Deiliskipulag fyrir þéttbýlið Reykholt, kynningarfundur 3. apríl 2017 í Aratungu frá kl 16.00 til 19.00

Sveitarstjórn Bláskógabyggðar hefur hafið vinnu við heildarendurskoðun deiliskipulags fyrir þéttbýlið í Reykholti. Fyrsta skref í þeirri vinnu er að taka saman lýsingu á skipulagsverkefninu þar sem gerð er grein fyrir helstu viðfangsefnum og áherslum auk upplýsinga um forsendur og fyrirliggjandi stefnu. Helstu markmið deiliskipulagsvinnunar er:

  1. að skipulagðar verði fjölbreyttar íbúðarlóðir sem nýtast til uppbyggingar næstu árin.
  2. að gert verði ráð fyrir fjölbreyttum stærðum íbúða og að íbúðarsvæði séu í góðum tengslum við skóla, íþróttasvæði og verslun- og þjónustu.
  3. að skapa möguleika á þróun og vexti núverandi og nýrrar landbúnaðar-, þjónustu-, iðnaðar- og athafnastarfsemi.
  4. að tryggja gott aðgengi gangandi og hjólandi að skólasvæðinu og almenna útivistarmöguleika fyrir íbúa og gesti.
  5. að bæta öryggi vegfarenda með endurskoðun á umferðarflæði og bílastæðum.
  6. að allar lóðir verði hnitsettar og settir skilmálar fyrir þær.

Lýsingin var kynnt með auglýsingu sem birtist 23. mars 2017 í Dagskránni og Fréttablaðinu auk heimasíðu sveitarfélagsins og hjá skipulagsfulltrúa og er hægt að koma athugasemdum og ábendingum á framfæri til 3. apríl. Er lýsingin aðgengileg á skrifstofu skipulagsfulltrúa að Dalbraut 12 á Laugarvatni auk þess sem hana má nálgast í rafrænu formi á vefslóðinni http://www.sbf.is/auglysingar/.

Til að kynna fyrirliggjandi lýsingu og áframhaldandi vinnu við deiliskipulag Reykholts verður haldinn kynningarfundur í félagsheimilinu Aratungu mánudaginn 3. apríl frá kl. 16 til 19. Eru íbúar og aðrir hagsmunaaðilar hvattir til að mæta og kynna sér þá vinnu sem er í gangi og koma á framfæri athugasemdum og ábendingum.

Við viljum í upphafi benda sérstaklega á lið 6 hér að ofan þar sem fram kemur að eitt markmið deiliskipulagsvinnunnar er að mæla upp og hnitsetja allar lóðir innan þéttbýlisins. Þessi vinna verður unnin af starfsmönnum Umhverfis- og Tæknisvið Uppsveita (UTU) fyrir sveitarfélagið í samvinnu við eigendur lóða. Mælingarnar verða unnar þannig að starfsmaður UTU mun hitta lóðarhafa samliggjandi lóða og sammælast um staðsetningu lóðamarka og merkja með stiku. Einnig geta lóðahafar nálgast stikurnar á skrifstofu sveitarfélasins og sett niður ef ekki gengur upp að hitta starfsmann UTU. UTU mun síðan mæla inn stikurnar og setja inn í lóðagrunn sveitarfélagsins sem síðan verður nýttur til að útbúa lóðarblöð fyrir hverja lóð. Stikurnar verða merktar með appelsínugulum lit og síðan með bláum lit þegar þær hafa verið mældar inn.

Gert er ráð fyrir að vinna við mælingar verði unnin í áföngum þar sem ákveðin svæði verða tekin fyrir í einu og mun starfsmaður UTU vera í sambandi við lóðarhafa þegar komið er að þeirra svæði.

 

 

Helgi Kjartansson, oddviti