Auglýsing um skipulagsmál í Uppsveitum Árnessýslu og Flóahreppi

Bláskógabyggð,Grímsnes-og Grafningshreppi,Hrunamannahreppi, Skeiða-og Gnúpverjahreppi og Flóahreppi

Samkvæmt 2. mgr. 21. gr. skipulagslaga nr. 73/1997 er auglýst niðurstaða sveitarstjórnar fyrir eftirfarandi aðalskipulagsbreytingu:
1. Óveruleg breyting á Aðalskipulagi Biskupstungnahrepps 2000-2012. Malarnáma í landi Miklaholts.
Sveitarstjórn Bláskógabyggðar samþykkti á fundi 4. nóvember 2010 tillögu að óverulegri breytingu á aðalskipulagi sveitarfélagsins vegna námu í landi Miklaholts í Biskupstungum. Um er að ræða námu þar sem fyrirhugað er að taka allt að 49.900 m3 af efni á svæði sem að hámarki er 2,4 ha að stærð.  Frestur til athugasemda er 3 vikur, eða til föstudagsins 22. júlí 2011.

Samkvæmt 31. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er hér með auglýst eftir athugasemdum við eftirfarandi aðalskipulagsbreytingar:
2. Breyting á Aðalskipulagi Flóahrepps 2006-2018 í fyrrum Villingaholtshreppi. Spilda úr frístundasvæðinu Mörk úr landi Skálmholts.
Aðalskipulagsbreytingin tekur til breyttrar landnotkunar á frístundasvæðinu Mörk (F13) úr landi Skálmholts í Flóahreppi. Breytingin gerir ráð fyrir að um 6 ha af frístundahúsasvæðinu, sem í dag er um 11 ha, verði breytt í landbúnaðarsvæði. Tillaga að breytingu á deiliskipulagi svæðisins er auglýst samhliða.

3. Breyting á Aðalskipulagi Hrunamannahrepps 2003-2012 innan þéttbýlisins á Flúðum við Ljónastíg.
Í aðalskipulagsbreytingunni felst að um 1,3 ha svæði meðfram vestanverðum Ljónastíg breytist úr landbúnaðarsvæði í íbúðarsvæði, merkt A14. Meginforsenda breytingar er sú að á umræddu svæði eru nú þegar þrjú íbúðarhús og þess vegna talið æskilegt að skilgreina svæðið sem íbúðarsvæði. Með breytingunni er gert ráð fyrir að hægt verði að bæta við tveimur íbúðarhúsalóðum við götuna. Tillaga að deiliskipulagi svæðisins er auglýst samhliða.

Samkvæmt 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er hér með auglýst eftir athugasemdum við eftirfarandi deiliskipulagsáætlanir:
4. Deiliskipulag frístundabyggðar úr landi Austurhlíðar í Bláskógabyggð. Skotalda
Tillaga að deiliskipulagi yfir fjórar 0,5 ha lóðir úr 2 ha spildu úr landi Austurhlíðar lnr. 167196 á svæði sem kallast Skotalda. Þegar hafa verið byggð fjögur hús á landinu og með deiliskipulaginu er verið að afmarka sér lóð utan um hvert þeirra. Á hverri lóð verður heimilt að vera með eitt frístundahús og eitt aukahús. Hámarsbyggingarmagn á hverri lóð miðast við nýtingarhlutfallið 0.03 (150 fm) og má aukahúsið þar af vera 30 fm að stærð.

5. Endurskoðun deiliskipulags fyrir Laugarás í Bláskógabyggð.
Tillaga að deiliskipulagi sem nær yfir stærstan hluta þéttbýlisins í Laugarási í Bláskógabyggð. Innan Laugaráss eru í dag fjölmargar deiliskipulagsáætlanir frá ýmsum tímum og er eitt meginmarkmið með nýju deiliskipulagi að sameina allar þessar áætlanir í eitt samfellt deiliskipulag sem unnið er á stafrænan loftmyndagrunn. Deiliskipulagið felur í raun ekki í sér breytingar á landnotkun frá því sem nú er og ekki verða til nýjar lóðir, en aftur á móti eru gerðar ýmsar breytingar á skilmálum mismunandi svæða innan þéttbýlsins.

6. Breyting á deiliskipulagi Reykjaness í Grímsnes- og Grafningshreppi. Garðyrkjubýlið Reykjalundur
Tillaga að breytingu á deiliskipulagi Reykjaness lnr. 168273 í Grímsnes, fyrir svæði sem nær yfir lögbýlið Reykjalund landnr. 168273. i. Skipulagssvæðið sem breytingin nær til er 8 ha og er gert ráð fyrir tveimur íbúðarhúsum, einu stöku gróðurhúsi og fjórum sambyggðum. Auk þess verður byggt við gamalt íbúðarhús sem fyrir er á svæðinu.

