Berjum nú á bændum

Bjarni Harðarson skrifar:

Ég velti því stundum fyrir mér hvernig veröldin væri hér uppi á klakanum ef að menn eins og hagstofustjóri eða Guðmundur Ólafsson hagfræðingur færu hér með völd. Guðmundur þessi er með skemmtilegri mönnum og vinsæll í fjölmiðlaumræðu.

Hann er maðurinn sem hefur margreiknað fyrir íslenska fjölmiðla og aðra sem áhuga hafa á reiknikúnstum að íslensk fjölskylda myndi spara nokkur hundruð þúsund krónur ef að ríkið hætti að styrkja og niðurgreiða íslenskar landbúnaðarvörur.

Ég tek Guðmund hér sem dæmi um allstóran hóp lukkuriddara íslenskrar landbúnaðarumræðu, sumpart vegna þess að hann rökstyður mál sitt betur flestum öðrum og er að auki mikill maður að allri gerð og stendur vel undir því að um hans málflutning sé rætt. Svo langt hefur Guðmundur náð með undirróðri sínum að nýlega fól þáverandi forsætisráðherra hagstofustjóra að setja reiknikúnstir þessa í skýrslu og mikið verið gapað yfir í gúrkutíðinni í allt í sumar.

Reiknikúnstir þessar byggja aðallega á tveimur reikniaðferðum, samlagningu og deilingu. Hvorutveggja er kennt í barnaskóla. Lögð eru saman öll framlög til landbúnaðarins og þar við bætt hugsanlegum ábata af því að neytendur kaupi í staðin erlend og ódýrari matvæli. Þessari heildarupphæð er svo deilt í fjölda landsmanna og út kemur hagnaður sem nægir vel til þess að bæta heilli utanlandsferð við hjá hverjum einasta manni. Nýverið var hagfræðingurinn svo spurður í útvarpi af hverju þetta væri ekki gert og svarið var á þá leið að íslenska þjóðin vildi þetta ekki. Hún einfaldlega kysi flokka sem vildi halda í óbreytt kerfi sem eru að mati hagfræðingsins allir flokkar nema Samfylkingin. Sem er líklega alveg rétt.

Ekki þar fyrir að þá held ég að það stæði í Samfylkingunni að fela Guðmundi þessum eða öðrum reikniköllum alla stjórn landbúnaðarmála í landinu. Reiknikúnstin er fyrir hagfræðingum þessum hrein og klár trúarbrögð, – lögmál eins og það hét hjá gyðingum til forna. Og þegar reiknilögmálin segja að hægt sé að ná fram ákveðnum hagnaði í hagkerfinu þá ber mönnum að fylgja lögmálinu enda tryggir sá hámarksgróði hámarkshamingju þegnanna. En þetta er einfaldlega rangt.

Sem betur fer eru frekar fáir stjórnmálamenn í landinu sanntrúaðir á lögmálið enda er mannlífið miklu flóknara en svo að vera reiknað út. Meira að segja hinn peningalegi hagnaður samfélagsins verður sjaldnast reiknaður út með þessum hætti.

Ef íslenska þjóðin ákveður að gefa frjálsan allan innflutning landbúnaðarvara og hætta stuðningi við þann innlenda tapar hún til frambúðar verðmætum sem ekki verða metin fyrir krónur og aura. Allir kaupmenn landsins vita að þegar erlendir tómatar eru boðnir á hálfvirði við hlið hinna íslensku þá kaupir þjóðin þá sem dýrari eru. Neytandinn kýs þar með buddunni og veit sem er að þó hvorutveggja heiti tómatar þá er varan engan vegin sambærileg. Ef fylgt væri ráðum reiknimeistaranna færi það einfaldlega svo að engir íslenskir tómatar yrðu í boði og svo yrði og um flesta aðra íslenska landbúnaðarvöru. Grundvöllur framleiðslunnar væri brostinn. Og þar með hafa tapast verðmæti sem verða aldrei sett í reiknistokk.

Í öðru lagi fylgdi hruni íslensks landbúnaðar að margt annað færi forgörðum. Byggðir sem þegar standa hallt færu endanlega í eyði. Þróun í átt að borgríki yrði enn nú hraðari og innan fárra ára væru Dalir og Síða grotnandi eyðibyggðir. Það verður aldrei sett í reiknistokk heldur, en þegar þjóðin á enga Dalamenn og jafnvel ekki Strandamenn heldur nema sem óljósar minningar gamalla manna hafa tapast verðmæti sem jafnvel ekki skemmtilegir hagfræðingar fá bætt.

Fólksflóttinn úr þessum sveitum myndi svo kalla á enn frekari uppbyggingu á suðvesturhorninu en ekki þarf miklar reiknikúnstir til að sjá að það kostar þjóðarbúið ómældar fjárhæðir að byggja upp nýtt samfélag fyrir fólk sem yfirgefur það sem í eyði fer.

Atvinnuleysi myndi fylgja þessum breytingum, bæði í borg og sveit en bakvið hvert sveitastarf í landbúnaði eru nokkur störf þéttbýlisbúa við úrvinnslu, þjónustu og skriffinnsku. Þegar allt þetta væri farið mætti loks reikna með að við ættum hér uppundir 10% atvinnuleysi eins og aðrar Evrópuþjóðir. Atvinnuleysi er böl sem íslenska þjóðin þekkir aðeins af afspurn. Nái það fótfestu hér eins og annarsstaðar í Evrópu hafa enn tapast verðmæti sem hvergi lenda á reiknistokknum en eru þó miklu mun mikilvægari en nokkuð það sem á reiknistokki lendir.

Nú væri ef til vill skiljanlegt að ábyrgir stjórnmálamenn pöntuðu Guðmundískar skýrslur frá hagstofustjóra ef að kostnaður þjóðarbúsins vegna landbúnaðarins færi sífellt vaxandi. Og matvælaverð í landinu hækkaði ár frá ári þannig að það sligaði æ verr íslenskar barnafjölskyldur. Eða ef að munurinn á matvælaverði hér og á öðrum Norðurlöndum væri sífellt meiri. En ekkert af þessu er tilfellið. Staðreyndin er að íslenskur landbúnaður hefur tekið stórstígum framförum á undanförnum árum, matvælaverð nálgast með ári hverju það sem er í nágrannalöndum okkar og vernd íslenskra matvæla í formi innflutningshafta og tolla minnkar ár frá ári. Allar þessar breytingar eru unnar í samvinnu bænda og neytenda.

Reiknimeistararnir sem berjast við ímyndaða óvini í landbúnaðarráðuneyti og sveitum landsins minna um sumt á riddarann Donkíkóta,- nema að sá barðist við vindmyllur og var eins og hann hefði aldrei tímt að éta almennilega, sem þó ku ódýrt suður þar.

Af vef Suðurland.is