Auglýsing um skipulagsmál í Uppsveitum Árnessýslu og Flóahreppi

Bláskógabyggð,Grímsnes-og Grafningshreppi,Hrunamannahreppi, Skeiða-og Gnúpverjahreppi og Flóahreppi

Samkvæmt 2. mgr. 36. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er auglýst niðurstaða sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps fyrir eftirfarandi aðalskipulagsbreytingu:
1. Breyting á Aðalskipulagi Grímsnes og Grafningshreppi 2008-2020 á jörðinni Suðurkot.
Sveitarstjórn Grímsnes- og Grafningshrepps samþykkti á fundi þann 5. október 2011 tillögu að breytingu á Aðalskipulagi Grímsnes- og Grafningshrepps 2008-2020 fyrir jörðina Suðurkot. Í breytingunni felst að landnotkun jarðarinnar breytist úr óbyggðu svæði í landbúnaðarsvæði til samræmist við greinargerð aðalskipulagsins og stöðu jarðarinnar sem lögbýlis. Að mati sveitarstjórnar er um óverulega breytingu að ræða og var hún samþykkt skv. 2. Mgr. 36. Gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
Samkvæmt 31. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er hér með auglýst eftir athugasemdum við eftirfarandi aðalskipulagsbreytingu:
2. Breyting á Aðalskipulagi Grímsnes- og Grafningshrepp 2008-2020 vegna Ásborga.
Í breytingunni felst að íbúðarsvæðið Ásborgir, merkt íb 11 í aðalskipulaginu og er um 28 ha að stærð, breytist í blandaða landnotkun íbúðarsvæðis og svæðis fyrir verslun – og þjónustu. Ástæða breytingarinnar er að  til að gefa möguleika á því að nýta þegar byggð og fyrirhuguð hús á svæðinu sem gisti- og/eða veitingahús. Breyting á deiliskipulagi svæðisins er auglýst samhliða.

Samkvæmt 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er hér með auglýst eftir athugasemdum við eftirfarandi deiliskipulagsáætlanir:
3. Breyting á skilmálum frístundabyggðar í  landi Norðurkots í Grímsnes- og Grafningshreppi.
Auglýst að nýju breyting á skilmálum frístundabyggðar úr landi Norðurkots í Grímsnes- og Grafningshreppi. Tillaga að breyttum skilmálum var auglýst til kynningar 14. október 2010 með athugasemdafresti til 28. desember s.á. Engar athugasemdir bárust en breytingin öðlaðist þó ekki gildi vegna ábendinga Skipulagsstofnunar. Nú er tillagan auglýst að nýju með breytingum er varða fjölda aukahúsa og stærðir húsa á lóðum minni en 4.000 fm. Samkvæmt gildandi skilmálum er heimilt að reisa allt að 200 fm hús og 25 fm aukahús á hverri lóð. Breytingartillagan gerir ráð fyrir að hámarksbyggingarmagn lóða miðist við nýtingarhlutfallið 0.03, þ.e. um 150 fm fyrir lóð sem 0,5 ha að stærð og 225 fm ef lóðin er 0,75 ha. Á lóðum sem eru minni en 0,4 ha miðast hámarksbyggingarmagn þó við 120 fm. Á hverri lóð verður heimilt að reisa frístundahús og allt að tvö aukahús. Aukahúsin mega að hámarki vera 40 fm að stærð.

4. Deiliskipulag fyrir íbúðarhús á jörðini Suðurkot í Grímsnes- og Grafnignshreppi.
Auglýst að nýju tillaga að deiliskipulagi fyrir íbúðarhús á jörðinni Suðurkot í Grímsnes- og Grafningshreppi.  Jörðinni hefur verið skipt í 10 sérafnotahluta og tvo sameignarhluta, en deiliskipulagið nær eingöngu yfir nyrsta hluta eins af 10 sérafnotahlutum. Samkvæmt tillögunni er gert ráð fyrir að innan skipulagssvæðisins verði heimilt að reisa allt að 200 fm heilsárshús og allt að 50 fm aukahús.