7. Breyting á deiliskipulagi frístundahúsasvæðinu Mörk úr landi Skálmholts í Flóahreppi.
Tillaga að breytingu á deiliskipulagi við Mörk í Flóahreppi. Í breytingunni felst m.a. að felldar eru út 8 lóðir og gert ráð fyrir að landið sem lóðirnar ná yfir verði sameinar í eina spildu og skilgreint sem landbúnaðarland til samræmis við aðalskipulagsbreytingu sem sveitarstjórn hefur samþykkt að auglýsa. Byggingaskilmálar eru endurskoðaðir og rýmkaðir og gerð er almenn uppfærsla miðað við betri kortagrunna og lóðamörk og stærðir lóða breytast.

8. Breyting á deiliskipulagi garðyrkjulóða vestan Ásabyggðar á Flúðum. Mýrarstígur, Garðastígur og Ljónastígur.
Tillaga að endurskoðun deiliskipulags garðyrkjulóða vestan við Ásabyggð. Í gildi er deiliskipulag fyrir hluta svæðisins en endurskoðað deiliskipulag stækkar til suðurs þannig að það nær nú yfir Mýrarstíg, Garðastíg og hluta Ljónastígs. Skipulagið nær yfir garðyrkjulóðir við Garðastíg og Mýrarstíg, íbúðabyggð við Ljónastíg og verslunar- og þjónustusvæðis norðan Sneiðar á Flúðum. Innan svæðisins eru 13 garðyrkjulóðir, 10 íbúðarlóðir og ein lóð fyrir verslun- og þjónustu. Deiliskipulagið er í samræmi við breytingu á aðalskpulagi hluta svæðisins sem auglýst er samhliða.

9. Breyting á deiliskipulagi við Árnes í Skeiða- og Gnúpverjahreppi.
Tillaga að breytingu á deiliskipulagi sunnan við Árnes. Breytingin er gerð til samræmis við breytingu á aðalskipulagi sem nýlega tók gildi sem gerir ráð fyrir nýjum tengivegi frá Þjórsárdalsvegi yfir Þjórsá að Landvegi í Rangárvallarsýslu. Vegna breytingu á legu fyrirhugaðra vega á svæðinu breytis stærð og afmörkun smábýlalóða, auk þess sem tenging við þjóðveg færist til vesturs frá Árnesi.

10. Endurskoðun deiliskipulags fyrir spildu úr Gegnishólaparti(landnr. 205691) í Flóahreppi.
Tillaga að endurskoðun deiliskipulags á spildu úr Gegnishólaparti (landnr. 205691). Gildandi deiliskipulag gerir ráð fyrir 5 frístundahúsalóðum þar sem heimilt er að byggja 80 fm frístundahús. Endurskoðað deiliskipulag felur í sér að frístundahúsalóðirnar breytast í íbúðarhúsalóðir, auk þess sem gert er ráð fyrir lóð fyrir véla-/verkfæra geymslu og lóð fyrir hesthús/þjálfunaraðstöðu. Endurskoðað skipulag er í samræmi við tillögu að breytingu á aðalskipulagi svæðisins sem sveitarstjórn hefur samþykkt.

Eftirfarandi skipulagsáætlanir eru hér með auglýstar til kynningar. Skipulagstillögurnar liggja frammi á skrifstofum viðkomandi sveitarfélaga og hjá embætti skipulagsfulltrúa uppsveita Árnessýslu, Dalbraut 12, Laugarvatni á skrifstofutíma. Að auki er hægt að nálgast nánari lýsingu á tillögunum og tillögurnar sjálfar á vefslóðinni http://www.sveitir.is/skipulagsfulltrui/auglysingar/. Kynningartími skipulagstillögu nr. 1 er frá 30. júní til 22. júlí en skipulagstillögur nr. 2-10 er frá 30. júní til 12. ágúst 2011. Athugasemdir skulu berast til skipulagsfulltrúa uppsveita Árnessýslu í síðasta lagi 12. ágúst 2011 og skulu þær vera skriflegar. Hver sá sem ekki gerir athugasemdir við tillögurnar innan tilskilins frests, telst vera samþykkur þeim.

Pétur Ingi Haraldsson
Skipulagsfulltrúi uppsveita Árnessýslu og Flóahrepps