Auglýsing um skipulagsmál í uppsveitum Árnessýslu og Flóahreppi

Bláskógabyggð,Grímsnes-og Grafningshreppi,Hrunamannahreppi, Skeiða-og Gnúpverjahreppi og Flóahreppi

Þegar vinna hefst við gerð aðalskipulagsbreytingar skal taka saman lýsingu á skipulagsverkefninu þar sem fram kemur hvaða áherslur sveitarstjórn hafi við skipulagsgerðina og upplýsingar um forsendur og fyrirliggjandi stefnu og fyrirhugað skipulagsferli.

 

Samkvæmt 1. mgr. 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 eru hér kynnt tillaga að lýsingu skipulags fyrir eftirfarandi aðalskipulagsbreytingu:

 1. Breyting á Aðalskipulagi Laugardalshrepps 2000-2012 innan þéttbýlisins Laugarvatn. Endurskoðun landnotkunar til samræmis við deiliskipulag.

Forsendur breytingarinnar eru þær að á undanförnum mánuðum hefur verið unnið að fyrsta heildardeiliskipulagi fyrir Laugarvatn. Þessari vinnu er að ljúka og liggur nú fyrir tillaga að deiliskipulagi sem ráðgert er að auglýsa á næstunni. Samhliða deiliskipulaginu þarf að gera nokkrar minniháttar breytingar á aðalskipulagi víðsvegar um þéttbýlið.

 

Áður en tillaga að breytingu á aðalskipulagi er tekin til formlegrar afgreiðslu í sveitarstjórn skal tillagan og forsendur hennar kynnt íbúum sveitarfélagsins og öðrum hagsmunaaðilum.

Samkvæmt 2. mgr. 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 eru hér kynntar eftirfarandi tillögur  að breytingu á aðalskipulagi:

 1. Breyting á Aðalskipulagi Biskupstungnahrepps 2000-2012 innan þéttbýlisins Reykholt í Bláskógabyggð. Stækkun á athafnasvæði fyrir dælustöð.

Í breytingunni felst að núverandi athafnasvæði utan um Reykholtshver stækkar til norðurs þar sem fyrirhugað að reisa dælustöð sem myndi þjóna starfsemi Bláskógaveitu. Athafnasvæðið fer inn á svæði sem í gildandi aðalskipulagi er skilgreint sem svæði fyrir þjónustustofnanir.

 1. Breyting á Aðalskipulagi Grímsnes- og Grafningshrepps 2008-2020 á svæði úr landi Stóru-Borgar í Grímsnes- og Grafningshreppi. Smábýli í stað frístundabyggðar.

Lögð fram til kynningar tillaga að breytingu á aðalskipulagi Grímsnes- og Grafningshrepps 2008-2020 á spildu úr landi Stóru-Borgar. Breytingin varðar um 37 ha spildu úr landi Stóru-Borgar sem liggur upp að Biskupstungnabraut og Höskuldslæk, sunnan þjóðvegar. Landið er í dag skilgreint sem svæði fyrir frístundabyggð en fyrirhugað er að breyta því þannig að heimilt verði að byggja þar nokkur smábýli, um 6-10 skv. fyrirliggjandi tillögu. Svæðið verður skilgreint sem blanda lanbúnaðar- og íbúðarsvæðis.

 1. Breyting á Aðalskipulagi Grímsnes- og Grafningshrepps 2008-2020 á spildu úr landi Ásgarðs við Skógarholt. Svæði fyrir frístundabyggð í stað opins svæðis til sérstakra nota.

Um er að ræða u.þ.b. 14 ha svæði sem í dag er skilgreint sem opið svæði til sérstakra nota en með breytingunni verður að svæði fyrir frístundabyggð til samræmis við aðliggjandi svæði. Fyrir liggur tillaga að breytingu á deiliskipulagi hluta svæðisins þar sem gert er ráð fyrir að bæta við um 10-11 frístundahúsalóðum.

 

Samkvæmt 31. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 eru hér kynntar eftirfarandi tillögur að breytingu á aðalskipulagi:

 1. Breyting á Aðalskipulagi Hrunamannahrepps 2003-2015 á spildu úr landi Miðfells 3. Nýtt svæði fyrir verslun- og þjónustu.

Tillaga að breytingu á aðalskipulagi Hrunamannahrepps 2003-2015 fyrir spildu úr landi Miðfells 3. Í breytingunni felst að gert er ráð fyrir svæði fyrir verslun og þjónustu á svæði sem samkvæmt gildandi aðalskipulagi er landbúnaðarsvæði. Á þessari spildu er fyrirhugað að reisa gistiheimili/hótel. Aðkoma að svæðinu verður um land Dalbæjar 3. Tillaga að deiliskipulagi svæðisins er auglýst samhliða.

