Auglýsing um skipulagsmál í Uppsveitum Árnessýslu og Flóahreppi

Bláskógabyggð,Grímsnes-og Grafningshreppi,Hrunamannahreppi, Skeiða-og Gnúpverjahreppi og Flóahreppi

Samkvæmt 2. mgr. 32. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er hér auglýst niðurstaða sveitarstjórnar varðandi breytingu á aðalskipulagi.

 1. Breyting á Aðalskipulagi Laugardalshrepps 2000-2012, í Bláskógabyggð,innan þéttbýlisins Laugarvatn.

Sveitarstjórn Bláskógabyggðar samþykkti á fundi 8. nóvember 2012 tillögu að breytingu á aðalskipulagi sveitarfélagsins fyrir þéttbýlið Laugarvatn. Um er að ræða nokkrar breytingar víðsvegar um þéttbýlið, flestar þeirra minniháttar, til samræmis við tillögu að deiliskipulagi þéttbýlsins sem auglýst var samhliða. Helstu breytingar eru eftirfarandi:

 • Svæði í miðju þéttbýlisins sem nær yfir Héraðsskólann og stærstan hluta háskólasvæðisins auk lóða við Dalbraut verður skilgreint sem miðsvæði þar sem gert er ráð fyrir verslun og þjónustu, stjórnsýslu, menningarstofnunum og ferðaþjónustu.
 • Lóðir meðfram Torfholti, sem í dag er íbúðarbyggð, verði blönduð landnotkun íbúðar og verslunar- og þjónustu.
 • Stofnanasvæði við Gljúfurholt verði að hluta blönduð notkun íbúðar-, verslunar- og þjónustusvæði og að hluta íbúðarsvæði.
 • Reitur blandaðrar notkunar opinberrar þjónustu og verslunar sunnan við hesthúsasvæði, stækki og verði blönduð landnotkun verslunar- , þjónustu- og opið svæði til sérstakra nota fyrir ferðaþjónustu.
 • Þéttbýlismörk breytast við ströndina.
 • Ýmsar götur og stígar breytast innan þéttbýlisins.

Tillagan var auglýst þann 23. ágúst 2012 með athugasemdafresti til 5. október. Athugasemdir bárust á kynningartíma, flestar sem áttu við um deiliskipulag svæðisins sem auglýst var samhliða. Á fundi sveitarstjórnar lá fyrir tillaga að umsögn um innkomnar athugasemdir. Aðalskipulagsbreytingin var samþykkt óbreytt frá auglýstri tillögu og var umsögn um innkomnar athugasemdir jafnframt samþykkt.Aðalskipulagsbreytingin hefur hlotið þá meðferð sem skipulagslög nr. 123/2010 mæla fyrir um og hefur verið send Skipulagsstofnun til staðfestingar. Þeir sem óska nánari upplýsinga um aðalskipulagsbreytinguna geta snúið sér til skipulagsfulltrúa uppsveita Árnessýslu og Flóahrepps

 

Samkvæmt 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 eru hér kynntar tillögur að eftirfarandi deiliskipulagsáætlunum: 

 1. Breyting á deiliskipulagi Kiðjabergs í Grímsnes- og Grafningshreppi. Fjölgun frístundahúsalóða og ýmsar lagfæringar.

Lögð fram tillaga að breytingu á deiliskipulagi fyrir jörðina Kiðjaberg. Tillaga að breytingu á deiliskipulagi svæðisins var auglýst til kynningar 21. janúar 2010 með athugasemdafresti til 5. mars sama ár. Deiliskipulagsbreytingin sem þá var auglýst tók ekki formlega gildi og er nú lögð fram til kynningar að nýju með nokkrum breytingum, meðal annars til að koma að hluta til móts við athugasemdir sem bárust þegar tillagan var auglýst árið 2010. Deiliskipulagið er sett fram í greinargerð, á yfirlitsuppdrætti í mkv. 1:5.000 auk 9 uppdrátta í mkv. 1:2.000 og einum sem ekki er í kvarða. Samkvæmt gildandi skipulagi eru lóðirnar 136 talsins en með nýju skipulagi er lóðunum fjölgað um 49 og verða því 185 í heild. Aðrar helstu breytingar eru þær að verið er að koma afmörkun svæðisins á tölvutækt form, gerðar eru minniháttar breytingar á lóðum og byggingarreitum á vissum svæðum, hætt er við uppbyggingu félagsbústaða á lóð nr. 139, tjaldsvæði nánar útfært og aðstaða þar lagfærð, gert ráð fyrir stækkun golfskála og ýmsum öðrum minniháttar breytingum.

 

 1. Breyting á deiliskipulagi Sólheima í Grímsnes- og Grafningshreppi.  Íbúðarsvæði, menningarhús og athafnasvæði.

Lögð fram tillaga að breytingu á deiliskipulagi Sólheima sem felst í að íbúðarhúsalóðum á svæði norðan Upphæða fjölgar, gert er ráð fyrir nýju menningarhúsi og fyrirkomulag vega breytist. Þá er einnig gert ráð fyrir að fyrirkomulag athafnasvæðis austan Sólheimavegar breytist.

 1. Breyting á deiliskipulagi Grundar á Flúðum í Hrunamannahreppi. Stækkun skipulagssvæðis til vesturs vegna viðbyggingar við Hótel Flúðir.

Lögð fram tillaga að breytingu á deiliskipulagi sem í dag nær yfir lóð Grundar á Flúðum. Í breytingunni felst að skipulagsmörk stækka til vesturs yfir lóð Hótel Flúða. Þá er afmarkaður byggingarreitur við sunnarvert hótelið þar sem gert verður ráð fyrir allt að tveggja hæða viðbyggingu með aðstöðu fyrir gesti á þaki.

