275. fundur sveitarstjórnar Bláskógabyggðar

 

 

 

 

 

  1. fundur sveitarstjórnar Bláskógabyggðar haldinn í Aratungu, Reykholti, 4. febrúar 2021, kl. 15:15.

 

 

Fundinn sátu:

Helgi Kjartansson, Valgerður Sævarsdóttir, Óttar Bragi Þráinsson, Kolbeinn Sveinbjörnsson, Guðrún S. Magnúsdóttir, Róbert Aron Pálmason, Axel Sæland og Ásta Stefánsdóttir.

 

 

 

Fundargerð ritaði: Ásta Stefánsdóttir, sveitarstjóri.

 

 

1. Fundargerð umhverfisnefndar – 2101003
29. fundur haldinn 28. janúar 2021
Fundargerðin var staðfest.
2. Fundargerð skipulagsnefndar – 2101007
210. fundur haldinn 27.01.21. Afgreiða þarf sérstaklega liði nr. 3-10.
-liður 3, Suðurhlið Langjökuls; Íshellar; Aðalskipulagsbreyting – 2004046
Lögð er fram tillaga aðalskipulagsbreytingar vegna íshellis í suðurhlið Langjökuls. Innan tillögu aðalskipulagsbreytingar er gert ráð fyrir skilgreiningu staks afþreyingar- og ferðamannasvæðis á Langjökli. Innan svæðisins er gert ráð fyrir möguleika á að gera manngerðan íshelli sem viðkomustað fyrir ferðamenn. Íshellirinn geti verið allt að 800 m3 að stærð. Ekki er gert ráð fyrir varanlegum mannvirkjum innan svæðisins.
Sveitarstjórn Bláskógabyggðar samþykkir fyrirliggjandi tillögu um breytingu á aðalskipulagi sveitarfélagsins vegna afþreyingar- og ferðamannasvæðis á Langjökli í samræmi við 1. mgr. 36. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, og tillagan verði auglýst skv. 1. mgr. 31 sömu laga að undangenginni samþykkt Skipulagsstofnunar.
-liður 4, Stekkatún 1 L222637 og 5 L224218; Úr frístundalóðum í landbúnaðarland; Aðalskipulagsbreyting – 2009065
Lögð er fram tillaga aðalskipulagsbreytingar vegna Stekkatúns 1 og 5 til afgreiðslu fyrir auglýsingu. Skipulagstillagan var í kynningu frá 16.12.2002 til 8.1.2021. Engar athugasemdir bárust á kynningartíma tillögunnar. Í breytingunni felst að hluta frístundasvæði F73 er breytt í landbúnaðarland.
Sveitarstjórn Bláskógabyggðar samþykkir fyrirliggjandi tillögu um breytingu á aðalskipulagi Bláskógabyggðar 2015-2027 vegna Stekkatúns 1 og 5 í samræmi við 1. mgr. 36. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, og að tillagan verði auglýst skv. 31.gr. sömu laga að undangenginni samþykkt Skipulagsstofnunar.-liður 5, Útey 1 lóð L168173 og Útey 1 lóð L168179; Staðfesting á afmörkun og breytt stærð lóða – 2101020
Lögð er fram umsókn Guðrúnar Helgu Theodórsdóttur, dags. 11. janúar 2021, um staðfestingu á hnitsettri afmörkun og breytingu á skráningu stærða tveggja sumarbústaðalóða úr landi Úteyjar 1 skv. meðfylgjandi lóðablöðum. Um er að ræða annars vegar Útey 1 lóð L168173 sem er skráð 10.000 fm í fasteignaskrá en mælist 11.821 fm og hins vegar Útey 1 lóð L168179 sem er einnig skráð 10.000 fm en mælist 8.147,2 fm. Hnitsett afmörkun lóðanna hefur ekki áður legið fyrir. Fyrir liggur samþykki eigenda aðliggjandi lóða.
Ekki er gerð athugasemd við staðfestingu landskipta skv. 13. jarðalaga. Sveitarstjórn Bláskógabyggðar samþykkir fyrirliggjandi umsókn.

-liður 6, Syðri-Reykir 2 L167163; Deiliskipulag – 2101037
Lögð er fram umsókn frá Syðri-Reykjum Resort er varðar nýtt deiliskipulag í landi Syðri-Reykja 2 L167163. Í deiliskipulaginu felst skilgreining byggingarreita og byggingarheimilda fyrir íbúðarhúsi, gróðurhúsi, vélaskemmu og byggingar sem ætluð er fyrir ferðaþjónustu.
Sveitarstjórn Bláskógabyggðar samþykkir deiliskipulagstillögu til kynningar og umsagna í samræmi við 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Mælst er til þess að málið verði sérstaklega kynnt nærliggjandi lóðum og jörðum.

