Fundur 22. mars 2006

Fundur í umhverfisnefnd 22.mars 2006
Fundarefni

 

Hvað hefur gerst frá síðasta fundi?
Staðardagskrá 21 – Kynningarfundur með umhverfisnefndum uppsveita
Umhverfisdagur Bláskógabyggðar í lok maí
Tillögur til sveitarstjórnar
1. Hvað hefur gerst frá síðasta fundi?

 

Grænfáni
Umhverfishátíð var haldin á Laugarvatni 18.október þar sem rúmlega 100 manns fagnaði  afhendingu grænafána við grunnskólanum á Laugarvatni og vígslu nýja leikskólans. Þar voru líka  afhent  í fyrsta skipti umhverfis- og hvatningarverðlaun Bláskógabyggðar og  nemendur grunnskólans fluttu frumsamda leikþætti með vistvænu ívafi í Náttúrustofu og buðu uppá smákökur sem þau höfðu bakað sjálf. Ýmislegt fleira var til skemmtunar.

 

Vistvernd í verki
Þriðji visthópurinn fór af stað í Laugardalnum í september 2005, sá fjórði er að byrja þessa dagana og sömuleiðis fyrsti hópurinn utan Laugardalsins en það eru sjö fjölskyldur í Laugarási.

Um 30 fjölskyldur í Laugardalnum eru virkir þáttakendur í visthópum, ekki síður þeir sem byrjuðu í fyrsta visthópnum fyrir þremur árum. Það er gífurlega hátt hlutfall, því á  landinu öllu eru um 560 fjölskyldur starfandi í visthópum, þar af aðeins um 60 á landsbyggðinni. Hvernig skyldi standa á því?

Líklegt er að fjölskyldurnar í Laugardalnum dragi nokkuð dám af öflugu umhverfisstarfinu í grunnskólanum sem nú er kominn í hóp þeirra skóla sem flagga með grænum fána. Skólastjórnendur hafa lagt áherslu á þennan þátt í skólastarfinu sem hefur líka heilmikla félagslega skírskotun sem nær langt út fyrir veggi skólans. Flokkun úrgangs og jarðgerð hefur verið sjálfsagður hluti af skólastarfinu nú í sex ár og þessu hafa foreldrarnir kynnst gegnum börn sín. Það er engin tilviljun að innan þessara 30 fjölskyldna eru um þrír fjórðu hlutar barna á skólaskyldualdri í Laugardalnum. Þessi tvö umhverfisverkefni, Vistvernd í verki og Grænfáninn í grunnskólanum virðast styðja hvort annað vel. Þar við bætist að grunnskólinn hefur nánast árlega staðið fyrir einhverjum uppákomum með vistvænu ívafi, oft í samstarfi við umhverfisnefnd.

Sveitarstjórn hefur stutt Vistvernd í verki dyggilega og tekið þátt í stofnkostnaði við jarðgerðartunnur, enda er reyndin sú að magn af almennu sorpi hjá þeim sem flokka sorp og jarðgera lífrænan úrgang minnkar um allt að því helming. Kostnaður við akstur úrgangs á urðunarstöðvar minnkar  í sama hlutfalli.

Þetta tvennt skýrir kannski að einhverju leyti  hve vel hefur tekist til. Því það er óhætt að segja, að þetta er góður árangur á landsvísu. Til samanburðar má nefna að á Akureyri eru 5 visthópar, 4 í Mosfellsbæ og 3 á Álftanesi. Enga virka visthópa er að finna á Suðurlandi í dag utan Bláskógabyggðar.

Það er hagkvæmt, bæði fyrir fjölskylduna og sveitarfélagið, að sýna vistvernd í verki. Mælingar þátttakenda fyrir og eftir visthópastarf sýna að þyngd sorps minnkar um 37%, bensínnotkun um 13%, rafmagnsnotkun um 18% og heitavatnsnotkun minnkar um 27%. Beinn sparnaður í orkunotkun reiknast að meðaltali vera um 46.000 kr. á ári hjá fjöldskyldu í visthópi. Þar við bætist lægri urðunarkostnaður sveitarfélagsins.

