Heilsuefling framhaldsskólanna

Dagana 19.-25. janúar fer fram 2. umferð í heilsueflingu framhaldsskóla. Að þessu sinni eiga nemendur skólanna að flykkjast í sund.
Þetta fer þannig fram að nemendur framhaldsskóla geta mætt frítt í sund  dagana 19 – 25 janúar 2009 í boði sveitarfélags Bláskógabyggðar í sundlaugina í Reykholti.

Fyrir réttu ári síðan skrifuðu menntamálaráðherra, heilbrigðisráðherra, forstjóri Lýðheilsustöðvar og forsvarsmenn félaga framhaldsskólanema undir samstarfssamning um Heilsueflingu og forvarnir í framhaldsskólum. Verkefnið er til þriggja ára og markmiðið meðal annars að stuðla að bættri almennri líðan og heilsu nemenda og efla forvarnir gegn vímuefnum í framhaldsskólum.

Einn liður í verkefninu er Íþróttavakning framhaldsskólanna sem hófst formlega þann 12. nóvember síðastliðinn og tókst í alla staði mjög vel. Alls tók 21 framhaldsskóli á öllu landinu þátt í 3000 m. göngu og skokki og samkvæmt upplýsingum frá skólunum hlupu eða gengu tæplega 5000 framhaldsskólanemendur á opnunardeginum.

Vikuna 19.-26. janúar mun næsta átak verkefnisins standa yfir en þá verða framhaldsskólanemendur hvattir til að synda alls 200 m. á dag umrædda viku. Í þeirri viðleitni sinni að fá sem flesta nemendur til að taka þátt í þessari heilsueflingu fer ráðuneytið þess á leit við forsvarsmenn þeirra sveitarfélaga, sem framhaldsskóli er starfræktur í, að þau gefi nemendum frítt í sund þá daga sem átakið stendur yfir. Telur ráðuneytið brýnt að vera í samstarfi við sem flesta aðila sem starfa á þessu sviði svo átakið skili sem mestum árangri í þágu bættrar heilsu framhaldsskólanemenda.