-liður 7, Skálpanesvegur; Tvær námur; Aðalskipulagsbreyting – 2012005
Lögð er fram skipulagstillaga vegna fyrirhugaðra breytinga á aðalskipulagi Bláskógabyggðar 2015-2027. Í breytingunni felst að skilgreind eru tvö efnistökusvæði við Skálpanesveg. Lýsing skipulagsbreytingar hefur verið kynnt. Umsagnir bárust á kynningartíma lýsingar og eru þær lagðar fram með afgreiðslu tillögunnar.
Sveitarstjórn Bláskógabyggðar samþykkir tillögu aðalskipulagsbreytingar til kynningar í samræmi við 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

-liður 8, Reiðleið með Skeiða- og Hrunamannavegi; Aðalskipulagsbreyting – 2012004
Lögð er fram skipulagstillaga vegna fyrirhugaðra breytinga á aðalskipulagi Bláskógabyggðar 2015-2027. Í breytingunni felst að sett verður inn reiðleið meðfram hluta Skeiða- og Hrunamannavegar og reiðleið sem er fyrir í aðalskipulagi færist vestur fyrir veg. Umsagnir bárust á kynningartíma lýsingar og eru þær lagðar fram með afgreiðslu tillögunnar.
Sveitarstjórn Bláskógabyggðar samþykkir tillögu aðalskipulagsbreytingar til kynningar í samræmi við 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

-liður 9, Efsti-Dalur 3 L199008; Efsti-Dalur 2C; Ný lóð; Vélaskemma; Deiliskipulagsbreyting – 2011049
Lögð er fram að nýju umsókn frá Efstadalskoti ehf. er varðar óverulega breytingu á deiliskipulagi í Efsta-Dal eftir grenndarkynningu. Í breytingunni felst að skilgreind er lóð umhverfis vélaskemmu innan deiliskipulagsins. Athugasemd barst við grenndarkynningu skipulagsbreytingar og er hún lögð fram til afgreiðslu, ásamt erindi dags. 1. febrúar 2021, þar sem athugasemdir eru áréttaðar.
Innan athugasemdar sem barst við deiliskipulagsbreytinguna telur viðkomandi að skiptingu dánarbús á svæðinu sé ekki lokið, sem tekur m.a. til viðkomandi geymslu sem skilgreina á lóð um. Samkvæmt framlagðri skiptayfirlýsingu hafa þau skipti farið fram. Sveitarstjórn Bláskógabyggðar samþykkir málið eftir kynningu og að deiliskipulagsbreytingin taki gildi með birtingu auglýsingar í B-deild Stjórnartíðinda og verði send Skipulagsstofnun til varðveislu.

-liður 10, Stekkatún 1 L222637 og Stekkatún 5 L224218; Skilmálar og fyrirhuguð uppbygging; Deiliskipulagsbreyting – 2009066
Lögð er fram umsókn vegna deiliskipulags að Stekkatúni 1 og 5. Í deiliskipulaginu felst skilgreining byggingarreita og og byggingaskilmála innan svæðisins. Samhliða er auglýst tillaga aðalskipulagsbreytingar.
Sveitarstjórn Bláskógabyggðar samþykkir deiliskipulagsbreytinguna og að hún verði auglýst á grundvelli 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 samhliða aðalskipulagsbreytingu.

Aðrir liðir fundargerðarinnar voru lagðir fram til kynningar.