 

 1. Breyting á deiliskipulagi orlofs- og frístundasvæðis Félags bókagerðarmanna í Miðdal, Bláskógabyggð. Tvö ný orlofshús auk lagfæringa á lóðarmörkum og byggingarreitum.

Lögð fram tillaga að breytingu á deiliskipulagi orlofs- og frístundasvæðis Félags bókagerðamanna í landi Miðdals. Í breytingunni felst að bætt er við tveimur nýjum lóðum fyrir orlofshús/útleiguhús FBM, önnur er við A-götu og verður nr.1 en hin er norðan við Torfu, við Litla-Stekk. Hámarksstærð nýrra orlofshúsa verður 90m² í stað 80m² áður, að undanskilinni Torfuni 1 sem er 150m² að stærð. Hámarksstærð frístundahúsa er óbreytt eða 60m². Hús á lóð nr. 6 við A-götu breytist úr orlofshúsi í frístundahús og breytist nýtingarhlutfall þeirrar lóðar því í 60m² til samræmis við önnur frístundahús. Nokkrir byggingarreitir í Miðhverfi og Neðrahverfi eru lagfærðir og aðlagaðir núverandi aðstæðum. Lóðarmörk hafa einnig verið leiðrétt frá gildandi skipulagi og eru þau samræmd gildandi lóðarleigusamningunum og aðstæðum í landinu.

 

 1. Deiliskipulag fyrir fjallaselið Þverbrekknamúli í Bláskógabyggð ásamt umhverfisskýrslu.

Lögð fram tillaga að deiliskipulagi fyrir fjallaselið í Þverbrekknamúla ásamt umhverfisskýrslu. Deiliskipulagssvæðið nær til 0,7 ha svæðis og rúmar núverandi byggingar og fyrirhugaðar viðbætur. Samkvæmt tillögunni er gert ráð fyrir að heimilt verði að stækka skálann þannig að hann verði samtals 70 fm að stærð auk þess sem gert er ráð fyrir nýju 10 fm salernishúsi, allt að 30 fm skálavarðarhúsi og 3 fm vetrarkamar.

 1. Deiliskipulag fyrir fjallasel í Þjófadölum í Bláskógabyggð ásamt umhverfisskýrslu.

Lögð fram til kynningar tillaga að deiliskipulagi fyrir fjallaselið í Þjófadölum ásamt umhverfisskýrslu. Deiliskipulagssvæðið nær til 1 ha svæðis og nær til núverandi skála, kamars og fyrirhugaðs salernishúss. Samkvæmt tillögunni er gert ráð fyrir að heimilt verði að viðhalda og endurbyggja nýverandi skála, útbúa nýtt 10 fm salernishús og vera með 3 fm vetrarkamar. Þá er einnig gert ráð fyrir að borað verði fyrir vatni í grennd við skálann til þess að leiða í söfnunartank og þaðan í salernishús

 

Samkvæmt 3. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er hér auglýst niðurstaða sveitarstjórnar varðandi eftirfarandi deiliskipulagstillögur:

 1. Deiliskipulag fyrir þéttbýli Laugarvatns í Bláskógabyggð.

Sveitarstjórn Bláskógabyggðar samþykkti á fundi 8. nóvember 2012 tillögu að endurskoðun deiliskipulags fyrir þéttbýlið Laugarvatn, að undanskildu tjald- og þjónustusvæði. Um er að ræða fyrsta heildstæða deiliskipulagið fyrir þéttbýlið en fram til þessa hafa eingöngu viss svæði verið skipulögð með formlegum hætti. Deiliskipulagssvæðið er um 160 ha að stærð og er því skipt í reitiþar sem sérskilmálar eru settir fyrir hvern reit. Reitaskiptingin tekur mið af byggðamynstri og starfsemi og nýtist til að skýra ólíkar áherslur innan deiliskipulagsins. Tillagan var auglýst samhliða breytingu á aðalskipulagi sama svæðis þann 23. ágúst 2012 með athugasemdafresti til 5. október. Athugasemdir bárust á kynningartíma. Á fundi sveitarstjórnar lá fyrir tillaga að umsögn um innkomnar athugasemdir og var deiliskipulagið samþykkt með minniháttar breytingum til að koma til móts við hluta athugasemda.. Deiliskipulagið hefur hlotið þá meðferð sem skipulagslög nr. 123/2010 mæla fyrir um og hefur verið sent Skipulagsstofnun til afgreiðslu skv. 1. mgr. 42. gr. skipulagslaga.  Þeir sem óska nánari upplýsinga um deiliskipulagið geta snúið sér til skipulagsfulltrúa uppsveita Árnessýslu og Flóahrepps

 

Ofangreindar skipulagstillögur liggja frammi til kynningar á skrifstofu viðkomandi sveitarfélags og skrifstofu skipulagsfulltrúa uppsveita Árnessýslu, Dalbraut 12, Laugarvatni á skrifstofutíma frá 9-16. Að auki er hægt að nálgast nánari lýsingu á tillögunum og tillögurnar sjálfar á http://www.granni.is/uppsveitirogfloahr/auglysingar.htm. Skipulagstillögur nr. 2 til 7 eru í kynningu frá 22. nóvember 2012 til 4. janúar 2013. Athugasemdir og ábendingar við tillögur nr. 2 til 7 þurfa að berast skipulagsfulltrúa í síðasta lagi 4. Janúar 2013  og skulu þær vera skriflegar.

 

Pétur Ingi Haraldsson

Skipulagsfulltrúi uppsveita Árnessýslu og Flóahrepps