Vottunarkerfi, mat á umhverfisstarfi
Á landsráðstefnu Staðardagskrár 21 í Reykholti var einmitt bent á vistverndarverkefnið og grænfánaverkefnið sem tvö öflug “tæki” til að varða veginn í átt að sjálfbærri þróun og stuðla jafnframt að því að vekja fólk til vitundar um hvað það er mikilvægt, og raunar þrælhagkvæmt líka, að ganga betur um í nánasta umhverfi sínu. Þar var einnig bent á þriðja tækið sem hefur gagnast vel þeim sveitarfélögum sem eru búin að setja sér markmið og framkvæmdaáætlun í anda Staðardagsskrár 21. Það eru óháðir vottunaraðilar, sem taka púlsinn reglulega og leiðrétta kúrsinn ef skútuna ber af réttri leið. Sveitarfélögin á Snæfellsnesi hefur náð mjög góðum árangri með vottunarkerfi “Green Globe” og Árborg hefur tekið upp vottunarkerfi “Beluga” en hvorttveggja byggist á aðferðum sem hafa verið þróaðar á alþjóðavettvangi á löngum tíma. Það er sem sagt löngu búið að finna upp hjólið.

Kynningar- og fræðslustarf
Smáklausa var sett í Gluggann til að kynna umhverfis- og grænfánahátíðina í október 2005.  Um miðjan mars var sett upp kynningarsýning Landverndar um Vistvernd í verki í bókasafninu í Héraðsskólanum á Laugarvatni sem mun standa uppi  til maíloka. Það framtak kom í beinu framhaldi af fundinum í Reykholti.

Smápistill um sýninguna birtist á heimasíðu ML og í Glugganum.

Fundir um umhverfismál
Formaður kynnti stöðu umhverfismála á fundi Þ-lista í Kletti haustið 2005. Hann sótti Umhverfisþing í Reykjavík í nóvember 2005 og 9. landsráðstefnu Staðardagsskrár 21 í Reykholti í Borgarfirði í mars 2006. Yfirskrift ráðstefnunnar var: Hvaða flokkur vill framtíð? –  Sjálfbær þróun, verður kosið um hana í vor?

Sigurður St. gerði grein fyrir því helsta markverða af þessum ráðstefnum og spunnust af því nokkrar umræður hvað við gætum notfært okkur af reynslu annarra.

Staðardagskrá 21 er  áætlun um þau verk sem vinna þarf í hverju samfélagi um sig til að nálgast markmiðið um sjálfbæra þróun á 21. öldinni, þ.e.a.s. þróun sem tryggir komandi kynslóðum viðunandi lífsskilyrði.

Áætlunin snýst ekki eingöngu um umhverfismál í venjulegum skilningi, heldur er henni ætlað að taka jafnframt tillit til efnahagslegra og félagslegra þátta. Í raun og veru er Staðardagskrá 21 fyrst og fremst velferðaráætlun.

Laugardalshreppur og Biskupstungnahreppur voru í flokki þeirra 31 sveitarfélaga sem gerðust aðilar að fyrstu Staðardagskráráætlunina á Íslandi 1998-2002, en Bláskógabyggð á það sammerkt með mörgum litlum sveitarfélögum að stefnumörkun hefur setið á hakanum. Á ráðstefnunni í Reykholti var einkar gagnlegt tækifæri til að kynnast fólki sem er að vinna að sömu málum í öðrum sveitarfélögum, stórum og smáum, læra af mistökum þeirra og sjá hvar vel hefur tekist til.

Ráðstefnan í Reykholti var skipulögð skipulögð af skrifstofu Staðardagskrár 21 sem ríki og sveitarfélög hafa starfrækt í sameiningu í ein átta ár. Hún hefur aðsetur í Borgarnesi og hefur m.a. það markmið að aðstoða sveitarfélög við að undirbúa framkvæmdaáætlanir til að nálgast þau skilyrði um sjálfbæra þróun sem þau hafa þegar samþykkt. Bláskógabyggð er í hópi þeirra sveitarfélaga. Í Árnessýslu eru það aðeins Hveragerðisbær sem hefur staðfest 1. útgáfu Staðardagskrár 21.