3. Fundargerð stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga – 2001022
893. fundur haldinn 16. desember 2020.
Fundargerðin var lögð fram til kynningar.
4. Fundargerð stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga – 2101025
894. fundur haldinn 29. janúar 2021
Fundargerðin var lögð fram til kynningar.
5. Fundargerð stjórnar Sorpstöðvar Suðurlands – 2101020
299. fundur haldinn 24. janúar 2021.
Fundargerðin var lögð fram til kynningar.
6. Fundargerð stjórnar SASS – 2101022
566. fundur haldinn 15.01.21
Fundargerðin var lögð fram til kynningar.
7. Fundargerð afgreiðslufunda byggingarfulltrúa – 2101008
135. fundur haldinn 20. janúar 2021
Fundargerðin var lögð fram til kynningar. Liður nr. 13 í fundargerðinni verður afgreiddur undir 23. lið á þessum fundi.
8. Fundargerð heilbrigðisnefndar Suðurlands – 2101019
209. fundur haldinn 15. janúar 2021, ásamt samþykkt um verndarsvæði vatnsbóla, til umsagnar
Fundargerðin var lögð fram til kynningar. Sveitarstjórn vísar samþykkt um verndarsvæði vatnsbóla til umsagnar í umhverfisnefnd og framkvæmda- og veitunefnd.
9. Fundargerð stjórnar Tónlistarskóla Árnesinga – 2101015
198. fundur haldinn 22.01.21
Fundargerðin var lögð fram til kynningar.
10. Samstarf um heilsueflandi samfélag – 1911058
Minnisblað um mögulegt áframhaldandi samstarf um verkefnastjóra heilsueflandi samfélags, ásamt starfslýsingu.
Lagt var fram minnisblað og tillaga að starfslýsingu. Sveitarstjórn Bláskógabyggðar samþykkir fyrir sitt leyti að halda áfram samstarfi um verkefnastjóra heilsueflandi samfélags við önnur sveitarfélög í uppsveitum Árnessýslu. Jafnframt er samþykkt að starfið verði auglýst í samræmi við ákvæði kjarasamnings og að gerður verði ótímabundinn ráðningarsamningur að ráðningarferli loknu. Sveitarstjórn samþykkir að tímabundinn ráðningarsamningur verði framlengdur á meðan á ráðningarferli stendur.
11. Útboð á sorphirðu – 2008049
Minnisblað vegna útboðs á sorphirðu, dags. 31. janúar 2021
Lagt var fram minnisblað vegna útboðs á sorphirðu, en unnið hefur verið að undirbúningi á útboði fyrir öll sveitarfélögin í Uppsveitum Árnessýslu. Sveitarstjóri kynnti þá vinnu sem staðið hefur yfir við undirbúning útboðs. Sveitarstjórn samþykkir að Bláskógabyggð verði með sjálfstætt útboð á sorphirðu, en samræmi áherslur við hin sveitarfélögin í útboði.
12. Endurskoðun fyrirkomulags deiliskipulag hjólhýsasvæðis Laugarvatni – 2004032
Beiðni Samhjóls, félags hjólhýsaeigenda á Laugarvatni, dags. 27. janúar 2021, um að allir leigutakar hafi sama uppsagnarfrest, þ.e. fram að lokun svæðisins.
Umræða varð um málið. Sveitarstjóra er falið að skoða stöðu sveitarfélagsins hvað varðar erindi Samhjóls í samráði við lögmenn og leggja niðurstöður fyrir næsta fund.
13. Beiðni um styrk vegna sirkussýningar – 2102006
Beiðni Sirkus Íslands, dags. 22.01.21, um styrk í formi frís húsnæðis eða afsláttar vegna fyrirhugaðra sirkussýninga.
Sveitarstjórn samþykkir að gefa styrk í formi frís húsnæðis vegna fyrirhugaðra sirkussýninga Sirkus Íslands.
14. Brú lóð 167223 afmörkun og staðsetning lóðar, endurupptaka – 2012008
Erindi Árna Möller, f.h. Guðrúnar Hjálmarsdóttur, dags. 28. janúar 2021, vegna lóðarmála Brú lóð (167223) vegna beiðni Margeirs Ingólfssonar um endurupptöku málsins.
Fyrir liggur beiðni Margeirs Ingólfssonar frá nóvember sl um endurupptöku málsins og endurskoðun ákvörðunar sveitarstjórnar frá 180. fundi sveitarstjórnar sem haldinn var 12. janúar 2016, sbr. fundargerð skipulags- og byggingarnefndar sem tekin var fyrir á þeim fundi, mál nr. 3, lóð Brú (167223). Bókun sveitarstjórnar var á þá leið að sveitarstjórn taldi sig ekki geta úrskurðað um nákvæma staðsetningu lóðarinnar, byggt á fyrirliggjandi gögnum og jafnframt að sveitarstjórn teldi að ekki væri hægt að stofna nýjar lóðir á umræddu svæði, byggt á gildandi deiliskipulagi, fyrr en niðurstaða um eignarhald liggi fyrir.
Guðrúnu Hjálmarsdóttur, eiganda lands Brú lóð (167223) var gefinn kostur á að tjá sig um erindi Margeirs og hefur nú borist bréf Árna Möller, f.h. Guðrúnar, og var það lagt fram ásamt fylgigögnum. Í bréfi Árna Möller er lagst gegn því að fyrrgreind ákvörðun sveitarstjórnar verði afturkölluð, þar sem engar forsendur hafi breyst.
Sveitarstjórn telur fyrri ákvörðun um að ekki væri hægt að stofna nýjar lóðir byggt á gildandi deiliskipulagi vera ógildanlega og afturkallar hana því. Vísað er til þess að þegar afsal það sem Guðrún Hjálmarsdóttir leiðir rétt sinn af var gefið út fyrir Brú lóð (167223) þá var afsalsgjafi ekki eigandi þess lands sem hún telur sig eiga tilkall til. Einnig er vísað til þess að þegar auglýst var tillaga að deiliskipulagi því sem samþykkt var í september 2006 og tekur til þess lands sem Guðrún Hjálmarsdóttir telur sig eiga tilkall til, barst engin athugasemd um afmörkun deiliskipulagssvæðisins.
15. Umsókn um lóðina Brekkuholt 12, Reykholti – 2102011
Umsókn um lóðina Brekkuholt 12, umsækjandi Möl og sandur ehf
Lögð var fram umsókn um lóðina Brekkuholt 12. Lóðin hefur verið auglýst og aðrar umsóknir hafa ekki borist. Sveitarstjórn samþykkir því að Möl og sandur fái lóðinni úthlutað.
16. Umsókn um lóðina Brekkuholt 2, Reykholti – 2102012
Umsókn um lóðina Brekkuholt 2, umsækjandi Möl og sandur ehf, kt. 631202-2170
Lögð var fram umsókn um lóðina Brekkuholt 2. Lóðin hefur verið auglýst og aðrar umsóknir hafa ekki borist. Sveitarstjórn samþykkir því að Möl og sandur fái lóðinni úthlutað.
17. Skólastjórabústaður Reykholt 2 – 2102016
Framtíðarnot Reykholts 2 (skólastjórabústaður). Minnisblað sveitarstjóra og samantekt skólastjóra.

