Aðalfundur Menningarklasa uppsveitanna 27. janúar á Hótel Heklu

Fréttatilkynning

Aðalfundur og fyrsti viðburður Menningarklasa uppsveitanna 27. janúar á Hótel Heklu

Kynning á leikþætti um Gauk Trandilsson

Fyrsti aðalfundur Menningarklasa uppsveita Árnessýslu verður haldinn miðvikudagskvöldið 27. janúar kl. 20.00 á Hótel Heklu á Skeiðum.

Á dagskrá fundarins er kynning á fyrstu hugmyndum að merki og nafni klasans og umræður og hugarflug um viðburði fyrsta starfsársins, ásamt hefðbundnum viðfangsefnum aðalfunda.

Að umræðum loknum er svo komið að fyrsta viðburði klasans.
Hann er haldinn í samstarfi við Þjórsárdalsklasann „Undan öskunni“ og er kynning á leikþætti um Gauk Trandilsson, sem Vilborg Halldórsdóttir, leikkona og leikstjóri, hefur skrifað.

Allir áhugasamir um menningu og sögu uppsveitanna eru hvattir til að mæta og gerast stofnfélagar menningarklasans. Nú er klasinn að taka á sig fastara form og spennandi verkefni framundan. Þeir sem ekki komast á aðalfundinn en vilja vera stofnfélagar eru beðnir um að láta stjórn vita í síma 663 9010.

Menningarklasinn hlaut nýverið styrk til þriggja ára frá Vaxtarsamningi Suðurlands. Meðal verkefna sem nú eru í undirbúningi eru mánaðarleg viðburðakvöld á samkomustöðum víðsvegar um uppsveitirnar næstu þrjú árin. Má þar nefna fyrirlestra, gönguferðir, málþing, tónleika og leiksýningar.

Nánari upplýsingar veitir Skúli Sæland í síma 663 9010.