Afrekshorn Búnaðarfélags Biskupstungna 2007

Búnaðarfélag Biskupstungna veitir árlega afrekshorn félagsins. Að þessu sinni varð fyrir valinu Ásborg Arnþórsdóttir ferðamálafulltrúi Uppsveita Árnessýslu

Formaður Búnaðarfélags Biskupstungna Óttar Bragi Þráinsson veitti verðlaunin og sagði hann meðal annars: 

„Það þótti mikil dirfska og jafnframt framsýni þegar hreppsnefnd Biskupstungnahrepps árið 1995 réði Ásborgu til starfa sem ferðamálafulltrúa.

Árið 1996 ákváðu síðan Uppsveitir Árnessýslu að fara sameiginlega í vinnu við umfangsmikla stefnumótun i ferðaþjónustu og og réðu Ásborgu til starfa sem ferðamálafulltrúa fyrir allar uppsveitirnar.

Nú hefur Ásborg verið starfandi á svæðinu í tæp 12 ár og hefur ferðaþjónusta,undir hennar leiðsögn og með hennar stuðningi vaxið mjög og dafnað.

Umdæmi Ásborgar er ekki eingöngu stórt og fjölbreytilegt, þ.e. 7 þúsund ferkílómetrar eða 6,5% af Íslandi, heldur er þetta fjölsóttasta ferðamannasvæði landsins.

Reynsla, dugnaður og ekki síst jákvætt viðhorf til allra þeirra fjölmörgu verkefna sem hún hefur tekið að sér hefur vakið eftirtekt langt út fyrir okkar svæði og hefur því verið leitað til hennar með fjölmörg samstarfsverkefni og kynningar jafnt innanlands sem utan.“

Ásborg er vel að þessum verðlaunum komin og óskum við henni innilega til hamingju með afrekshornið.