5. Breyting á deiliskipulagi frístundabyggðar í landi Hests í Grímsnes- og Grafningshreppi.
Auglýst að nýju tillaga að breytingu á deiliskipulagi frístundabyggðar í landi Hests í Grímsnes- og Grafningshreppi. Breytingin er sett fram á tveimur uppdráttum og felur í sér að fjórum frístundahúsalóðum er bætt við þær sem fyrir eru. Tvær um 0,8 ha lóðum koma í framhaldi af lóðum nr. 131 og 136 og aðrar tvær 0,8 ha lóðir koma í framhaldi af lóðum nr. 5b og 7c.
6. Breyting á deiliskipulagi íbúðarsvæðisins Ásborgir í Grímsnes- og Grafningshreppi.
Gerð er breyting á skilmálum svæðisins á þann veg að heimilt verður að nýta hús á svæðinu sem íbúðarhús og sem gisti- og/eða veitingahús til samræmist við tillögu að breytingu á aðalskipulagi svæðisins sem auglýst er samhliða. Þá er einnig gert ráð fyrir að byggingarreitur á lóð nr. 48 á stækki þannig að hann veðri 50 m frá þjóðvegi í stað 100 m.
7. Deilskipulag þriggja frístundahúsalóða úr landi Grafar í Bláskógabyggð.
Skipulagssvæðið er um 1,8 ha að stærð og liggur upp að aðkomuvegi að bænum Lækjarhvammi. Hluti svæðisins var áður nýtt sem efnistökusvæði en samkvæmt tillögunni er nú gert ráð fyrir þremur frístundahúsalóðum þar sem heimilt verður að reisa eitt frístundahús og eitt aukahús. Hámarksbyggingarmagn miðast við nýtingarhlutfallið 0.03, þ.e. 150 fm á 0,5 ha lóð. Hámarksstærð aukahúss er 30 fm.
Samkvæmt 4. mgr. 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er hér kynnt tillaga að eftirfarandi deiliskipulagi:
8. Tillaga að deiliskipulagi fyrir 24,7 ha lögbýli úr landi Hamarsholts í Skeiða- og Gnúpverjahreppi.
Kynnt er tillaga að deiliskipulagi fyrir nýtt 24,7 ha lögbýli úr landi Hamarsholts í Skeiða- og Gnúpverjahreppi sem mun heita Lómsstaðir. Landið liggur við þjóðveg nr. 325 upp við landi Víðhlíðar. Skipulagssvæðið sjálft er um 1 ha að stærð og er næst þjóðvegi. Þar er gert ráð fyrir byggingarreit fyrir íbúðarhús og byggingarreit fyrir útihús. Aðkoma að nýjum húsum verður sameiginleg með Víðihlíð.

Skipulagstillögurnar liggja frammi á skrifstofu skipulagsfulltrúa uppsveita Árnessýslu, Dalbraut 12, Laugarvatni á skrifstofutíma frá 9-16. Að auki er hægt að nálgast nánari lýsingu á tillögunum og tillögurnar sjálfar á vefslóðinni http://www.sveitir.is/skipulagsfulltrui/auglysingar/. Kynningartími fyrir skipulagstillögur 2 – 7 er frá 13. október til 24. nóvember 2011 og kynningartími skipulagstillögu nr. 8 er frá 13. – 18. Október. Athugasemdir við tillögur 2-7 skulu berast skipulagsfulltrúa uppsveita Árnessýslu í síðasta lagi 24. nóvember 2011 og skulu þær vera skriflegar. Hver sá sem ekki gerir athugasemdir við tillögurnar innan tilskilins frests, telst vera samþykkur þeim.

Pétur Ingi Haraldsson
Skipulagsfulltrúi uppsveita Árnessýslu og Flóahrepps