95. fundur
- fundur sveitarstjórnar Bláskógabyggðar haldinn
mánudaginn 22. desember 2008, kl 15:00
í Fjallasal, Aratungu
Mætt voru:
Margeir Ingólfsson oddviti, Drífa Kristjánsdóttir, Þórarinn Þorfinnsson, Jóhannes Sveinbjörnsson, Jens Pétur Jóhannsson, Snæbjörn Sigurðsson og Kjartan Lárusson. Einnig var mættur Valtýr Valtýsson, sveitarstjóri og Sigurrós H Jóhannsdóttir sviðsstjóri sem ritaði fundargerð.
- Ákvörðun um álagningu gjalda fyrir árið 2009.
Lögð var fram eftirfarandi tillaga um álagningaprósentur ásamt afsláttum og gjaldskrám fyrir árið 2009:
1) Álagningarprósenta útsvars verði 13,28% af útsvarsstofni, með fyrirvara um að Alþingi samþykki lagabreytingu sem gefi sveitarfélögum möguleika á að hækka álagningarprósentu útsvars um 0,25%.
2) Álagningarprósenta fasteignagjalda verði;
A 0,6% af fasteignamati á íbúðarhúsnæði, bílageymslur, geymsluhúsnæði, lönd og útihús í landbúnaði og sumarhús, allt með tilheyrandi lóðum.
B 1,32% af fasteignamati sjúkrastofnana skv. lögum um heilbrigðisþjónustu, skóla, heimavista, leikskóla, íþróttahúsa og bókasafna, að meðtöldum lóðum og lóðarréttindum (með fyrirvara að reglugerð verði ekki breytt).
C 1,2% af fasteignamati allra annarra fasteigna með tilheyrandi lóðum, þó að undanskildum fasteignum í 0 flokki.
Afsláttur af fasteignaskatti til fasteignaeigenda sem eru 67 ára og eldri, eða 75% öryrkjar eða meira, og eiga lögheimili í viðkomandi fasteign fer eftir samþykkt um afslátt af fasteignaskatti sem samþykkt var af sveitarstjórn Bláskógabyggðar 4. desember 2007.
3) Vatnsgjald verði 0,4% af fasteignamati eigna sem tengst geta vatnsveitum sveitarfélagsins, sbr ákv. 7. gr. laga nr. 81/1991 m.br.skv ákv. 3. gr. laga nr. 149/1995.
Hámarksálagning verði kr. 21.191.- á sumarhús og íbúðarhús. Fyrirtæki sem safna vatni í eigin miðlun fái 30% lækkun á vatnsskatti.
4) Álagning vegna meðhöndlunar úrgangs, þ.e. sorphirðing og sorpeyðing verði kr. 11.500,- á íbúðarhús, kr. 8.500,- á sumarhús og kr. 25.500,- á lögbýli og smárekstur. Með þessu gjaldi á lögbýli og smárekstur er innifalinn einn gámur á ári að lögbýli eða starfsstöð smáreksturs (hámark stöðutíma gáms eru 3 dagar). Aukagjald fyrir að sækja rusl heim að húsum verði kr. 12.000,- fyrir heilt ár og innheimtist með fasteignagjöldum.
Að öðru leyti verða lögbýli/fyrirtæki að sjá sjálf um geymslu, flutning úrgangs og meðhöndlun úrgangs til móttökustöðvar og greiða fyrir þá þjónustu skv. gjaldskrá flutningsaðila og móttökustöðvar (Sorpstöðvar Suðurlands).
Sjá meðfylgjandi tillögu að breytingu gjaldskrár nr. 71/2006.
5) Gjaldskrá fyrir fráveitu og hreinsun rotþróa í Bláskógabyggð.
Tillagan gerir ráð fyrir að álagningarhlutfall fráveitugjalds verði 0,23% og tengigjald óbreytt. Gjald fyrir tæmingu rotþróa verði óbreytt.
Sjá meðfylgjandi tillögu að breytingu gjaldskrár nr. 267/2008.
6) Lóðarleiga 0,7% af lóðarmati.
Gjöld liða 2, 3, 4, 5 og 6 verði innheimt með 5 gjalddögum mánaðarlega frá 15. febrúar 2009. Eindagar eru 30 dögum eftir gjalddaga.
Samþykkt samhljóða.
- Fjárhagsáætlun Bláskógabyggðar 2009 (fyrri umræða).
Lögð fram drög að fjárhagsáætlun Bláskógabyggðar 2009 með efnahagsreikningi og sjóðsstreymisyfirliti.Jafnframt lagt fram minnisblað yfir helstu forsendur framlagðrar áætlunar. Ekki liggja fyrir öruggar heimildir um endanlega úthlutun Jöfnunarsjóðs fyrir rekstrarárið 2008, né áætlun sjóðsins um úthlutanir fyrir rekstrarárið 2009. Vænst er að þessar forsendur liggi fyrir við síðari umræðu um fjárhagsáætlun 2009.
Sveitarstjórn Bláskógabyggðar samþykkir samhljóða að gerð verði breyting á fjárhagsáætlun sveitarsjóðs, fyrir rekstrarárið 2008, þar sem framkvæmd verði millifærsla á lánum aðalsjóðs til A- og B-hluta fyrirtækja til eiginfjárframlags. Þau fyrirtæki sem breytingin nær til eru Fráveita, Leiguíbúðir, Vatnsveita og Þjónustumiðstöð. Aðgerðin er til þess fallin að breyta neikvæðri eiginfjárstöðu umræddra fyrirtækja í jákvæða. Endurskoðendum KPMG verði falið að framkvæma þessar breytingar við uppgjör sveitarsjóðs fyrir árið 2008. Gert er ráð fyrir þessum breytingum á efnahagsreikningum í gerð fjárhagsáætlunar 2009.
Fjárhagsáætlun vísað til næsta fundar sveitarstjórnar.
- Innsend bréf og erindi:
3.1. Erindi frá eiganda Miðhúsa í Bláskógabyggð, vegna útskiptingu lóða og að land sé tekið úr landbúnaðarnotum.
Sveitarstjórn Bláskógabyggðar gerir engar athugasemdir við útskiptingu 6 lóða í Þrívörðuási í landi Miðhúsa, skv. samþykktu deiliskipulagi, og samþykkir útskiptingu fyrir sitt leyti og að landið verði tekið úr landbúnaðarnotum. Jafnframt samþykkir sveitarstjórn fyrir sitt leyti að lóðinni Miðhús III (landnr. 212260) verði skipt út úr jörðinni Miðhús og að hún verði tekin úr landbúnaðarnotum.
3.2. Erindi frá Björgunarsveit Biskupstungna um styrk á móti húsaleigu Aratungu vegna réttarballs.
Sveitarstjórn Bláskógabyggðar samþykkir samhljóða að veita Björgunarsveit Biskupstungna styrk á móti húsaleigu Aratungu vegna réttarballs.
3.3. Erindi frá Ungmennafélagi Biskupstungna um styrk á móti húsaleigu Aratungu vegna afmælisfagnaðar.
Sveitarstjórn Bláskógabyggðar samþykkir samhljóða að veita Ungmennafélagi Biskupstungna styrk á móti húsaleigu Aratungu vegna afmælisfagnaðar.
Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 17:15.