Fundur 15. febrúar 2013

Fundur í atvinnu- og ferðamálanefnd haldinn í Bjarkarhóli 15. febrúar 2013 kl 17:00
Mætt voru: Inga Þyri Kjartansdóttir, Þorsteinn Þórarinsson, Sigurjón Sæland ásamt Sigurlaugu
Angantýsdóttur sem ritaði fundargerð.

Dagskrá:
1.  Þjónustudagatal.
Mikill vilji er til að halda áfram útgáfu dagatalsins og  er greinilegur áhugi fyrirtækja  á að
auglýsa starfsemi sína á þessum vettvangi. Heilmiklar umræður spunnust um  viðburði ársins
og auglýsingar ásamt útliti dagatalsins og voru ýmsir möguleikar skoðaðir.
Var ákveðið að ræða við Rúnar Gunnarsson, sem sér um uppsetninguna, um þá möguleika
sem koma til greina.

2.  Dreifing dagatals.
Miðað er við að dagatalið komi út í síðasta lagi í maí næstkomandi og verður því dreift með
póstinum, í 2400 eintökum.

3.  Hjúkrunarheimili.
Heilmikil umræða hefur verið manna á meðal um mikla þörf fyrir hjúkrunarheimili í
sveitarfélaginu. Undanfarin misseri hafa einstaklingar, búsettir í Bláskógabyggð, þurft að
flytjast úr sveitarfélaginu og í einhverjum tilfellum fara um nokkuð langan veg til að sækja
slíka þjónustu.
Umræðan í samfélaginu tengist helst söluferli á Hótel Laugarási og sjá ýmsir aðilar möguleika
á að setja á fót hjúkrunarheimili á lóð hótelsins sem staðsetningar sinnar vegna myndi henta
slíkri starfsemi vel enda í næsta nágrenni heilsugæslunnar í Laugarási.
Einnig horfa menn til þess að atvinnusköpun í Laugarási er nokkuð einsleit og vel kæmi sér
fyrir íbúa sveitarfélagsins að fá  meira úrval atvinnumöguleika á þessu svæði.
Ákveðið er að ræða frekar um þetta brýna málefni á næsta fundi.

4.  Önnur mál
Atvinnu- og ferðamálanefnd fagnar því hve fljótt og vel sveitarstjórn brást við umsókn um
lóðir 10 og 12 við Skólabraut vegna fyrirhugaðrar byggingar hótels í Reykholti.

Samþykkt er að fá Ásborgu Arnþórsdóttur, ferðamálafulltrúa, á fund nefndarinnar til að ræða
um þjónustupésa fyrir ferðamenn.

Samþykkt er að Þorsteinn Þórarinsson sitji í undirbúningsnefnd fyrir Tvær úr Tungunum fyrir
hönd nefndarinnar.

Ekki fleira tekið fyrir, fundi slitið.
Sigurlaug Angantýsdóttir