 1. Breyting á Aðalskipulagi Biskupstungnahrepps 2000-2012 í landi Heiðar við fossinn Faxa í Bláskógabyggð.

Lögð fram til kynningar tillaga að breytingu á aðalskipulagi Biskupstungnahrepps 2000-2012 í landi Heiðar. Í breytingunni felst að gert er ráð fyrir svæði fyrir verslun- og þjónustu á svæðinu milli þjóðvegar og fossins Faxa. Á svæðinu er þegar til staðar tjaldsvæði en vegna mikilllar aukningar ferðamanna undanfarin misseri er fyrirhugað að auka þjónustustig svæðisins m.a. með byggingu veitingasölu.

 

Samkvæmt 2. mgr. 36. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er hér auglýst niðurstaða sveitarstjórnar fyrir eftirfarandi aðalskipulagsbreytingu:

 1. Breyting á Aðalskipulagi Grímsnes- og Grafningshrepps 2008-2020 sem nær til golfvallarsvæðis við Borg.

Á fundi sveitarstjórnar 6. júní 2012 var samþykkt tillaga að breytingu á aðalskipulagi Grímsnes- og Grafningshrepps á svæði innan golfvallarsvæðis við Borg. Í breytingunni felst að afmörkun verslunar- og þjónustusvæðis, merkt V7, breytist til samræmis við nýjar tillögur að uppbyggingu golfskála og gistimöguleika á svæðinu. Í stað þess að gera ráð fyrir þremur svæðum merkt V7 eru tvö þeirra felld út og í staðinn gert ráð fyrir svæði sem skilgreint er sem blönduð landnotkun opins svæðis til sérstakra nota og verslunar- og þjónustusvæðis. Þar sem ekki er um að ræða breytingar á byggingarmagni verslunar- og þjónustusvæðis er að mati sveitarstjórnar um óverulega breytingu á aðalskipulagi að ræða.

 

Þegar vinna hefst við gerð deiliskipulags skal taka saman lýsingu á skipulagsverkefninu þar sem fram kemur hvaða áherslur sveitarstjórn hafi við skipulagsgerðina og upplýsingar um forsendur og fyrirliggjandi stefnu og fyrirhugað skipulagsferli.

Samkvæmt 2. mgr. 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er hér kynnt tillaga að lýsingu skipulagsverkefnis fyrir eftirfarandi verkefni:

 1. Deiliskipulag fyrir smávirkjun á jörðinni Brekku í Bláskógabyggð.

Lögð fram lýsing að deiliskipulagi fyrir smávirkjun í Brekkulæk í landi Brekku. Fyrirhugað er að stífla Brekkulæk um 1 km ofan við bæinn Brekku og leggja 970 m þrýstipípu að stöðvarhúsi neðan við þjóðveg. Um er að ræða rennslisvirkjun og því ekki gert ráð fyrir uppistöðu. Allt framkvæmdarsvæðið er innan jarðarinnar Brekku.

 1. Deiliskipulag fyrir smábýlalóðina Leiti í Skeiða- og Gnúpverjahreppi.

Lögð fram lýsing á deiliskipulagi yfir landið Leiti í Skeiða- og Gnúpverjahrepps. Um er að ræða 3,9 ha spildu, skilgreint sem smábýli þar sem gert er ráð fyrir byggingarreit fyrir allt að 250 fm hesthúsi, byggingarreit fyrir allt að fjögur 35-40 fm frístundahús og að Leitisvegur verði framlengdur frá núverandi húsi suður eftir landinu.

 

Áður en tillaga að deiliskipulagi er tekin til formlegrar afgreiðslu skal tillagan og forsendur hennar kynnt íbúum sveitarfélagsins og öðrum hagsmunaaðilum.

Samkvæmt 4. mgr. 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 eru hér kynntar eftirfarandi tillögur að deiliskipulagi:

 1. Deiliskipulag fyrir tæplega 30 ha spildu úr landi Stóru-Borgar í Grímsnes- og Grafningshreppi. Ný frístundabyggð norðan við þéttbýlið Borg.

Lögð fram til kynningar tillaga að deiliskipulagi frístundabyggðar úr landi Stóru-Borgar, svæði sem kallast Hlauphólar. Landið er um 29 ha að stærð og liggur að þéttbýlinu Borg, frístundabyggð úr landi Bjarkar og Minni-Borgar. Samkvæmt tillögunni er gert ráð fyrir 40 lóðum á bilinu 0,5 – 1 ha að stærð þar sem heimilt verður að reisa frístundahús sem eru að lágmarki 30 fm að grunnfleti og 140 fm að hámarki. Aðkoma að svæðinu verður um veg sem liggur frá tjaldstæðinu á Borg.

