Bláskógar

Bláskógar hafa laufgast um vor og fölnað á haustum, meðan Öxará féll fram af hamrinum í hylinn, alltaf eins og alltaf ný. Og meiðar risu og féllu,
sterkir stofnar og laufgaðir mjög féllu líka, meðan harpa landsins var knúin ósýnilegum fingrum og aldanna straumur hneig að sínum ósi fram. Oft bar bólstra í bláa heiðið yfir landinu, margan dag og marga nótt. Í sólmánuði var jafnan fegurst á Þingvelli, enda var það þá, sem Alþingi feðranna stóð til forna. Og einnig síðar lágu hingað leiðir margra. Og hér var þeim kært að koma og vera, sem unnu Sögu og fundu það öðrum betur, að hér á steinninn mannamál og moldin sál.

sr. Sigurbjörn Einarsson biskup (1970)