Júlíviðburður Upplits laugardaginn 28.júlí 2012

Gálgaganga í Reykholti

Voru menn hengdir í Gálgaklettum eða eru þeir einungis tilvalinn staður til henginga? Upplitsviðburður júlímánaðar, laugardaginn 28. júlí kl. 14, verður fræðsluganga í Reykholti í Biskupstungum, en þar er fjöldi örnefna sem tengist gálgum. Í göngunni skoðar Skúli Sæland sagnfræðingur sennilegar skýringar á þessum óhugnanlegu örnefnum. Einnig segir hann frá öðrum örnefnum í uppsveitum Árnessýslu sem tengjast aftökum og andlátum. Þá verða rifjaðar upp aftökur fyrri alda og sagt frá alræmdu morðmáli í Tungunum frá síðari hluta 18. aldar.

Lagt verður upp í gönguna frá Reykholtsskóla kl. 14 og tekur gangan um einn og hálfan til tvo tíma. Þátttökugjald er 1.000 kr. og er hressing innifalin. Verði veður óhagstætt er möguleiki að komast í skjól á Kaffi Kletti í lok göngunnar, þar sem göngufólki gefst næði til að skrafa saman og hlýða á samantekt leiðsögumanns.