Ályktun frá æskulýðsnefnd

Í Bláskógabyggð erum við svo lánsöm að fremur auðvelt er fyrir börn og unglinga að fá vinnu yfir sumartímann. Á Íslandi hafa mörg stéttarfélög lýst yfir áhyggjum sínum af því að ungmenni á vinnumarkaði eigi oft á tíðum undir högg að sækja. Þau séu ekki upplýst um réttindi sín og skyldur, s.s. vinnutíma, öryggi, orlofsgreiðslur og ráðningasamninga.

Æskulýðsnefnd tekur undir þessar áhyggjur og vill koma þeim tilmælum áleiðis til sveitarstjórnar að hún hvetji atvinnurekendur í sveitarfélaginu til þess að huga að réttindum og skyldum ungmenna sem þeir ráða til vinnu. Einnig má benda foreldrum, forráðamönnum og ungmennum sjálfum á vefsíðu umboðsmanns barna, barn.is en þar er að finna allt það sem þarft er að vita um réttindi og skyldur barna og ungmenna sem eru á vinnumarkaði.