 

Lagt fram. Umræða varð um málið. Sveitarstjórn samþykkir að skoða húsnæði skólans á næsta fundi.

18. Bæjarholt 10, beiðni um framlengingu á úthlutun lóðar – 2102015
Beiðni Jóns Skúla Indriðasonar um framlengingu úthlutunar lóðarinnar Bæjarholts 10, Laugarási. Minnisblað sveitarstjóra fylgir.
Sveitarstjórn samþykkir að framlengja frest lóðarhafa til að hefja framkvæmdir á lóðinni um átta mánuði, sbr. reglur um úthlutun lóða í Bláskógabyggð.
19. Þingsályktunartillaga um heimild sveitarfélaga til að innheimta umhverfisgjöld, 121. mál. – 2102001
Beiðni umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis um umsögn um tillögu til þingsályktunar um heimild sveitarfélaga til að innheimta umhverfisgjöld, 121. mál.

Umsagnarfrestur er til 11. febrúar nk.

Lagt fram til kynningar.
20. Frumvarp til laga um breytingu á sveitarstjórnarlögum og lögum um tekjustofna sveitarfélaga (lágmarksíbúafjöldi sveitarfélags), 378. mál. – 2102002
Beiðni Umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis um umsögn um frumvarp til laga um breytingu á sveitarstjórnarlögum og lögum um tekjustofna sveitarfélaga (lágmarksíbúafjöldi sveitarfélags), 378. mál.

Umsagnarfrestur er til 18. febrúar nk.

Lagt fram til kynningar.
21. Þingsályktunartillaga um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða, 370. mál. – 2102004
Beiðni Umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis, dags. 26. janúar 2021, um umsögn um tillögu til þingsályktunar um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða, 370. mál.

Umsagnarfrestur er til 9. febrúar nk.

 

Sveitarstjórn vísar málinu til umsagnar umhverfisnefndar. Sveitarstjóra og oddvita er falið að yfirfara frumvarpið með tillit til þess hvort ástæða sé til að gera athugasemdir við frumvarpið.

22. Frumvarp til laga um jarðalög (einföldun regluverks, vernd landbúnaðarlands, upplýsingaskyldu o.fl), 375. mál. – 2102007
Beiðni Atvinnuveganefndar Alþingis, dags. 21. janúar 2021 um umsögn um frumvarp til laga um jarðalög (einföldun regluverks, vernd landbúnaðarlands, upplýsingaskyldu o.fl), 375. mál.