 1. Deiliskipulag fyrir 9,7 ha spildu, Skálmholt land C (lnr.219650), í Flóahreppi.

Lögð fram til kynningar tillaga að deiliskipulagi um 9,7 ha spildu sem kallast Skálmholt Land C (lnr. 219650). Samkvæmt tillögunni er gert ráð fyrir að heimilt verði að reisa allt að 200 fm íbúðarhús (reitur B1) og allt að 300 fm skemmu (reitur B2).

 

Samkvæmt 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 eru hér kynntar tillögur að eftirfarandi deiliskipulagsáætlunum:

 1. Tillaga að deiliskipulagi verslunar- og þjónustusvæði í landi Heiðar við fossinn Faxa í Bláskógabyggð.

Tillaga að deiliskipulagi verslunar- og þjónustulóðar í landi Heiðar. Gert er ráð fyrir að byggja allt að 350 fm þjónustuhús og allt að 50 fm geymsluhús innan byggingarreits sem er milli aðkomuvegar að Tungnarétt og Tungufljóts. Tillaga að breytingu á aðalskipulagi svæðisins er auglýst samhliða.

 1. Tillaga að deiliskipulagi fjallaselsins Hvítárnes við Hvítárvatn í Bláskógabyggð.

Tillaga að deiliskipulagi fyrir fjallaselið Hvítárnes við Hvítárvatn á Kili í Bláskógabyggð. Skipulagssvæðið nær yfir núverandi skála í Hvítárnesi og nánasta umhverfi. Í deiliskipulaginu er m.a. afmörkuð lóð utan um núverandi hús til að hægt verið að skrá það með formlegum hætti í fasteignaskrá auk þess sem gert er ráð fyrir stækkun á salernisaðstöðu og afmarkað svæði fyrir bílastæði og tjaldsvæði.

 1. Tillaga að deiliskipulagi verslunar- og þjónustulóðar á spildu úr landi Miðfells 3 í Hrunamannahreppi.

Tillaga að deiliskipulagi um 1 ha spildu úr landi Miðfells 3 í Hrunamannahreppi þar sem fyrirhugað er að reisa gistihús.. Samkvæmt tillögunni er gert ráð fyrir byggingarreit fyrir gistihús á einni hæð og er hámarksnýtingarhlutfall 0,15. Í fyrsta áfanga er gert ráð fyrir um 16 herbergjum með möguleika á að fjölga herbergjum í 36. Breyting á aðalskipulagi svæðisins er auglýst samhliða.

 1. Tillaga að breytingu á deiliskipulagi Merkur í Flóahreppi. Ferðaþjónustuhús innan landbúnaðarsvæðis.

Lögð fram tillaga að breytingu á deiliskipulagi í landi Markar. Um er að ræða lóðina Mörk 13 þar sem gert er ráð fyrir nýjum byggingarreit, norðan við lóðir 6-8, fyrir allt að 4 hús fyrir ferðaþjónustu. Hámarkstærð hvers húss er 90 fm. Þá er einnig gert ráð fyrir nýrri aðkomu að lóð nr. 13.

Ofangreindar skipulagstillögur liggja frammi til kynningar á skrifstofu skipulagsfulltrúa uppsveita Árnessýslu, Dalbraut 12, Laugarvatni á skrifstofutíma frá 9-16. Tillögurnar verða einnig aðgengilegur á skrifstofum viðkomandi sveitarfélaga fram til 1. júlí 2012 og tillögur nr. 5 – 6 verða einnig til sýnis hjá Skipulagsstofnun, Laugavegi 166, Reykjavík. Að auki er hægt að nálgast nánari lýsingu á tillögunum og tillögurnar sjálfar á  http://www.sveitir.is/skipulagsfulltrui/auglysingar/. Skipulagstillögur nr. 1 – 4 og 8 – 11 eru í kynningu frá 21. til 27. júní 2012 en kynningartími fyrir skipulagstillögur nr. 5 – 6 og 12 -15 er frá 21. júní  til 3. ágúst 2012. Athugasemdir og ábendingar við tillögur  nr. 1 – 4 og 8 – 11 þurfa að berast skipulagsfulltrúa í síðasta lagi 27. júní en athugasemdir við tillögur nr. 5 – 6 og 12 -15 þurfa að berast í síðasta lagi 3. ágúst 2012. Athugasemdir skulu vera skriflegar.

Pétur Ingi Haraldsson

Skipulagsfulltrúi uppsveita Árnessýslu og Flóahrepps