á móti kr. 10.000.000.  Nettófjárfesting verði því kr. 40.000.000.  Lagt var fram yfirlit yfir fyrirhugaðar viðhalds- og nýframkvæmdir á árinu 2008.

Oddviti bar upp fyrirliggjandi tillögu að fjárhagsáætlun Bláskógabyggðar 2008 til samþykktar.  Tillagan samþykkt samhljóða.

     

  1. Fundargerðir til staðfestingar:

2.1.    Fundargerð skipulagsnefndar, 44. fundur, frá 17. desember 2007.

Sveitarstjórn gerir athugasemd við afgreiðslu 7. liðar fundargerðar, þar sem samþykkt er 40 fm aukahús.  Samkvæmt aðalskipulagi og samþykktum sveitarfélagsins er ekki heimilt að byggja stærri aukahús en 30 fm.

Að öðru leyti er fundargerðin samþykkt samhljóða.

2.2.    Fundargerð byggingarnefndar, 14. fundur, frá 11. desember 2007.
Samþykkt samhljóða.

 

  1. Skipulagsmál:

3.1.    Tillaga að breytingu aðalskipulags Biskupstungnahrepps 2000-2012 – Höfði.
Í bréfi Skipulagsstofnunar dags. 27. september 2007 varðandi breytingu á Aðalskipulagi Biskupstungnahrepps 2000-2012 í landi Höfða kemur fram að það vanti rökstuðning sveitarfélagsins fyrir því að byggja innan svæðis á náttúruverndarskrá og á votlendissvæði.

Nyrsti hluti svæðisins er á náttúruverndarskrá vegna votlendis með miklu fuglalífi. Þó svo að fyrirhugað svæði fyrir frístundabyggð fari inn á þetta svæði, þá telst umrætt svæði ekki vera votlendi heldur er það staðsett á hæð ofan við votlendið. Þá má einnig benda á að í umsögn Umhverfisstofnunar dags. 20. júlí 2007 er vakin athygli á því að svæði á náttúruverndarskrá virðist ekki vera rétt afmarkað í aðalskipulaginu þar sem það nær ekki jafn langt til austurs og suðurs á móts við Tunguey og þar er sýnt. Fyrir liggur tillaga að deiliskipulagi frístundabyggðarinnar á þessu svæði þar sem m.a. hefur verið farið að ábendingum Umhverfisstofnunar um að fella út lóð vestast á svæðinu. Næst Hrosshagavík, sem liggur neðar en hinar lóðirnar.

Varðandi votlendi á syðra frístundabyggðasvæðinu, þá hefur það svæði ekki verið skoðað jafn nákvæmlega og nyrðra svæðið, þar sem það landsvæði er ekki á náttúruverndarskrá, og liggur ekki fyrir nákvæm afmörkun votlendis. Gert er ráð fyrir að þegar farið verði í að vinna deiliskipulag fyrir það svæði að þá verði farið í afmörkun lóða m.t.t. votlendis og annarra umhverfisþátta. Sveitarstjórn Bláskógabyggðar samþykkir fyrirliggjandi tillögu.

3.2.       Tillaga að breytingu aðalskipulags Þingvallasveitar 2004-2016, – Skálabrekka.

Jóhannes Sveinbjörnsson vék af fundi við afgreiðslu þessar liðar.
Lögð fram tillaga að breytingu á aðalskipulagi Þingvallasveitar 2004 – 2016 í landi Skálabrekku. Breytingin nær til lóða 1a og 3 við Skálabrekkugötu og er gert ráð fyrir að þær verði skilgreindar sem landbúnaðarlóðir í stað frístundahúsalóða.  Þegar hafa verið byggð hús á lóðunum og verða þau nú skilgreind sem íbúðarhús í stað frístundahúsa.  Þá er gert ráð fyrir að heimilt verði að reisa allt að 200 fm skemmu á hvorri lóð auk þess sem aðkoma að lóð 1a breytist frá því sem nú er.

Tillagan var í auglýsingu frá  16. nóvember 2007 til 14. desember 2007 með athugasemdarfresti til 28. desember 2007.  Engin athugasemd barst.