Umsagnarfrestur er til 10. febrúar nk.

Lagt fram. Sveitarstjóra og oddvita er falið að yfirfara frumvarpið með tillit til þess hvort ástæða sé til að gera athugasemdir við frumvarpið.

23. Rekstrarleyfisumsókn Vörðás 9 (L175191) – 2102008
Beiðni Sýslumannsins á Suðurlandi, dags. 14. janúar 2021, um umsögn um rekstrarleyfisumsókn, Vörðuás 9 (fnr. 223 2079), gisting í flokki II, frístundahús.
Umsögn byggingarfulltrúa var lögð fram. Í umsögninni er lagst gegn útgáfu rekstrarleyfis þar sem það samræmist ekki stefnu aðalskipulags. Sveitarstjórn tekur undir sjónarmið byggingarfulltrúa og leggst gegn útgáfu rekstrarleyfis að Vörðuási 9.
24. Mat á umhverfisáhrifum fyrir Eyjarland, fiskeldi. – 2001056
Beiðni MAST, dags. 02.02.21, um umsögn um útgáfu rekstrarleyfis vegna Eyjarlands.
Erindi MAST var lagt fram, þar kemur fram að óskað er umsagnar á grundvelli 7. gr. laga nr. 71/2008 um fiskeldi um það hvort náttúrulegar aðstæður á fyrirhuguðu starfssvæði fiskeldisstöðvarinnar eða fyrirhugaðar eldistegundir, eldisstofnar, eða eldisaðferðir gefi tilefni til neikvæðra vistfræði- eða erfðafræðiáhrifa sem leitt getur af leyfisskyldri starfsemi. Sveitarstjórn Bláskógabyggðar hefur kynnt sér gögn um starfsemina, þ.m.t. greinargerð um umhverfisáhrif starfseminnar, og farið í vettvangsskoðun. Sveitarstjórn mælir með útgáfu rekstrarleyfis vegna landeldis að Eyjarlandi, Bláskógabyggð.
25. Breyting á lögum um verndar- og orkunýtingaráætlun – 2102013
Drög að frumvarpi til breytinga á l. nr. 48/2011, um verndar- og orkunýtingaráætlun, til umsagnar í samráðsgátt stjórnvalda, sjá https://samradsgatt.island.is/oll-mal/&Cases/Details/?id=2888

 

Sveitarstjórn vísar málinu til umhverfisnefndar til umsagnar. Sveitarstjóra og oddvita er falið að yfirfara frumvarpið með tillit til þess hvort ástæða sé til að gera athugasemdir við frumvarpið.

