Lagning ljósleiðara í Bláskógabyggð

Á íbúafundi í Aratungu sl. mánudag var gerð grein fyrir verkefninu sem hafið er við lagningu á ljósleiðara í sveitarfélaginu. Hér eru, til upplýsingar, nokkur atriði sem varða málið:

Sérstök heimasíða hefur verið opnuð vegna verkefnisins, www.blaskogaljos.net, og er jafnframt hlekkur á hana á forsíðu heimasíðu sveitarfélagsins. Á síðunni eru gagnlegar upplýsingar, svör við mörgum algengum spurningum, umsóknareyðublöð og möguleiki á að senda inn fyrirspurnir og athugasemdir.

Næstu daga hefjast heimsóknir á heimili og til fyrirtækja í dreifbýli til að kanna áhuga á að taka inn ljósleiðara og ræða um lagnaleiðir. Samþykkt hefur verið gjaldskrá fyrir verkefnið og skv. henni er stofngjald kr. 202.000 auk vsk, eða alls 250.000 kr. Staðir, sem ekki eru skilgreindir sem styrkhæfir, greiða auk þess því sem næst raunkostnaði við lagningu og frágang á heimtaug frá fyrirhuguðu stofnkerfi. Styrkhæfir staðir eru íbúðarhús í dreifbýli þar sem íbúi (íbúar) er skráður með lögheimili og er þar með heilsársbúsetu, og fyrirtæki í dreifbýli, þar sem stundaður er heilsársrekstur skv. nánari skilgreiningu stjórnvalda.

Reglur verkefnisins „Ísland ljóstengt“, sem er verkefni á vegum ríkisins þar sem veitt er styrkjum til sveitarfélaga til lagningar ljósleiðara í dreifbýli, gera það að verkum að ekki eru veittir styrkir til að tengja íbúðarhús og fyrirtæki í þéttbýli og heldur ekki til að tengja sumarhús. Því til grundvallar liggur það mat stjórnvalda að tengingar í þéttbýli séu almennt betri en í dreifbýli og því sé ekki eins mikil þörf á að leggja opinbert fé í að bæta tengingar þar.

Þrátt fyrir það vill Bláskógabyggð hvetja alla íbúa til að sækja um tengingu, ef þeir hafa áhuga á að taka inn ljósleiðara. Með þeim hætti fást upplýsingar um hver áhuginn er fyrir ljósleiðara á þéttbýlli svæðum. Ef þátttaka verður góð verður það skoðað gaumgæfilega að leggja ljósleiðara á þéttbýlli svæðum. Ef til þess kemur að ljósleiðari verði lagður á þéttbýlli svæðum verður stofngjald notenda það sama og í dreifbýli. Því eru íbúar hvattir til að sækja um, óháð búsetu í sveitarfélaginu, hafi þeir áhuga á að fá lagðan til sín ljósleiðara. Rétt er að taka fram að ef þátttaka reynist nægjanleg, verður haft samband við umsækjendur áður en til innheimtu stofngjalds og lagningu á ljósleiðara kemur.

Jafnframt vill Bláskógabyggð hvetja eigendur sumarhúsa sem hafa áhuga á tengingu til að sækja um og verður farið yfir þær umsóknir. Í gjaldskrá Bláskógaljóss er gerð grein fyrir því að heimilt er að jafna út kostnaði í sumarhúsahverfum, þannig að hver tengistaður greiði sama gjald, óháð raunkostnaði. Ekki er gert ráð fyrir að farið verði í sumarhúsahverfi nema þátttaka verði um 60%.