Fundur 9. september 2013

Fundur atvinnu- og ferðamálanefndar haldinn í Bjarkarhóli 9. september 2013.
Mætt voru: Inga þyri Kjartansdóttir, Sigurjón Sæland, Þorsteinn Þórarinsson og Sigurlaug
Angantýsdóttir sem ritaði fundargerð.

Dagskrá:
1.  Uppgjör vegna þjónustudagatals 2013
Tekjur af auglýsingum dagatalsins eru kr. 750.000.- og kostnaður er kr.676.118.-
Óinnheimtar tekjur af auglýsingum í dagatölum 2012 og 2013 eru kr. 70.000.-

2.  Erindi frá Byggðaráði Bláskógabyggðar
Bréfi frá SASS, dagsett 11. Júní 2013; styrkir til atvinnulífs og stefna í atvinnumálum var vísað
til nefndarinnar.
Atvinnu- og ferðamálanefnd fagnar þeirri ákvörðun SASS að hefja vinnu við skýrari stefnu í
atvinnumálum Suðurlands og lýsir stuðningi sínum við þetta þarfa framtak. Á fundum sínum
hefur nefndin oft rætt um stöðu atvinnumála í Bláskógabyggð og hugsanlega þróun þeirra og
telur nefndin nauðsynlegt að mótuð verði heildstæð atvinnustefna fyrir sveitarfélagið allt.
Í þessu sambandi telur nefndin æskilegt að sveitarstjórn beiti sér fyrir að haldið verði
atvinnumálaþing með aðkomu íbúa sveitarfélagsins og nýti sér við þinghaldið þjónustu SASS
sem býður upp á endurgjaldslausa ráðgjöf í á atvinnuþróun.

3.  Ráðstöfun hagnaðar af þjónustudagatali 2011 – 2012 – 2013
Hagnaður af dagatölum 2011 – 2013 var í lok ágúst kr. 305.228.- Þá eru ótaldar óinnheimtar
tekjur af auglýsingum, sbr. 1 lið fundargerðar.
Ákveðið er að funda eftir mánuð, fá Helga Kjartansson til skrafs og ráðagerða um ráðstöfun
hagnaðarins.

4.  Önnur mál
Tvær úr Tungunum
Atvinnu- og ferðamálanefnd lýsir ánægju sinni með framkvæmd hátíðarinnar „Tvær
úrTungunum“ og þakkar undirbúningsnefndinni mjög vel unnin störf. Vonandi er þetta
upphafið á árlegri sveitahátíð, þar sem sem flestir íbúar taki þátt með einum eða öðrum
hætti (á fundinum kom upp sú hugmynd að einhverjir íbúar byðu gestum og gangandi upp á
„uppskerusúpu“ að hætti Tungnamanna).

Ferðamál
Samkvæmt erindisbréfi ber nefndinni að fylgjast með þróun ferðamála í sveitarfélaginu og í
því skyni leitast við að hafa samstarf við sérfróða aðila. Við erum svo lánsöm að hafa
ferðamálafulltrúa uppsveitanna staðsetta í sveitarfélaginu og því var  ákveðið að boða
Ásborgu Arnþórsdóttur ferðamálafulltrúa á fund nefndarinnar á nýju ári til umræðu um
málefni ferðaþjónustu á svæðinu.

Fleira ekki tekið fyrir og fundi slitið.
Sigurlaug Angantýsdóttir