Dagskrá á Þingvöllum um hugmyndaleitina þann 13.ágúst

Næst komandi laugardag 13. ágúst verður stutt dagskrá á vegum Þingvallanefndar í Fræðslumiðstöðinni á barmi Almannagjár um hugmyndaleitina sem nú fer fram um hvernig standa megi að móttöku þeirra tugþúsunda gesta sem árlega leggja leið sína í þjóðgarðinn á Þingvöllum.
Dagskráin hefst klukkan 11 og þar munu sérfróðir menn fjalla um náttúrufar, sögu og ferðamennsku í þjóðgarðinum á Þingvöllum auk þess sem fulltrúar Þingvallanefndar gera grein fyrir hugmyndaleitinni og svara spurningum viðstaddra.
Nú er aðeins rúm vika þar til hugmyndaleitinni lýkur þann 22. ágúst næst komandi. Allir geta tekið þátt í hugmyndaleitinni en veittar verða allt að fimm 200 þúsund króna viðurkenningar fyrir hugmyndir sem dómnefnd telur áhugaverðastar. Allar nánari upplýsingar um hugmyndaleitina er að finna á sérstöku svæði á vef þjóðgarðsins /hugmyndaleit

Þeim sem taka þátt í leitinni er bent á að skila hugmyndum sínum í Alþingishúsið merktum:
Hugmyndaleit
Alþingi – Skáli
Kirkjustræti
150 Reykjavík

Komdu þinni hugmynd á framfæri!

Þjóðgarðurinn á Þingvöllum er friðlýstur helgistaður allra Íslendinga og hann er á heimsminjaskrá UNESCO.
Á Þingvöllum kemur saman saga þjóðarinnar, einstæð náttúra og sérstætt lífríki.
Þingvallanefnd leitar nú eftir hugmyndum almennings um hvernig taka megi á móti þeim þúsundum Íslendinga
og erlendra gesta sem vilja upplifa og njóta sérstöðu Þingvalla án þess að ganga á tækifæri komandi kynslóða til að njóta staðarins.

Þátttaka er auðveld og opin öllum og viðurkenningar verða veittar.
Á vefnum www.thingvellir.is  eru allar nánari upplýsingar um fyrirkomulag hugmyndaleitarinnar
Hugmyndum á að skila í síðasta lagi þann 22. ágúst 2011.