96. fundur

 1. fundur sveitarstjórnar Bláskógabyggðar haldinn

þriðjudaginn 13. janúar 2009, kl 15:00

í Fjallasal, Aratungu

 

 

Mætt voru:

Margeir Ingólfsson oddviti, Drífa Kristjánsdóttir, Þórarinn Þorfinnsson, Jóhannes Sveinbjörnsson, Jens Pétur Jóhannsson, Snæbjörn Sigurðsson og Kjartan Lárusson.  Einnig  var mættur Valtýr Valtýsson, sveitarstjóri og Sigurrós H Jóhannsdóttir sviðsstjóri sem ritaði fundargerð.

 

Oddviti bar upp tillögu til dagskrárbreytingar, að fyrsta lið verði breytt í “Fundargerðir til staðfestingar” og að inn komi nýr liður 1.1. en aðrir liðir færast til sem því nemur.  Samþykkt samhljóða.

 

 1. Fundargerðir til staðfestingar:

1.1.    Fundargerð 32. fundar veitustjórnar.
Staðfest samhljóða.

1.2.    Fundargerð 48. fundar Héraðsnefndar Árnesinga.
Staðfest samhljóða.

 

 1. Fundargerðir frá Brunavörnum Árnessýslu og erindi:

2.1. Fundargerð 91. fundar stjórnar.  Til kynningar.

2.2. Fundargerð 92. fundar stjórnar.  Til kynningar.

2.3. Fundargerð 71. fundar fulltrúaráðs.  Til kynningar.

2.4. Tillaga fulltrúaráðs um breytingu á skiptingu rekstrarframlaga BÁ.
Í tillögu fulltrúaráðs felst sú breyting að skipting rekstrarframlaga BÁ verði þannig að 70% miðist af brunabótamati 1. desember næst liðins árs og 30% af íbúatölu 1. desember næstliðins árs.
Samþykkt samhljóða.

2.5. Tillaga um breytingu á rekstrarfyrirkomulagi slökkvitækjaþjónustu BÁ.
Í tillögu stjórnar BÁ felst að gera slökkvitækjaþjónustuna að einkahlutafélagi, með kr. 500 þús. sem hlutafé sem skiptist á aðildarsveitarfélögin samkvæmt kostnaðarskiptingu fjárhagsáætlunar.  Hlutur Bláskógabyggðar verði í samræmi við skiptihlutfall vegna rekstrarársins 2009.
Samþykkt samhljóða.

2.6. Boð um kynningu á starfsemi BÁ.
Sveitarstjórn Bláskógabyggðar samþykkir samhljóða að óska eftir kynningu á næsta reglubundna fundi sveitarstjórnar, sem haldinn verður í byrjun febrúar n.k.

 1. Fyrirkomulag skólamála í Grímsnes- og Grafningshreppi.

Lagt fram bréf Grímsnes- og Grafningshrepps, dags. 22. desember 2008, en þar kemur fram að sveitarstjórn Grímsnes- og Grafningshrepps hefur samþykkt að starfræktur verður 1. – 8. bekkur í Grunnskólanum Ljósaborg næsta skólaár 2009-2010.  Einnig hefur sveitarstjórnin samþykkt að stefna að því að hafa heilstæðan skóla 1. – 10. bekk á Borg.

Sveitarstjórn óskar eftir því við sveitarstjórn Grímsnes- og Grafningshrepp að framvegis verði ákvarðanir um framkvæmd samstarfs í skólamálum teknar til lengri tíma en til eins árs í senn til að gera skipulagningu skólastarfs sveitarfélaganna markvissara.  Skipulag skólastarfsins er eitt af grundvallaratriðum samnings sveitarfélaganna um skólastarf.  Einnig óskar sveitarstjórn Bláskógabyggðar eftir því að fulltrúaráð skólasamstarfsins verði, í samræmi við skólasamninginn, kallað saman sem fyrst til þess að ræða reynsluna af samstarfinu og framtíð þess.

Bréfi Grímsnes- og Grafningshrepps vísað til fræðslunefndar til kynningar.