Sveitarstjórn Bláskógabyggðar samþykkir fyrirliggjandi tillögu að breytingu aðalskipulags sbr. 18. gr. Skipulags-og byggingarlaga og felur skipulagsfulltrúa að vinna málið áfram.

 

  1. Umsögn um frumvörp:

4.1.    Grunnskólar (285. mál) og leikskólar (287. mál)

           Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að vísa þessu erindi til fræðslunefndar Bláskógabyggðar sem fundar í næstu viku. Ef komi fram athugasemdir frá fræðslunefnd þá felur sveitarstjórn sveitarstjóra að koma þeim athugasemdum á framfæri.

4.2.    Framhaldsskólar (286. mál) og menntun og ráðning kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla (288. mál).
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að vísa þessu erindi til fræðslunefndar Bláskógabyggðar sem fundar í næstu viku. Ef komi fram athugasemdir frá fræðslunefnd þá felur sveitarstjórn sveitarstjóra að koma þeim athugasemdum á framfæri.

 

  1. Trúnaðarmál.

Fært í trúnaðarmálabók.

 

  1. Innsend bréf og erindi:

6.1.    Bréf frá menntamálaráðuneytinu dags. 21. desember 2007, – Laugarvatn.

Í bréfi menntamálaráðuneytisins kemur fram óánægja með samþykkt deiliskipulag umhverfis íþróttahús og gufubaðið á Laugarvatni, þ.e. staðsetningu og fjölda bílastæða.  Óskar ráðuneytið eftir því að sem fyrst verði hafist handa við breytingu á umræddu deiliskipulagi.

Sveitarstjórn Bláskógabyggðar samþykkir samhljóða að fara í viðræður við menntamálaráðuneytið um samstarf við tillögugerð að breytingu á umræddu deiliskipulagi þar sem komið verði til móts við óskir ríkisins, enda er ríkið landeigandi á umræddu svæði.

6.2.    Tölvuskeyti frá Bjarna Daníelssyni, dags. 11. desember 2007, – Laugarvatn.

Í tölvuskeytinu koma fram hugmyndir breytingu á “Einbúaskipulaginu” í Laugardal.  Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að vísa þessu erindi til fyrirhugaðrar vinnu við endurskoðun aðalskipulaga sveitarsfélagsins.

6.3.    Bréf frá Hestamannafélaginu Trausta, dags. 3. desember 2007, – reiðvegir.

Í bréfi Hestamannafélagsins Trausta kemur fram ósk um fjárhagslegan stuðning við endurbætur og uppbyggingu reiðvegar meðfram þjóðveginum um endilangan Laugardal, frá Apá um Laugarvatn og austur að Brúará.

Sveitarstjórn Bláskógabyggðar hefur fjármagn til staðar á nýsamþykktum fjárlögum ársins 2008 sem nýta skal til stígagerðar.  Oddvita falið að ræða við fulltrúa Hestamannafélagsins Trausta um fjárþörf til verkefnisins og kanna hvort fjárstuðningur til verkefnisins geti ekki rýmst innan samþykktra fjárlaga ársins.

6.4.       Bréf frá Úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála, dags. 18. desember 2007.

Lagt fram bréf Úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála er varðar kæru á gjaldtöku vegna stöðuleyfis fyrir hjólhýsi á landspildu úr landi Úteyjar í Bláskógabyggð. Sveitarstjórn gefinn kostur á að tjá sig um kæruna.

Sveitarstjórn Bláskógabyggðar telur að öll gögn sem málið varðar liggi fyrir og séu komin til Úrskurðarnefndar og hefur því engar frekari athugasemdir eða upplýsingar varðandi umrædda kæru.

6.5.    Bréf frá reiðveganefnd Loga, ósk um framkvæmdaleyfi.
Sveitarstjórn yfirfór gögn sem reiðveganefnd Loga hefur sent inn vegna framkvæmda við umræddan reiðveg um Laugafell.  Sveitarstjórn vísar erindinu til skipulagsfulltrúa til úrvinnslu og leyfisveitingar.

 

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 19.15