Fundur 22. júní 2010
Fyrsti fundur fjallskilanefndar Biskupstungna haldinn í Aratungu, Fjallasal 22. júní 2010 kl. 20:00
Boðaðir voru aðal-og varamenn nefndarinnar.
Mætt: Eyvindur Magnús Jónasson, Kjóastöðum, Eiríkur Jónsson, Gýgjarhólskoti, Ólafur Einarsson, Torfastöðum, Hallgrímur Guðfinnsson, Miðhúsum, Gunnar Ingvarsson Efri-Reykjum, Rúnar Björn Guðmundsson, Vatnsleysu, Sævar Bjarnhéðinsson, Arnarholti og Drífa Kristjánsdóttir oddviti, en hún boðaði fundinn og skrifaði fundargerð.
- Eiríkur Jónsson, Gýgjarhólskoti var kjörinn gjaldkeri nefndarinnar. Fjallskilanefnd þakkar Róberti Róbertssyni fyrir vel unnin störf til margra ára í þágu nefndar. Nauðsylnegt er að fá kennitölu fyrir Fjallskilanefndina svo hægt sé að opna bankareikning. Drífa tekur að sér að sjá um það.
- Upprekstur fjár á afréttinn: Að öllu jöfnu skal upprekstur hefjast um 30. júní ár hvert. Fjallskilanefnd leggur til að fé verði sleppt á fjallið eins og hefð hefur undanfarin ár þannig að hægt sé að fara með fé í smáum stíl í kringum 25.júní
- Upprekstur hrossa í Hólahagana. Samþykkt að leyfa mönnum að sleppa hrossum í Hólahaga í sumar.
- a) Verð fyrir hvert hross verður kr. 3.500,-.
- b) Hámarksfjöldi verði 80 hross.
- c) Tímabil hefjist 11. júlí og til 27. ágúst. Fjallskilanefnd leggst ekki gegn því að náð verði fyrr í hrossin.
- d) Þeir sem eiga upprekstrarrétt á afréttinn mega koma með hross í Hólahagana.
- e) Umsjón með verkefninu. Reyna að fá Hjalta á Kjóastöðum til að taka að sér umsjónina. Umsjónarmaður fær gjaldfrjáls 10 hross gegn vörslu.
- Viðhald afréttargirðingar hefur nú þegar verið lokið fyrir sumarið. Trausti Hjálmarsson, í Austurhlíð sá um það.
- Réttir viðhald: Áhugi er á að mála almenninginn í sumar ef mögulegt er. Eiríkur sagði að yfirborð hans væri 400 fermetrar.Tillaga kom fram um að athuga hvort unglingadeild björgunarsveitarinnar vildi taka verkið að sér. Drífa tekur að sér að kanna málið.
- Umræða fór fram um að mikilvægt sé að breyta úthlutun á dilkum í réttinni. Fram kom að Arnarholt hefur verið með tvo aðskilda dilka en það felast óþægindi í því. Austurhlíð þarf að fá úthlutaðan dilk, Egill í Hjarðarlandi hefur ámálgað að fá dilk til úthlutunar. Samþykkt að fjallskilanefnd geri nýjar tillögur að dilkaúthlutun í réttunum. Ákveðið að koma saman í réttunum næsta sunnudag 27. júní kl. 13:30 og fara yfir dilkaskipan. Drífa tekur að sér að minna á nefndarmenn á sunnudaginn.
- Álagning gjalda vegna fjallskila. Fjallskilanefnd leggur til og samþykkir fyrir sitt leyti að hætt verði að leggja á fjallskil samkvæmt fasteignamati. Óskað eftir samþykki sveitarstjórnar.
- Umræða var um að gott væri fá fjallskilaseðilinn uppúr miðjum ágúst. Ákveðið að halda næsta fund fjallskilanefndar mánudagskvöldið 16. ágúst n.k.
- Fjallkóngur verður Loftur Jónasson, Myrkholti.
- Fleira ekki rætt og fundi slitið kl. 22:20