GSM Samband á Kili

Reykjavík, 3. mars 2008
Samgönguráðherra vígði um helgina nýjan GSM sendi á Bláfelli, suðaustan Langjökuls, og opnaði þar með formlega fyrir GSM þjónustu á Kili.   Það er nýtt langdrægt GSM kerfi frá Vodafone sem gerir það að verkum, að ferðalangar á hálendi Íslands er nú í GSM sambandi mun víðar en áður og stefnt er að því að stærstur hluti hálendisins verði í GSM sambandi fyrir páska.
GSM þjónusta á hálendinu eykur mjög öryggi ferðafólks á hálendinu og auðveldar björgunarsveitum störf sín til muna.  Samhliða opnun GSM þjónustu á Kili var tilkynnt, að Neyðarlínan og Landsbjörg  hefðu samið við Vodafone um fjarskiptaþjónustu næstu 3 árin.
Uppbygging Vodafone á langdrægu GSM gegnir lykilhlutverki í þeirri stefnu félagsins, að veita viðskiptavinum sínum bestu mögulegu þjónustuna.  Með tilkomu kerfisins er tryggt, að viðskiptavinir Vodafone eru í GSM sambandi víðar á landinu en viðskiptavinir annarra.  Þó er rétt að taka fram, að þótt viðskiptavinir Vodafone geti einir nýtt sér þjónustuna til almennra nota, þá geta allir GSM notendur hringt í neyðarlínuna og óskað eftir hjálp þar sem GSM samband er til staðar.
Vodafone á Íslandi er fjarskiptafyrirtæki í eigu Teymis hf. sem skráð er OMX Nordic Exhange á Íslandi. Starfsmenn Vodafone eru um 350 talsins og þjónusta viðskiptavini á heimilum og hjá fyrirtækjum um land allt með farsíma, síma, nettengingar og sjónvarp.  GSM þjónusta Vodafone nær til 98% landsmanna og með samstarfi við Vodafone Group, eitt öflugasta fjarskiptafyrirtæki í heimi, er viðskiptavinum Vodafone tryggð örugg farsímaþjónusta um allan heim.
Nánari upplýsingar veitir:
Hrannar Pétursson
Forstöðumaður almannatengsla / PR
Markaðssvið / Marketing
hrannarp@vodafone.is
+354  669 9310