3. Staðardagskrá 21 – Sameiginlegur fundur með umhverfisnefndum í  uppsveitunum

Umhverfisnefndin setti sér það markmið  2002  að leggja megináherslu á afmörkuð verkefni eins og Vistvernd í verki og Grænfánaverkefnið sem stuðla að vitundarvakningu  með virku umhverfisstarfi. Þessi verkefni og Staðardagskrá 21 voru kynnt á Umhverfishátíð á Laugarvatni 2003. Einnig var á áætlun að hrinda úr vör grunnvinnu við undirbúning Staðardagsskrár 21 fyrir lok kjörtímabilsins í maí 2006. Ákveðið var í apríl 2004 að kanna hvort grundvöllur væri fyrir samstarfi umhverfisnefnda í uppsveitunum í þessu máli sem og öðrum. Tekið hefur vel vel í þessar hugmyndir og nú er stefnt að því að halda  sameiginlegan kynningar- og umræðufund með umhverfisnefndum Skeiða- og Gnúpverjahrepps, Grímsnes- og Grafningshrepps og Hrunamannahrepps í síðari hluta aprílmánaðar.

Á ráðstefnunni í Reykholti ræddi formaður nefndarinnar við Stefán Gíslason, formann landsskrifstofu Staðardagsskrár 21 í Borgarnesi, um aðstoð og ráðgjöf í stefnumótun. Þar kom fram nokkur fámenn sveitarfélög hafa náð góðum árangri við innleiðingu SD21 eftir aðstoð frá þeim. Þessi ráðgjöf er litlu sveitarfélögunum að kostnaðarlausu enn sem komið er en það er háð fjölda íbúa. Landsskrifstofan eru reiðubúin að leggja okkur lið og senda fulltrúa á sameiginlegan kynningarfund.

Skeiða- og Gnúpverjar hafa lýst sig fúsa að koma á sameiginlegan kynningar- og fræðslufund sem yrði haldinn í aprílok og verið er að kanna hug umhverfisnefnda í Grímsnesi og Grafningi og Hrunamannahreppi. Ragnhildur Helga Jónsdóttir frá Staðardagsskrárskrifstofunni í Borgarnesi mun  koma á fundinn og vísa okkur veginn að sjálfbærri þróunarbraut. Guðmundur Tryggvi Ólafsson hjá Sorpstöð Suðurlands hefur tekið vel í að koma og fræða okkur um úrlausnir í úrgangsmálum og Bryndís Þórsdóttir sem stýrir Vistvernd í verki á landsvísu mun kynna það verkefni. Vonandi sjá fulltúar og frambjóðendur til sveitarstjórna sér fært að að mæta enda styttist nú óðum í kosningar og kjósendur eiga heimtingu á að vita hvort og þá hvernig kjörnir fulltrúar hyggjast byggja leiðir sjálfbærrar þróunar inní framkvæmdaáætlanir sínar og tryggja til þess fjármagn.

Hugmyndir að fundarefni og dagskrárramma:
Hvernig vinna uppsveitirnar best saman að umhverfismálum?
Reynsla af moltugerð á Laugarvatni og Skeiðum
Blönduð vinnsla á lífrænum úrgangi, jarðholur (loftfirrð vinnsla) og moltugerð (loftháð vinnsla): hvað er hagkvæmast fyrir sveitarfélögin?
Kynning á tilraunum Hraungerðishrepps með lífrænan úrgang
Lífrænn úrgangur er vannýtt auðlind: vinnsla á lífrænum úrgangi í mötuneytum skóla og matsölustöðum í uppsveitunum, hagkvæmni, nýtingarmöguleikar.
Nýting á seyru til landgræðslu og áburðar

Umhverfisnefndirnar kynna stuttlega hvað er efst á baugi á hverjum stað en síðan munu Ragnhildur Helga Jónsdóttir, Guðmundur Tryggvi Ólafsson (óstaðfest) og Bryndís Þórsdóttir ræða um sjálfbæra þróun og stefnumörkun í umhverfisstjórnun. Þá verða almennar umræður og vonandi einhverjar samþykktir um hvernig menn vilja haga samstarfi í framtíðinni.

3. Umhverfisdagur Bláskógabyggðar í lok maí

Ákveðið var að stefna að því að Umhverfisdagur Bláskógabyggðar verði haldinn á Laugarvatni í lok maí þar sem íbúar Bláskógabyggðar eru hvattir til að koma og gera sér glaðan dag með börnum sínum. Dagskráin er enn í mótun en Visthóparnir fimm ganga vonandi á undan með góðu fordæmi með glensi og gríni, grilla bleikju og pylsur og  fara kringum vatnið á bátum og hreinsa strandlengjuna. Ungmennafélagið  sýndi gott fordæmi í strandhreinsun við vatnið fyrir allmörgum árum og hafa örugglega engu gleymt.

