Fréttatilkynning

Fréttatilkynning

521_Laugar 525_worldclass 526_KHÍ

Íþróttafræðasetur Kennaraháskóla Íslands að Laugarvatni og Laugar – World Class hafa gert með sér samstarfssamning sem markar tímamót í samvinnu háskólasamfélagsins og aðila í heilsuræktargeiranum.  Samningurinn brýtur einnig blað í rannsóknum í þágu lýðheilsu og í endurskipulagningu og eflingu menntunar leiðbeinenda á líkamsræktarstöðvum.

Samningurinn byggir á eftirfarandi efnisatriðum:

  • Laugar – World Class byggja upp rannsóknaraðstöðu í höfuðstöðvum sínum sem nýtist vísindamönnum og háskólanemum (B.S.-, M.S.- og doktorsnemum) sem og starfsmönnum og öðrum samstarfsaðilum Lauga – World Class s.s. sjúkraþjálfurum og læknum.
  • KHÍ veitir faglega aðstoð við uppbyggingu og skipulagningu hinnar nútímalegu rannsóknaraðstöðu og leggur til sérfræðiþekkingu á sviði íþrótta-, lýð- og heilsufræði.
  • Laugar – World Class styrkja stórt rannsóknarverkefni sem ráðist verður í á næstunni meðal eldri aldurshópa á höfuðborgarsvæðinu. „Líkams- og heilsurækt aldraðra – íhlutunarrannsókn til bættrar heilsu og betri lífsgæða“. Laugar – World Class standa straum af stórum hluta launakostnaðar eins doktorsnema og veita þátttakendum í rannsóknarverkefninu ókeypis aðgang að tækjasölum fyrirtækisins meðan á rannsókninni stendur.
  • Laugar – World Class styrkja umfangsmikið rannsóknarverkefni sem nú stendur yfir í 6 grunnskólum í Reykjavík „Lífsstíll 7 til 9 ára grunnskólabarna – íhlutunarrannsókn til bættrar heilsu“. Í hugmyndafræði verkefnisins felast ákveðnar íhlutunaraðgerðir bæði í skólunum og á heimilum. Laugar – World Class bjóða m.a. foreldrum barna í íhlutunarskólum líkamsræktarkort á mjög hagstæðum kjörum.
  • Íþróttafræðasetur KHÍ mótar og endurskipuleggur nám í heilsurækt og einkaþjálfun í samstarfi við starfsfólk Lauga – World Class. Nemendur Íþróttafræðasetursins stunda vettvangstengt nám í líkams- og heilsuræktarstöð hjá Laugum – World Class.