81. fundur

 1. fundur sveitarstjórnar Bláskógabyggðar haldinn

fimmtudaginn 17. janúar 2008, kl 16:30

í Fjallasal, Aratungu

Mætt voru:

Margeir Ingólfsson oddviti, Drífa Kristjánsdóttir, Sigrún Lilja Einarsdóttir, Jóhannes Sveinbjörnsson, Brynjar Sigurðsson  sem varamaður Þórarins Þorfinnssonar, Snæbjörn Sigurðsson og Kjartan Lárusson.  Einnig  var mættur Valtýr Valtýsson, sveitarstjóri og Sigurrós H Jóhannsdóttir sviðsstjóri sem ritaði fundargerð. 

 

 1. Skipulagsmál:

1.1.    Tillaga að breytingu aðalskipulags Laugardalshrepps 2000 – 2012; Gjábakkavegur.

Lögð fram tillaga að óverulegri breytingu á Aðalskipulagi Laugardalshrepps 2000-2012 vegna Lyngdalsheiðarvegar (Gjábakkavegar) ásamt umhverfisskýrslu. Í breytingunni felst eftirfarandi:

 • Hluti stofnbrautar fyrirhugaðs Gjábakkavegar færist til suðurs.
 • Tengibraut (1,7 km) er lögð vestan Blöndumýrar frá nýjum vegi að núverandi Gjábakkavegi.
 • Hverfisvernd í kringum Blöndumýri og Breiðumýri er endurskoðuð og gert ráð fyrir nýjum hverfisverndarsvæðum við Beitivelli og Laugarvatnsvelli.
 • Gert er ráð fyrir þremur nýjum efnistökusvæðum og staðsetning annarra efnisnáma er leiðrétt.
 • Svæði fyrir frístundabyggð í landi Eyvindartungu minnkar um 18 ha.

Tillagan ásamt umhverfisskýrslu var í kynningu frá 21. desember 2007 til 14. janúar 2008 og bárust engar athugasemdir. Fyrir liggja umsagnir Umhverfisstofnunar dags. 14. janúar 2008 og Vegagerðarinnar dags. 15. janúar 2008. Í umsögn Umhverfisstofnunar kemur fram að afstaða stofnunarinnar til færslu Gjábakkavegar komi skýrt fram í umsögnum um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar og hafi hún ekki breyst. Eins og þar kemur fram telur stofnunin að vegagerð í Eldborgahrauni samkvæmt svokallaðri leið 7 muni hafa umtalsverð umhverfisáhrif í för með sér og að endurbyggð leið 1 austur fyrir Barmaskarð með tengingu þaðan sunnan Laugarvatnsvalla að leið 3 og til Laugarvatns sé vænlegasti kostur á vegagerð á þessu svæði. Þá er einnig bent á að lýsing á efnisvinnslu og frágangi þurfi að taka mið af þeim námum sem lýst er í matsskýrslu og áætlunum um vinnslu og frágang.

Í umsögn Vegagerðarinnar dags. 15. janúar 2008 er ekki gerð athugasemd við auglýsta breytingartillögu.

Í mati á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar taldi Vegagerðin leið 3+7 vera ákjósanlegustu leiðina m.t.t. heildaráhrifa (umhverfis, vegtækni, umferðaröryggis og kostnaðar) og hefur sveitarstjórn Bláskógabyggðar tekið undir það mat með ofangreindri breytingu (sbr. einnig umsagnir í matsferli). Niðurstaða framlagðrar umhverfisskýrslu er að fyrirhuguð vegaframkvæmd skv. tillögunni muni ekki hafa umtalsverð umhverfisáhrif að uppfylltum skilyrðum sem fram koma í úrskurði Skipulagsstofnunar og niðurstöðu umhverfisráðherra. Varðandi efnistöku er í tillögunni tekið mið af upplýsingum sem fram koma í mati á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar.

Varðandi vöktun vegna líklegra umhverfisáhrifa, sbr. 9. gr. laga um umhverfismat áætlana, er vísað í aðgerðir þess eðlis sem fram komu í mati á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar og skilyrðum Skipulagsstofnunar og Umhverfisráðherra.

Sveitarstjórn Bláskógabyggðar samþykkir samhljóða aðalskipulagsbreytinguna skv. 2. mgr. 21. gr. skipulags- og byggingarlaga.

 

1.2.    Tillaga að breytingu aðalskipulags Biskupstungnahrepps 2000-2012; Reykholt.

Lögð fram tillaga að breytingu á aðalskipulagi Biskupstungnahrepps 2000-2012 sem tekur til þéttbýlisins í Reykholti og nágrennis þess.  Tillagan er unnin af Pétri H. Jónssyni í janúar 2008.

Í breytingunni felst:

 • 13,5 ha lands, úr landi Brautarhóls, breytist úr landbúnaðarnotum í íbúðabyggð (6,8 ha), athafnasvæði (2,3 ha) og opin svæði til sérstakra nota (3 ha).
 • Athafnalóð (0,62 ha) breytist í opið svæði til sérstakra nota, þar sem gert er ráð fyrir reiðhöll í tengslum við hesthúsabyggð.
 • 20 ha svæði innan þéttbýlismarka Reykholts breytist úr landbúnaðarnotum í íbúðabyggð, þar sem enginn landbúnaður er stundaður lengur á þeim lóðum sem umrætt svæði tekur til.Markmið er að laga aðalskipulagið að þeirri landnotkun sem er á svæðinu í dag.
 • Gert er ráð fyrir tveimur hringtorgum á Biskupstungnabraut og jafnframt að afleggjurum inn á Biskupstungnabraut fækki úr tíu í tvo. Einnig er gert ráð fyrir hraðahindrun austast í þorpinu og göngu- og reiðleiðir eru meðfram þjóðvegi.  Markmið er að draga úr umferðahraða og auka umferðaröryggi eftir þjóðvegi nr. 35.

Sveitarstjórn Bláskógabyggðar samþykkir að auglýsa aðalskipulagsbreytinguna skv. 1. mgr. 21. gr. skipulags- og byggingarlaga.

 

 1. Erindi frá Orkusölunni vegna raforkusölu til sveitarfélagsins og stofnanna þess.

Lagt fram tilboð í raforkusölu frá Orkusölunni ehf, dags. 12 janúar 2008.  Umrætt tilboð gildir til loka janúar 2008 og felur í sér samning um orkukaup af Orkusölunni ehf. til ársloka 2010.  Sveitarfélagið ásamt stofnunum þess hafa keypt orku af Orkusölunni ehf. til þessa.

Sveitarstjórn Bláskógabyggðar samþykkir samhljóða að taka framlögðu tilboði Orkusölunnar ehf.

 

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 17:30.