Aðalfundur Upplits og málþing verður á Lindinni á Laugarvatni laugardaginn 4. febrúar og hefst kl 14:00

„Upplit, góðan dag, hvernig getum við aðstoðað?“ er yfirskrift málþings um menningarsamstarf þvert á hreppagirðingar sem Upplit, menningarklasi uppsveita Árnessýslu, boðar til í tengslum við aðalfund sinn á Lindinni á Laugarvatni laugardaginn 4. febrúar. Málþingið hefst kl. 14 og að því loknu, um kl. 16, hefst aðalfundurinn.

 

Sérstakur gestur málþingsins verður Hrund Gunnsteinsdóttir, þróunarfræðingur og framkvæmdastjóri Krád consulting, sem einnig gegnir starfsheitunum draumóramanneskja, ráðgjafi og skáld. Hún hefur starfað sem blaðamaður, verkefnisstjóri UN Women í Kósóvó, fastráðinn starfsmaður Sameinuðu þjóðanna í Genf, sjálfboðaliði og stjórnarkona í mannréttinda- og mannúðarsamtökum hér á landi og erlendis, og ráðgjafi í þróunar- og friðarmálum. Hrund stofnaði Krád consulting árið 2008 og fór þá að vinna markvisst með gagnrýna og skapandi hugsun og „landamæraleysi“. Hún hannaði og stýrði Prisma diplómanáminu 2008-2010, í samvinnu við Listaháskóla Íslands, Háskólann á Bifröst og ReykjavíkurAkademíuna. Hrund hefur haldið fyrirlestra í háskólum á Íslandi um skapandi og gagnrýna hugsun annars vegar og uppbyggingarstarf eftir stríð og jafnrétti hins vegar, auk þess sem hún hefur talað á ráðstefnum hér heima og erlendis. Hún var valin Young Global Leader af World Economic Forum 2011-2016. Nýlega gaf hún út ljóðverkið Hverra mamma ert þú? í samvinnu við Hildigunni Sverrisdóttur og Soffíu Kr. Jóhannsdóttur. Nú starfar hún að gerð alþjóðlegrar heimildarmyndar um innsæi í samvinnu við Klikk Productions.

 

Inngangserindi Hrundar ber yfirskriftina „Að kasta út krækjum“ og er því ætlað að virka sem kveikja að umræðum að erindinu loknu. Í erindi sínu mun Hrund spekúlera í þeim  möguleikum sem búa í Uppliti á tímamótum og nota til þess verkfæri og linsur skapandi hugsunar og landamæraleysis.

 

Málþingsgestum verður skipt upp í umræðuhópa sem ræða nokkrar lykilspurningar um framtíð Upplits, en félagið hefur verið starfandi í liðlega tvö ár og þarf bráðlega að gera upp við sig hvert skuli stefna, nú þegar hillir undir lok þriggja ára verkefnis sem hefur notið styrks frá Vaxtarsamningi Suðurlands. Meðal þess sem rætt verður um er hvernig Upplit geti aðstoðað við að efla enn frekar menningarlíf í uppsveitum Árnessýslu. Einnig verður velt upp spurningum um hvernig Upplit geti betur tengst ferðaþjónustunni, skólunum og sveitarstjórnunum á svæðinu. Upplitsfélagar, ferðaþjónustu-, skóla- og  sveitarstjórnarfólk, og allir þeir sem láta sig menningarstarfsemi í heimabyggð varða eru hvattir til að mæta og taka virkan þátt í umræðunni.

 

Aðalfundur Upplits

 

Að málþingi loknu, um kl. 16, verður aðalfundur Upplits haldinn á sama stað. Á dagskrá eru venjuleg aðalfundarstörf. Nánari upplýsingar um dagskrá er að finna á www.upplit.is.