98. fundur
- fundur sveitarstjórnar Bláskógabyggðar haldinn
þriðjudaginn 3. mars 2009, kl 15:00
í Fjallasal, Aratungu
Mætt voru:
Margeir Ingólfsson oddviti, Drífa Kristjánsdóttir, Þórarinn Þorfinnsson, Jóhannes Sveinbjörnsson, Jens Pétur Jóhannsson, Snæbjörn Sigurðsson og Kjartan Lárusson. Einnig var mættur Valtýr Valtýsson, sveitarstjóri sem ritaði fundargerð.
- Heimsókn Brunavarna Árnessýslu. Kynning á starfsemi BÁ.
Margrét Erlingsdóttir, stjórnarformaður BÁ, og Kristján Einarsson, slökkviliðsstjóri BÁ, mættu á fund sveitarstjórnar og kynntu starfsemi BÁ.
- Fundargerð byggðaráðs:
2.1. Fundargerð 87. fundar byggðaráðs Bláskógabyggðar.
Varðandi 5. lið fundargerðar byggðaráðs samþykkir sveitarstjórn eftirfarandi viðbót við bókun:
Sveitarstjórn Bláskógabyggðar áréttar mikilvægi þess að öllum fyrirtækjum í Bláskógabyggð verði gert fært að fá þriggja fasa rafmagn, óski þau þess. Á þeim stöðum í Bláskógabyggð, sem ekki hafa fengið þriggja fasa rafmagn, hefur sú staða hamlandi áhrif á atvinnuuppbyggingu. Er það afar bagalegt, ekki síst nú þegar stjórnvöld hafa áréttað mikilvægi þess að efla ferðaþjónustu og landbúnaðarframleiðslu.
Að öðru leyti er fundargerðin staðfest samhljóða.
- Fundargerðir til staðfestingar:
3.1. Fundargerð 10. fundar skipulags- og byggingarnefndar, ásamt fundargerð 19. afgreiðslufundar byggingarfulltrúa.
Staðfest samhljóða.
- Þriggja ára áætlun Bláskógabyggðar, 2010-2012. (Síðari umræða)
Sveitarstjóri gerði grein fyrir framlagðri 3ja ára áætlun Bláskógabyggðar fyrir árin 2010 – 2012 og svaraði framkomnum fyrirspurnum.
Helstu lykiltölur áætlunar fyrir samstæðureikning eru í þúsundum króna:
2010 2011 2012
Tekjur 689.216 713.882 745.293
Gjöld 635.148 654.485 675.321
Fjármagnsgjöld 49.860 40.763 39.097
Rekstrarniðurstaða 4.208 18.635 30.876
Eignir 906.395 919.935 953.904
Skuldir 676.076 670.982 674.076
Eigið fé 230.318 248.953 279.829
Fjárfestingar (nettó) 10.000 20.000 30.000
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða framlagða 3ja ára áætlun Bláskógabyggðar fyrir árin 2010 – 2012.
- Skipulagsmál:
5.1. Tillaga að breytingu aðalskipulags Laugardalshrepps 2000-2012; Hjálmstaðir.
Lögð fram tillaga að breytingu aðalskipulags Laugardalshrepps 2000 – 2012, þar sem 9 ha landspilda úr jörðinni Hjálmstöðum verði breytt úr landbúnaðarnotum í svæði fyrir frístundabyggð. Svæðið er gamalt tún og ekki nýtt til landbúnaðar. Reynt verður að lágmarka áhrif frístundabyggðarinnar á umhverfið, eins og hægt er. Gert er ráð fyrir að þéttleiki á svæðinu sé sá sami varðandi stærðir lóða (0,5 – 1 ha) og í gildandi aðalskipulagi.
Sveitarstjórn Bláskógabyggðar samþykkir samhljóða að auglýsa aðalskipulagsbreytinguna skv. 1. mgr. 21. gr. skipulags- og byggingarlaga og felur skipulagsfulltrúa að vinna málið áfram.
5.2. Tillaga að breytingu aðalskipulags Biskupstungna 2000-2012; Einiholt.
Lögð fram tillaga að breytingu aðalskipulags Biskupstungna 2000 – 2012, þar sem 150 ha lands úr jörðinni Einiholti III verði breytt úr landbúnaðarnotum í svæði fyrir frístundabyggð. Áður höfðu u.þ.b. 50 ha úr sama landi verið teknir undir frístundahúsabyggð. Með þessari breytingu verður allt land Einiholts III nýtt undir frístundabyggð.
Sveitarstjórn Bláskógabyggðar samþykkir samhljóða að auglýsa aðalskipulagsbreytinguna skv. 1. mgr. 21. gr. skipulags- og byggingarlaga og felur skipulagsfulltrúa að vinna málið áfram.
- Skipting jarðarinnar Mjóanes, Þingvallasveit.
Lagt fram bréf frá Lögmönnum Suðurlandi, dags. 23. febrúar 2009, þar sem óskað er eftir umsögn sveitarstjórnar Bláskógabyggðar vegna fyrirhugaðrar skiptingar á jörðinni Mjóanes í Þingvallasveit. Meðfylgjandi bréfinu er landskiptagjörð ásamt uppdráttum.
Sveitarstjórn Bláskógabyggðar gerir engar athugasemdir við fyrirliggjandi landskiptagjörð og samþykkir landskiptin fyrir sitt leyti.
- Staða skógarplöntuframleiðenda í kjölfar lækkunar fjárframlaga ríkisins.
Sveitarstjórn Bláskógabyggðar skorar á ríkisvaldið að standa við þau fyrirheit sem gefin hafa verið um stórátak í uppbyggingu skógræktar. Skógarplöntuframleiðendur hafa byggt upp og aðlagað sín fyrirtæki að áformum ríkisvaldsins. Nú stefnir í að ríkið muni lækka framlög sín til þessa málaflokks um allt að 45%. Þessi ákvörðun mun hafa veruleg áhrif á starfsemi skógarplöntuframleiðenda, og hæpið að þeir muni lifa af slíkan niðurskurð.
Mjög mikilvægt er að standa vörð um innlenda framleiðslu og garðyrkjan er í raun stóriðja Bláskógabyggðar. Sveitarstjórn Bláskógabyggðar skorar því á ríkisvaldið að tryggja rekstrarforsendur ylræktar og annarrar garðyrkju.
- Kynning á endanlegum útboðsgögnum vegna sorphirðu í Bláskógabyggð og Grímsnes- og Grafningshreppi.
Halldór Karl Hermannsson, sviðsstjóri Þjónustu- og framkvæmdasviðs Bláskógabyggðar, mætti á fundinn undir þessum lið. Halldór gerði grein fyrir útboðsgögnum vegna sorphirðu í Bláskógabyggð og Grímsnes- og Grafningshreppi.
Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 19:00.