Náið samstarf hefur alltaf verið milli umhverfisnefndar og grunnskólans enda er Grænfánaverkefnið ein af meginstoðum í umhverfisstarfi í sveitarfélaginu. Umhverfisráð grunnskólans hefur hug á að vera með skemmtiatriði og standa fyrir skiptimarkaði í Náttúrustofu. Þar geta menn skipst á fjölærum jurtum og öðrum vorboðum, þau vilja líka selja herta bleikju, gróðurmold og handverksmuni til að safna í Náttúrusjóðinn sinn sem fjámagnar kaup á dýrum, fiskum og öðru í Náttúrustofu. Mikill áhugi er líka hjá þeim að hafa ratleik og víðavangshlaup kringum Laugarvatn, kafa eftir rusli í vatninu og talað er um pokahlaup og þrautakóng og ýmislegt fleira.

4. Tillögur til sveitarstjórnar

Gamlar lummur sem umhverfisnefnd hefur undanfarin fjögur ár lagt til að verði hrundið í framkvæmd:
2004 à  Láta gera úttekt, Fegurri sveitir – Fegrun umhverfis, í Biskupstungum og  Þingvallasveit
Nú hillir undir að þetta geti orðið nú í sumar því sveitarstjórn hefur tekið þetta inná fjárhagsáætlun.
2004 à Efna til umhverfishátíðar Bláskógabyggðar á haustjafndægrum á Laugarvatni ár hvert og afhenda þar hvatningar- og umhverfisverðlaun.

Þetta hefur gengið eftir, verðlaunin voru veit í fyrsta sinn haustið 2005.
Á umhverfisdeginum í maí verður tilkynnt á hvaða sviði hvatningarverðlaunin verða veitt haustið 2006 svo fólk hefur allt sumarið til stefnu.
2004 à Setja vinnuskóla skýrari markmið sem tengjast frekar umhverfismálum.
2004 à Breyta nafni vinnuskólans í samræmi við nýjar áherslur: Umhverfisskóli
Þessar tillögur fengu jákvæða umfjöllun í fræðslunefnd í ágúst 2004, síðan ekki söguna meir.
2004 à Ákveða verklag til að festa í sessi Fegrun umhverfis – Fegurri sveitir og gera verkefnið skilvirkara.
2004 à Byrja í sumar aðgerðir í Laugardalnum skv. tillögum nefndarinnar um forgangsröðun

Engin viðbrögð hafa fengist frá sveitarstjórn við þessum tillögum. Samkvæmt erindisbréfi er umhverfisnefnd  ráðgefandi nefnd sem gerir tillögur til sveitarstjórnar. Hafi einhverjar umræður farið fram um þessar tillögur áður en þeim var hafnað eða stungið undir stól er umhverfisnefnd ekki kunnugt um það. Samskipti kosta ekki peninga. Sveitarstjórn er þakkað fyrir fyrir mjög dyggan stuðning við Vistvernd í verki.

Nýjar tillögur til sveitarstjórnar

Eftirfarandi tillögur voru ræddar á fundinum og samþykkt að beina þeim til sveitarstjórnar.

  • Umhverfisnefnd leggur til að stofnanir sveitarfélagsins, skólar, skrifstofur og áhaldahús, taki upp markvissa flokkun úrgangs og jarðgerð á lífrænum úrgangi.
  • Umhverfisnefnd leggur til að vistvæn sjónarmið verði höfð að leiðaljósi við öll innkaup á vegum sveitarfélagsins.
  • Umhverfisnefnd leggur til að kannaður verði áhugi skólastjórnenda á öllum skólastigum í Bláskógabyggð á þátttöku í grænfánaverkefninu.
  • Umhverfisnefnd leggur til að hafnar verði  viðræður við stærri fyrirtæki í Bláskógabyggð um markvissa flokkun úrgangs og kannað hvernig sveitarfélagið geti stutt slíkt framtak.
  • Umhverfisnefnd leggur til að sveitarstjórnarmenn og nefndafulltrúar gerist þátttakendur í visthópum

Fleira gerðist ekki, fundi slitið kl.17.15

Sigurður St. Helgason
Anna Björnsdóttir
Gunnar Þórisson