Auglýsing um skipulagsmál í Uppsveitum Árnessýslu og Flóahreppi

Bláskógabyggð,Grímsnes-og Grafningshreppi,Hrunamannahreppi, Skeiða-og Gnúpverjahreppi og Flóahreppi

Áður en tillaga að breytingu á aðalskipulagi er tekin til formlegrar afgreiðslu í sveitarstjórn skal tillagan og forsendur hennar kynnt íbúum sveitarfélagsins og öðrum hagsmunaaðilum.
Samkvæmt 2. mgr. 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er hér kynnt eftirfarandi tillaga  að breytingu á aðalskipulagi:
1. Breyting á Aðalskipulagi Laugardalshrepps 2000-2012 innan þéttbýlisins Laugarvatn. Endurskoðun landnotkunar til samræmis við deiliskipulag.
Lögð fram til kynningar tillaga að breytingu á aðalskipulagi Laugardalshrepps 2000-2012 innan þéttbýlisins Laugarvatn. Á undanförnum mánuðum hefur verið unnin tillaga að fyrsta heildardeiliskipulagi fyrir Laugarvatn og liggur nú fyrir tillaga sem ráðgert er að auglýsa á næstunni. Um er að ræða nokkrar breytingar víðsvegar um þéttbýlið, flestar þeirra minniháttar. Helstu breytingar eru eftirfarandi:
• Svæði í miðju þéttbýlisins sem nær yfir Héraðsskólann og stærstan hluta háskólasvæðisins auk lóða við Dalbraut verður skilgreint sem miðsvæði þar sem gert er ráð fyrir verslun og þjónustu, stjórnsýslu, menningarstofnunum og ferðaþjónustu.
• Lóðir meðfram Torfholti, sem í dag er íbúðarbyggð, verði blönduð landnotkun íbúðar og verslunar- og þjónustu.
• Stofnanasvæði við Gljúfurholt verði að hluta blönduð notkun íbúðar-, verslunar- og þjónustusvæði og að hluta íbúðarsvæði.
• Reitur blandaðrar notkunar opinberrar þjónustu og verslunar sunnan við hesthúsasvæði, stækki og verði blönduð landnotkun verslunar- , þjónustu- og opið svæði til sérstakra nota fyrir ferðaþjónustu.
• Þéttbýlismörk breytast við ströndina.
• Ýmsar götur og stígar breytast innan þéttbýlisins.

Samkvæmt 31. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er hér kynnt eftirfarandi tillaga að breytingu á aðalskipulagi:
2. Breyting á Aðalskipulagi Skeiða- og Gnúpverjahrepps 2004-2016. Vindrafstöðvar á athafnasvæði Landsvirkjunar við Bjarnalón.
Lögð fram tillaga að breytingu á Aðalskipulagi Skeiða- og Gnúpverjahrepps 2004-2016 sem varðar athafnasvæði Landsvirkjunar milli Búrfellsvirkjunar og Sultartanga. Svæðið er skilgreint sem blanda landnotkunar iðnaðarsvæðis og opins svæðis til sérstakra nota, merkt sem I1 og I2. Ekki er gert ráð fyrir breyttri afmörkun svæðisins heldur tekur breytingin til aukinnar og breyttra orkuvinnslu, þ.e. að á ákveðnu svæði verði heimilt að reisa tvær allt að 55 m háar vindtúrbínur (spaðar geta náð upp í allt að 80 m hæð) sem geti framleitt allt að 1,9 MW.

Þegar vinna hefst við gerð deiliskipulags skal taka saman lýsingu á skipulagsverkefninu þar sem fram kemur hvaða áherslur sveitarstjórn hafi við skipulagsgerðina og upplýsingar um forsendur og fyrirliggjandi stefnu og fyrirhugað skipulagsferli.
Samkvæmt 2. mgr. 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er hér kynnt tillaga að lýsingu skipulagsverkefnis fyrir eftirfarandi verkefni:
3. Deiliskipulag fyrir nýtt lögbýli (lnr. 212210) úr landi Kjóastaða í Bláskógabyggð.
Lögð fram tillaga að lýsingu fyrir deiliskipulag skv. 2. mgr. 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 fyrir nýtt lögbýli úr landi Kjóastaða. Um er að ræða deiliskipulag yfir um 35 ha svæði (lnr. 212210) sem liggur upp að Biskupstungnabraut og Skeiða- og Hrunamannavegi og fyrirhugað er að nýta til hrossaræktar og garðyrkju. Innan svæðisins verða tveir byggingarreitir fyrir íbúðarhús og útihús og annar byggingarreitur fyrir sameiginlegt útihús.

