Fréttatilkynning frá Uppliti

Leikum saman á Laugarvatni

Leikir sem voru vinsælir á Laugarvatni á árunum 1973-1980 verða rifjaðir upp fimmtudagskvöldið 20. júní nk. en þá efnir Upplit, menningarklasi uppsveita Árnessýslu, til fjölskylduviðburðar í Bjarnalundi. Dagskráin hefst kl. 20.00 og stendur til 21.30. Bjarnalundur er rétt fyrir ofan Héraðsskólann á Laugarvatni.

Hugmyndir að leikjunum eru fengnar úr íslenskuritgerð Guðnýjar Þorbjargar Ólafsdóttur, sem hún skrifaði á lokaári sínu í ML, þar sem hún rifjar upp leiki sem voru vinsælir á æskuárum hennar á Laugarvatni.

Fjallar hún um útileiki, innileiki, afmælisleiki og leiki sem farið var í  á skólaskemmtunum. Gjarnan voru leiknir tveggja manna leikir, en oftast voru krakkarnir í stórum hópum úti í leikjum síðla á sumarkvöldum. Ekki var um neinn sérstakan útileikvöll að ræða, heldur var leiksvæðið valið eftir því hvað hentaði leiknum best. Helstu leiksvæðin voru hjá Mörk, Ösp, Grund, á barnaskólahlaðinu, upp við styttuna af Jónasi, fyrir utan Héraðsskólann, í Bjarkarlundi og Bjarnalundi. T.d. hentaði kofi, sem stóð rétt við Ösp, vel fyrir leikinn „Yfir“ og garðurinn í kringum Bjarkarlund var vinsælasta leiksvæðið fyrir leikinn „Fallin spýta“ vegna þess að í garðinum var fjöldi felustaða. Sumir leikjanna eru leiknir enn í dag, en aðrir hafa lagst í dvala.

Ann-Helen Odberg, lektor við Menntavísindasvið HÍ, ætlar að sjá til þess að ungir jafnt sem aldnir skemmti sér og bregði á leik.

Upplit hvetur alla til að koma út í leiki – og mælist til þess að  fjölskyldur komi saman og að börn verði í fylgd foreldra eða annarra fullorðinna.