99. fundur

 1. fundur sveitarstjórnar Bláskógabyggðar haldinn

þriðjudaginn 31. mars 2009, kl 15:00

í Fjallasal, Aratungu

 

 

Mætt voru:

Margeir Ingólfsson oddviti, Drífa Kristjánsdóttir, Þórarinn Þorfinnsson, Jóhannes Sveinbjörnsson, Jens Pétur Jóhannsson, Brynjar Sigurðsson sem varamaður  Snæbjörn Sigurðssonar og Kjartan Lárusson.  Einnig  var mættur Valtýr Valtýsson, sveitarstjóri, og Sigurrós H. Jóhannsdóttir, sviðsstjóri,  sem ritaði fundargerð.

 

 1. Fundargerð byggðaráðs:

1.1.    Fundargerð 88. fundar byggðaráðs Bláskógabyggðar.
Staðfest samhljóða.

 

 1. Fundargerðir til staðfestingar:

2.1.    Fundargerð 11. fundar skipulags- og byggingarnefndar, ásamt 20. afgreiðslufundi byggingarfulltrúa. Varðandi 13  lið fundargerðarinnar samþykkir sveitarstjórn að hámarkstærð frístundahúsa verði 150 fermetrar.
Að öðru leyti var fundargerðin staðfest samhljóða.

2.2.    Fundargerð 11. fundar fræðslunefndar.
Staðfest samhljóða.

2.3.    Fundargerð vegna samstarfssamnings um samvinnu grunnskóla Bláskógabyggðar og Grímsnes- og Grafningshrepps, dags. 18. febrúar 2009.
Staðfest samhljóða.

 

 1. Ársreikningur Bláskógabyggðar 2008 ( fyrri umræða )

Ársreikningur Bláskógabyggðar 2008 lagður fram til fyrri umræðu.  Einar Sveinbjörnsson, endurskoðandi hjá KPMG, var mættur á fundinn og gerði grein fyrir framlögðum ársreikningi.  Einar og Valtýr svöruðu framkomnum fyrirspurnum.

Ársreikningi vísað til síðari umræðu á næsta reglubundna fundi sveitarstjórnar.

Einar Sveinbjörnsson vék af fundi.

 

 1. Kynning á störfum umhverfisnefndar.

T-listinn lagði fram eftirfarandi bókun.

T-listinn hefur oft óskað eftir að fá að leiða nefndarstörf sveitarstjórnar Bláskógabyggðar.  Það hefur Þ-listinn aldrei samþykkt.  Á fundinum kom fram að umhverfisnefnd Bláskógabyggðar hefur ekkert fundað né starfað undanfarin tvö ár.  Formennska í nefndinni er í höndum meirihlutans og á ábyrgð hans.  Ef horft er til fundarhalda í umhverfisnefnd þá virðast umhverfismál lítilvæg og ómerkileg málefni í augum Þ-listans.

Þ- listinn lagði fram eftirfarandi bókun.
Stefna meirihluta sveitarstjórnar er skýr þegar að kemur að umhverfismálum,en aðaláherslan síðustu mánuði hefur verið lögð á að undirbúa breytingar á sorphirðu, flokkun og endurvinnslu.  Þegar að þær breytingar í sorpmálum sem stefnt er að verða komnar í gagnið verður Bláskógabyggð komin í hóp þeirra sveitarfélaga sem lengst hafa gengið í flokkun, endurnýtingu og endurvinnslu úrgangs.

 

 1. Staðardagskrá 21.

 

Umræða varð um Staðardagskrá 21 og afgreiðslu var frestað til næsta reglulega fundar sveitarstjórnar.

 

 1. Umræða og stuðningur við hugmyndir um atvinnusköpun í Bláskógabyggð.

Tillaga T-listans:

Sveitarstjórn samþykkir að skipa nýja nefnd, atvinnumálanefnd, í Bláskógabyggð.

Greinargerð:  Á íbúafundi T-listans þann 24. febrúar 2009 kom fram að atvinnumálin væru mikið í umræðu í sveitarfélaginu og um leið bent á að sveitarstjórn hefur ekki tekið neitt á þeim málum á þessu kjörtímabili.  Hverskonar stuðningur sveitarstjórnar við atvinnusköpun í Bláskógabyggð er mjög mikilvægur nú þegar atvinnuleysi er orðið mikið og ekki eru líkur á að það minnki í bráð. Atvinnumálanefnd gæti hrundið af stað fundarherferð, og stutt við góðar hugmyndir sem ætla má að fólk hafi um ný atvinnutækifæri.  Mjög mikilvægt er að koma þessum málum í farveg, vinna með íbúum og hvetja þá til góðra verka.

Greidd voru atkvæði um tillöguna og var tillagan felld með fjórum atkvæðum (MI, ÞÞ, JPJ, BS) og þrír greiddu atkvæði með (JS, DK og KL).

 

Þ- listinn lagði fram eftirfarandi bókun.

Í upphafi kjörtímabilsins var tekin sú ákvörðun að verkefni atvinnumálanefndar falli undir byggðaráð og vill Þ-listinn halda því svo. Þ-listinn vill benda á að  Bláskógabyggð kemur víða að stuðningi við atvinnuuppbyggingu t.d. með aðild að  Atvinnuþróunarfélagi Suðurlands og  með starfi Ásborgar Arnþórsdóttur ferðamálafulltrúa. Atvinnuþróunarfélag Suðurlands er að vinna mjög metnaðarfullt starf og var ráðgjafi félagsins t.d. með viðtalstíma hér í Aratungu síðastliðinn miðvikudag.  Þ-listinn hvetur sveitarstjórnarmenn T-listans og aðra íbúa Bláskógabyggðar til þess að kynna sér hið fjölbreytta starf Ásborgar og Atvinnuþróunarfélagsins enda munu þeir sem það gera komast að því að þarna er mikil og öflug vinna í gangi.

 1. Staða þriggja fasa rafmagns í Bláskógabyggð.

Valtýr greindi frá hverjum voru sendar ályktanir sveitarstjórnar frá síðasta fundi.

 1. Stefna sveitarstjórnar í hitaveitumálum.

T-listinn óskar eftir upplýsingum um hvort viðræður hafa farið fram við Orkuveituna um að leggja hitaveitu á þau svæði í sveitarfélaginu þar sem þeir eiga veitur einkum í efstu byggðum Biskupstungna og í Þingvallasveit.

 

Á fundi sveitarstjórnar 4. des. 2007 samþykkti sveitarstjórn tillögu T-listans um að sveitarstjórn skori á veitustjórn að marka framtíðarstefnu um að koma heitu vatni á flesta bæi í sveitarfélaginu. Drífa, fyrir hönd T-listans óskar eftir upplýsingum um þessa stefnumörkunarvinnu og tillögur veitustjórnar.

 

Oddviti svaraði framkomnum fyrirspurnum og umræður urðu um málið.

 

 1. Lagt var fram efni um viðhorfskönnun um verkefni Sambands ísl. Sveitarfélaga

      í samanburði skóla.

Skýrslur voru lagar fram til kynningar á fundinum.

 1. Staða mála gagnvart lóðunum Háholt 4, 6 og 8 á Laugarvatni.

Valtýr skýrði frá stöðu málsins.

 

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 18:30.