Áhrif Covid-19 á atvinnustig og útsvarstekjur

Samkvæmt tölum frá Vinnumálastofnun voru alls 188 íbúar í Bláskógabyggð í skertu starfshlutfalli í byrjun apríl og mældist atvinnuleysi 14% í mars. Áætlun Vinnumálastofnunar gerir ráð fyrir að það verði 26,6% í apríl, er þá tekið tillit til skerðingar á starfshlutfalli.

Á fundi sveitarstjórnar hinn 16. apríl s.l. var farið yfir gögn Vinnumálastofnunar og lagðar fram sviðsmyndir vegna mögulegs tekjusamdráttar sveitarfélagsins vegna lækkaðs atvinnustigs. Miðað var við að útsvarstekjur dragist saman um 10, 20 eða 30% frá því sem áætlað var. Ef gert er ráð fyrir 10% samdrætti í útsvarstekjum myndi rekstrarafgangur samstæðu lækka um 69 milljónir króna og yrði 25 millj.kr. í stað 94 skv. áætlun. 20% tekjusamdráttur myndi gera það að verkum að rekstrarniðurstaða A og B-hluta yrði neikvæð sem næmi 40 millj. króna, og 30% samdráttur að niðurstaðan yrði neikvæð sem næmi 105 millj. króna.

Grannt er fylgst með því hver þróunin verður varðandi útsvarstekjur sveitarfélagsins, en stefnt er að því að draga ekki úr áætluðum framkvæmdum þrátt fyrir fyrirsjáanlegan tekjusamdrátt.