26. Breyting á lögum vegna innleiðingar hringrásarhagkerfis (úrgangsmál) – 2102014
Drög að breytingu á lögum vegna innleiðingar hringrásarhagkerfis – frumvarpsdrög til umsagnar í samráðsgátt. Umsagnarfrestur er til 4. febrúar 2021.
Sjá nánar á https://samradsgatt.island.is/oll-mal/&Cases/Details/?id=2880.
Sveitarstjórn samþykkir eftirfarandi athugasemdir við drög að breytingu á lögum um innleiðingu hringrásarhagkerfis:
Sveitarstjórn fagnar því að unnið sé að innleiðingu hringrásarhagkerfis á landsvísu, það rýmar vel við stefnumótun sveitarfélagsins frá 2018, sem unnið hefur verið að innleiðingu á í skrefum.
Þó eru atriði í frumvarpinu sem þarfnast nánari skoðunar. Af hálfu Bláskógabyggðar er sérstaklega bent á að huga þarf vel að því hvort og hvernig unnt verið að innleiða greiðslukerfið „borgaðu þegar þú hendir“, sbr. 16. gr. frumvarpsdraganna, einkum á svæðum sem hafa flókna samsetningu, t.d. dreifbýli, þéttbýli og frístundasvæði. Skyldur hafa verið lagðar á sveitarfélögin, sem staðfestar hafa verið í úrskurðum í kærumálum, sem gert hafa fyrirkomulag sorphirðu kostnaðarsamt, svo sem vegna þess að staðsetja verður gáma- eða grenndarstöðvar í nánd við sumarhúsasvæði. Í víðfeðmum sveitarfélögum með mörg sumarhúsasvæði kallar þetta á mikinn kostnað. Það að taka við greiðslum á slíkum stöðum kallar á mönnun, sem yrði mjög kostnaðarsamt, eða tæknilausnir, sem ekki liggur fyrir að séu fyrir hendi. Breyta þyrfti fyrirkomulagi gámasvæða og grenndarstöðva til að uppfylla þær kröfur sem lagðar eru til í 16. gr. Huga verður að því að þær breytingar sem ráðast verður í til að geta tekið við greiðslum verði ekki úr hófi kostnaðarsamar. Af hálfu Blaskógabyggðar er því velt upp hvort ekki verði að gera ráð fyrir því að ákveðnum hluta kostnaðar verði deilt út á fasteignareigendur í tilvikum sem þessum.
Þá er einnig bent á að frestur sveitarfélaganna til að taka upp nýtt kerfi sé of skammur, sorphirða er verkefni sem sveitarfélög bjóða að jafnaði út til nokkurra ára í senn. Breytingar þarfnast góðs undirbúnings, þess að hugað sé vel að útfærslum og allir séu meðvitaðir um fyrirkomulag sorphirðu, flokkun úrgangs o.fl. Þá er bent á að gert er ráð fyrir að nýtt kerfi verði tekið í notkun á miðju ári, eða 1. júlí 2023. Það tímamark verður að teljast óheppilegt vegna þess hvernig fyrirkomulag gjaldtöku er nú, en álagning og innheimta fer fram með öðrum fasteignagjöldum og tekur til almanaksársins.
Af hálfu Bláskógabyggðar er þess farið á leit að sveitarfélög sem hafa innan sinna marka mikinn fjölda frístundahúsa komi að greiningu og leit að lausnum hvað greiðslufyrirkomulag varðar. Sveitarfélög á borð við Bláskógabyggð og Grímsnes- og Grafningshrepp, með um 5.000 frístundahús, hafa reynt ýmsar leiðir hvað varðar sorpmál frístundahúsa.
Í frumvarpsdrögunum er lögð aukin áhersla á framleiðendaábyrgð og úrvinnslugjald. Bláskógabyggð telur að ástæða sé til að endurskoða núgildandi fyrirkomulag hvað varðar úrvinnslugjald og að ef útvíkka eigi slíkt þá þurfi að undirbúa það vel. Úrvinnslugjald stendur í dag ekki undir kostnaði sveitarfélagsins við þá úrgangsflokka sem gjaldið tekur til nú þegar. Tryggja þarf að úrvinnslugjald renni til sveitarfélaganna, eigi það að koma í stað gjaldtöku, svo og að það nægi til að standa undir öllu ferli hirðu, eyðingar og umsýslu viðkomandi flokka úrgangs.
27. Samningur um hjólhýsasvæði Laugarvatni – 1912027
Samningur Bláskógabyggðar við Fýlinn slf um framlengingu samnings um rekstur hjólhýsasvæðis á Laugarvatni til haustsins 2022.
Samningurinn var lagður fram. Um er að ræða endurnýjun samnings þar til hjólhýsasvæðinu hefur verið lokað, sem ráðgert er að verði haustið 2022. Sveitarstjórn staðfestir samninginn.
28. Landsþing Sambands íslenskra sveitarfélaga 2021 – 2102005
Erindi Sambands íslenskra sveitarfélaga, dags. 26. janúar 2021, um boðun XXXVI. landsþings sem haldið verður 26. mars n.k.
Lagt fram til kynningar.
29. Lífshlaupið 2021 – 2102009
Erindi Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands, dags. 18.01.21, þar sem vakin er athygli á Lífshlaupinu.
Lagt fram til kynningar. Sveitarstjórn hvetur til þátttöku í Lífshlaupinu.
30. Lýðræðisleg þátttaka við skipulagningu viðburða – 2102010
Erindi Jafnréttisstofu, dags. 26.01.21, varðandi útgáfu bæklings þar sem farið er yfir atriði sem hafa ber í huga þegar skipuleggja á viðburð sem hefur lýðræði og fjölbreytileika að leiðarljósi.
Lagt fram til kynningar.

 

 

 

Fundi slitið kl. 16:30.

 

 

 

 

 

 

Helgi Kjartansson   Valgerður Sævarsdóttir
Óttar Bragi Þráinsson   Kolbeinn Sveinbjörnsson
Guðrún S. Magnúsdóttir   Róbert Aron Pálmason
Axel Sæland   Ásta Stefánsdóttir