 

 1. Skipulagsmál.

4.1.    Tillaga um breytingu aðalskipulags Biskupstungna 2000-2012; Holtakot.
Lögð fram eftir auglýsingu tillaga að breytingu á Aðalskipulagi Biskupstungnahrepps 2000-2012 í landi Holtakots. Í breytingunni felst að gert er ráð fyrir um 0,5 ha frístundahúsalóð á svæði sem áður var skilgreint sem landbúnaðarsvæði. Tillagan var í kynningu frá 23. október til 20. nóvember 2008 með athugasemdafrest til 4. desember. Engar athugasemdir bárust.
Sveitarstjórn samþykkir fram lagða tillögu að breytingu á aðalskipulagi Biskupstungnahrepps 2000-2012 skv. 21. gr. skipulags- og byggingarlaga og felur skipulagsfulltrúa að vinna áfram með málið.

 

4.2.    Hugmyndir um breytingu deiliskipulags Kotstúns / Krika á Laugarvatni.

Lagðar fram hugmyndir skipulagsfræðinga um breytingu deiliskipulags Kotstúns og Krika á Laugarvatni.

Sveitarstjórn Bláskógabyggðar telur að hugmyndir sem hér eru lagðar fram um uppbyggingu þjónustuhúsnæðis í Krikanum séu ekki raunhæfar og yrðu of tímafrekar og kostnaðarsamar í úrvinnslu.  Það myndi kalla á framkvæmdir við vegagerð m.m. sem Vegagerð ríkisins þyrfti að koma að og fjármagna.

Sveitarstjórn Bláskógabyggðar er sammála um að halda sig við fyrri hugmyndir um skipulag á þessu svæði og vinna að breytingu deiliskipulags á Kotstúni, með það fyrir augum að uppbygging verslunar og þjónustu geti átt sér stað þar.

 

 1. Fjárhagsáætlun Bláskógabyggðar 2009 (síðari umræða).

Fyrirliggjandi fjárhagsáætlun var send til sveitarstjórnar með tölvupósti þann 9. janúar s.l.  Sveitarstjóri gerði grein fyrir fjárhagsáætlun Bláskógabyggðar fyrir árið 2009.  Breytingar hafa verið gerðar frá fyrri umræðu sem helstar eru:

 • Jöfnunarsjóður hefur gefið upp áætlun um greiðslu framlaga, sem breytt hefur forsendum skatttekna. Á grundvelli áætlana sjóðsins er því gert ráð fyrir hækkun skatttekna frá áður framlagðri áætlun.
 • Gert er ráð fyrir auknum kostnaði við rekstur embættis skipulags- og byggingarfulltrúa vegna samdráttar í tekjum embættisins.
 • Laun sveitarstjórnarmanna hafa verið lækkuð en þau eru bundin við þingfararkaup og lækka því um 7,5%. Oddviti og sveitarstjóri óska eftir því að laun þeirra lækki einnig um 7,5% frá 1. janúar 2009 og haldist þannig óbreytt til loka árs 2009.
 • Gert er ráð fyrir að rekstrargjöld hitaveitu hækki um 2 milljónir kr. frá fyrri áætlun og er því mætt með hækkun gjaldskrár hitaveitu, þ.e. hún hækki um 10% í stað 5% sem gefur um 2 milljónir kr. í auknar tekjur.

Fjárhagsáætlunin gerir ráð fyrir að heildartekjur samstæðureiknings Bláskógabyggðar, þ.e. sveitarsjóðs og félaga í eigu sveitarfélagsins verði kr. 703.062.000.  Rekstrargjöld samstæðu ásamt afskriftum kr. 611.640.000.  Fjármagnsgjöld áætluð kr. 76.355.000. Rekstrarniðurstaða samstæðureiknings áætluð jákvæð að upphæð kr.15.067.000.

Ekki er gert er ráð fyrir fjárfestingum á rekstrarárinu, en sá þáttur verði endurskoðaður við endurskoðun fjárhagsáætlunar í apríl mánuði 2009.

Oddviti bar upp fyrirliggjandi tillögu að fjárhagsáætlun Bláskógabyggðar 2009 til samþykktar.  Tillagan samþykkt samhljóða.

 

 1. Innsend bréf og erindi:

6.1.    Bréf heilbrigðisráðuneytisins, dags 7. janúar 2009; sameining heilbrigðisstofnana.
Sveitarstjórn Bláskógabyggðar leggur þunga áherslu á að sú þjónusta sem veitt er í Laugarási verði ekki skert frá því sem nú er.  Heilsugæslan í Laugarási hefur þegar gengið í gegnum sameiningarferli við stofnun Heilsugæslu Suðurlands. Sveitarstjórnin fellst engan veginn á framkomnar hugmyndir um sameiningu heilbrigðisstofnana á svæðinu.  Ljóst er að þessar breytingar munu skerða þjónustu og fækka störfum á landsbyggðinni. Er það í hróplegri mótsögn við þá stefnu ríkisvaldsins að fjölga beri opinberum störfum á landsbyggðinni ef þess er kostur.

