Auglýsing um nýtingu lands og landsréttinda innan þjóðlendu

Sveitarfélagið Bláskógabyggð auglýsir eftir aðilum til að nýta lóð innan Biskupstungnaafréttar. Lóðin sem um ræðir er við Þverbrekknamúla. Á lóðinni er afréttarskáli í einkaeigu, salernishús og vetrarkamar. Aðrir umsækjendur en núverandi eigendur verða því að gera ráð fyrir að þurfa að leysa til sín skálann ef af úthlutun lóðar verður.

Umrætt svæði er á þjóðlendu (Biskupstungnaafrétti) skv. úrskurði óbyggðanefndar frá 21. mars 2002 í máli nr. 4/2000. Í ljósi þess þarf leyfi sveitarfélagsins Bláskógabyggðar til að nýta land og landsréttindi á svæðinu, sbr. 3. mgr. 3. gr. laga nr. 58/1998 um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlenda og áfrétta. Jafnframt þarf samþykki forsætisráðuneytisins þar sem umrædd nýting á að vara lengur en til eins árs, sbr. 2. mgr. 3. gr. sömu laga.

Bláskógabyggð hefur samþykkt deiliskipulag fyrir umrætt svæði.

Skilmálar sem einkum verður litið til við ákvörðun um leyfisveitingu á umræddu svæði eru eftirfarandi. Ekki skal litið svo á að röðun þeirra gefi til kynna vægi einstakra skilmála innbyrðis:

–      hvernig viðkomandi hyggst nýta lóðina í þeim tilgangi að hafa þar þjónustu fyrir ferðamenn og aðra sem eiga leið um svæðið,

–      frágangur mannvirkja og annarrar starfsemi. Sveitarfélagið mun sérstaklega líta til þess að frágangur verði með þeim hætti að samræmist landslagi vel og stingi ekki í stúf við umhverfið að öðru leyti,

–      þekking og reynsla viðkomandi aðila af rekstri gisti- og afþreyingarþjónustu, s.s. gistihúsa á miðhálendinu og starfsemi afréttarskála,

–      reynslu af gerð og viðhaldi göngustíga og annarra ferðaþjónustutengdra mannvirkja.

Upplýsingar um deiliskipulag svæðisins má nálgast hjá skipulagsfulltrúa á skrifstofu Umhverfis- og tæknisviðs Uppsveita bs. og á vefslóðinni http://skipulagsaaetlanir.skipulagsstofnun.is/skipulagvefur/display.aspx?numer=11597.

Áhugasamir aðilar vinsamlegast sendið tillögu að notkun á umræddu svæði til sveitarfélagsins Bláskógabyggðar, eigi síðar en miðvikudaginn 20. febrúar nk.  Frekari upplýsingar veitir sveitarstjóri Bláskógabyggðar í síma 480-3000. Tölvupóstfang sveitarstjóra er asta@blaskogabyggd.is.

Bláskógabyggð
Aratungu, Reykholti
801 Selfoss