Huglæg rými – spjall og leiðsögn með Ólafi

Nánar um sýninguna:

Innsetningin Huglæg rými eftir myndlistarmanninn Ólaf Svein Gíslason var opnuð um miðjan janúar í Listasafni Árnesinga að viðstöddu fjölmenni. Sunnudaginn 3. febrúar mun Ólafur ganga um sýninguna og segja frá og ræða við gesti um gerð og innihald innsetningarinnar sem samanstendur af kvikmynd sem varpað er á sex veggi sýningarrýmisins, vatnslitaverkum, litlum misstórum skúlptúrum og milliveggjum sem á áhugaverðan hátt mynda eitt verk sem sviðsett er í þrjá meginsali safnsins sem og í anddyrið.  Sýningin hverfist öll um nágranna Ólafs í Flóanum, Sigurð Guðmundsson á Sviðugörðum og er sprottin af samrræðum þeirra tveggja. Handrit kvikmyndarinnar byggist á samtölum milli Ólafs og Sigurðar, en Ólafur lætur fimm einstaklinga segja frá sem Sigurður og eru auk Sigurðar sjálfs, einn lærður leikari, Þór Tulinius, og þrír sveitungar, ungur piltur, ungur maður og kona, sem eru Ágúst Þorsteinsson, Guðjón Helgi Ólafsson og Kristín Ólafsdóttir. Sýningin hefur fengið afar jákvæð viðbrögð gesta fyrir vandaða listræna framsetningu og hún vekur einnig áhugaverðar vangaveltur sem snerta umræður samtímans svo sem sjálfbærni.