Sveitarstjórn vill einnig mótmæla þeirri ákvörðun að leggja niður vaktþjónustu á skurðdeild Heilbrigðisstofnunar Suðurlands á Selfossi. Þessi ákvörðun mun leiða til lokunar á fæðingarþjónustu stofnunarinnar þar sem óhugsandi er talið að starfrækja

fæðingardeild sem ekki er studd af fæðingarlækni á bakvakt.  Þessi þjónusta færist því til Landsspítalans með öllu því óhagræði sem því fylgir fyrir notendur þjónustunnar og tilflutning á störfum af Suðurlandi til Reykjavíkur. Auk þess er rétt að benda á að öryggi sjúklinga og sængurkvenna getur verið ógnað vegna ótryggra samgangna að vetri til.

 

6.2.    Styrkbeiðni frá Skálholtskórnum vegna húsaleigu í Aratungu.

Drífa Kristjánsdóttir vék af fundi við afgreiðslu þessa liðar.

Sveitarstjórn Bláskógabyggðar samþykkir samhljóða að veita Skálholtskórnum

styrk á móti húsaleigu Aratungu að upphæð kr. 22.000.

 

6.3.    Umsókn um leikskóladvöl utan lögheimilissveitarfélags; Gullkistan.
Sveitarstjórn Bláskógabyggðar samþykkir viðtöku nemandans AHÓ, en skólavist verður hjá Gullkistunni, Laugarvatni, skólaárið 2008 – 2009.  Greiðslur vegna skólavistar nemandans eru samkvæmt reglum um viðmiðunarkostnað, gefnum út af Sambandi íslenskra sveitarfélaga.  Fyrir liggur samþykki lögheimilissveitarfélags, Fjallabyggð.

 

6.4.    Bréf Lögmanna Suðurlandi, dags. 23. desember 2008; landskipti í Dalsmynni.
Sveitarstjórn Bláskógabyggðar gerir engar athugsemdir við umrædd landskipti á jörðinni Dalsmynni og fellst á skiptinguna fyrir sitt leyti.

 

6.5.    Bréf Ómars Sævarssonar, dags. 14. desember 2008; ósk um leigu á lóð.
Lagt fram bréf Ómars Sævarssonar og Sigurlaugar Angantýsdóttur, þar sem óskað er eftir að fá garðyrkjulóð í Laugarási á leigu um óákveðinn tíma.  Sveitarstjórn bendir á að skipulagðar garðyrkjulóðir í Laugarási hafa verið auglýstar lausar til umsóknar og hafa þegar verið afhentar lóðir á grundvelli samþykktar sveitarfélagsins um lóðarúthlutun og greiðslu gatnagerðargjalda m.m.  Engin fordæmi eru fyrir hendi hjá sveitarfélaginu um aðra tilhögun á leigu skipulagðra lóða í þéttbýli í Bláskógabyggð.  Sveitarstjórn bendir á að ef umsækjendur hafa hug á að leigja einhverja af skipulögðum garðyrkjulóðum í Laugarási, þá verður að sækja um lóðina með formlegum hætti, á þar til gerðum umsóknareyðublaði, og greiða gatnagerðargjald skv. samþykkt um gatnagerðargjöld í þéttbýli í Bláskógabyggð.  Að öðru leyti vísast til samþykktar um lóðaúthlutanir og samþykkt um gatnagerðargjöld fyrir Bláskógabyggð.

 

6.6.    Bréf Péturs Þorvaldssonar, dags. 4. janúar 2009; forkaupsréttur lóðar.
Sveitarstjórn Bláskógabyggðar samþykkir samhljóða að Pétur Þorvaldsson selji lóðarréttindi sín, að Kotstúni 1 og 3 á Laugarvatni, til einkahlutafélags í hans eigu, Lykilhúsa ehf.  Forkaupsréttur sveitarsjóðs verði óbreyttur hjá nýjum handhafa lóðaréttindanna.

 

 

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 18:00.