Samkvæmt 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 eru hér kynntar tillögur að eftirfarandi deiliskipulagsáætlunum:
4. Tillaga að breytingu á deiliskipulagi golfvallarsvæðis úr landi Minni-Borgar við Borg í Grímsnes- og Grafningshreppi.
Í breytingunni felst að fallið er frá uppbyggingu frístundahúsa sem fyrirhuguð voru á tveimur svæðum innan golfvallarins (Móaflöt og Tjaldhólar) og ekki er lengur gert ráð fyrir byggingarreit undir sér golfskála við bílastæði né byggingarreit fyrir æfingaskýli og áhaldahús á æfingasvæðinu. Í staðinn er nú gert ráð fyrir lóð undir hótel- og gistihús ásamt tilheyrandi bílastæðum á vesturhluta svæðisins auk þess sem gert er ráð fyrir áhaldahúsi á miðju golfvallarsvæðinu. Nýtingarhlutfall nýrra lóða verður 0,4. Mænishæð hótels-/gistihúss frá jörðu skal ekki vera meiri en 12 m (3 hæðir) og hæð áhaldahúss skal ekki vera meiri en 6 m. Deiliskipulagsbreytingin er í samræmi við óverulega breytingu á aðalskipulagi sveitarfélagsins sem samþykkt var í sveitarstjórn 6. júní sl.

5. Tillaga að breytingu á deiliskipulagi iðnaðarsvæðis á Nesjavöllum, ásamt umhverfisskýrslu, í Grímsnes- og Grafningshreppi.
Tillaga að breytingu á deiliskipulagi (endurskoðun) iðnaðarsvæðis virkjunar á Nesjavöllum ásamt umhverfisskýrslu. Tillagan gerir ráð fyrir ýmsum breytingum og eru þær helstu stækkun á svæði fyrir niðurrennslisholur, breyting á stærð og afmörkun borsvæða auk þess sem gert er ráð fyrir stækkun stöðvarhúss svæðis fyrir kæliturn. Breytingartillagan var áður auglýst 16. júlí 2009 með athugasemdafresti til 27. Ágúst sama ár. en tók ekki formlega gildi. Nú er tillagan lögð fram til kynningar að nýju með minniháttar breytingum sem gerðar hafa verið til að koma móts við ábendingar/athugasemdir umsagnaraðila.
6. Tillaga að breytingu á skilmálum frístundabyggðar í landi Brekku í Bláskógabyggð. Brekkuheiði og Vallárvegur.
Tillaga að breytingu á byggingarskilmálum frístundabyggðar við Brekkuheiði og Vallárveg í landi Brekku í Bláskógabyggð. Samkvæmt gildandi skilmálum mega frístundahús vera 100 fm að hámarki auk þess sem reisa má 10 fm geymslu. Þakhalli má vera á bilinu 15-45 gráður. Í breytingartillögu er gert ráð fyrir að byggingarmagn lóða miðist við nýtingarhlutfallið 0.03 sem felur í sér að á lóð sem er 0,5 ha að stærð er heimilt að byggja um 150 fm. Á hverri lóð er heimilt að vera með eitt frístundahús og eitt aukahús, en aukahúsið má að hámarki vera 30 fm að stærð.
7. Tillaga að deiliskipulagi tveggja vindrafstöðva á Hafinu, athafnasvæði Landsvirkjunar ofan við Búrfellsstöð, í Skeiða- og Gnúpverjahreppi.
Lögð fram tillaga að deiliskipulagi fyrir vindrafstöðvar á Hafinu í Skeiða- og Gnúpverjahreppi. Deiliskipulagið nær til um 23 ha svæðis á á athafnasvæði Landsvirkjunar ofan við Búrfellsstöð, vestan Þjórsárdalsvegar, þar sem ráðgert er að reisa tvær vindrafstöðvar í rannsóknarskyni. Vindrafstöðvarnar verða um 55 m hæð (spaðar geta náð upp í allt að 80 m hæð) og heildarraforkuframleiðslu þeirra verður að hámarki um 1,9 MW. Tillagan er í samræmi við tillögu að breytingu á aðalskipulagi sem auglýst er samhlið.
Ofangreindar skipulagstillögur liggja frammi til kynningar á skrifstofu skipulagsfulltrúa uppsveita Árnessýslu, Dalbraut 12, Laugarvatni á skrifstofutíma frá 9-16. Að auki er hægt að nálgast nánari lýsingu á tillögunum og tillögurnar sjálfar á  http://www.sveitir.is/skipulagsfulltrui/auglysingar/. Skipulagstillögur nr. 1 og 3 eru í kynningu frá 5. til 19. júlí 2012 en kynningartími fyrir skipulagstillögur nr. 2 og 4 – 7 er frá 5. júlí til 17. ágúst 2012. Athugasemdir og ábendingar við tillögur nr. 1  og 3 þurfa að berast skipulagsfulltrúa í síðasta lagi 19. júlí en athugasemdir við tillögur nr. 2 og 4 – 7 þurfa að berast í síðasta lagi 17. ágúst 2012. Athugasemdir skulu vera skriflegar.
Pétur Ingi Haraldsson
Skipulagsfulltrúi uppsveita Árnessýslu og Flóahrepps