LÍFSVERK – Þrettán kirkjur Ámunda Jónssonar – Útgáfuhátíð í Skálholti þ. 14. desember kl. 14:00

Fréttatilkynning:

 

GUÐRÚN ARNDÍS TRYGGADÓTTIR

LÍFSVERK – þrettán kirkjur Ámunda Jónssonar

Sýning í Hallgrímskirkju og útgáfuhátið samnefndar bókar í Skálholti

 

 

LÍFSVERK – Þrettán kirkjur Ámunda Jónssonar – Útgáfuhátíð í Skálholti þ. 14. desember kl. 14:00

Listamaðurinn Guðrún Arndís Tryggvadóttir á Selfossi er höfundur bókarinnar „LÍFSVERK – Þrettán kirkjur Ámunda Jónssonar“ og mun hún standa fyrir útgáfuhátíð bókarinnar í Skálholti í samstarfi við staðinn. Mun hún segja frá aðdraganda bókarinnar og tilurð verksins og sýna myndverk úr bókinni.

Í þessari litríku og heillandi bók leitar Guðrún Arndís Tryggvadóttir að lífsverki forföður síns, Ámunda Jónssonar, smiðs, listmálara og bíldskera á 18. öld. Hún endurskapar ævi hans og iðju í vatnslitamyndum í því skyni að nálgast fortíðina og lætur innsæinu eftir að kalla fram svör – í myndverkum og textum til íhugunar.

Í bókinni eru ljósmyndir af öllum þekktum verkum Ámunda auk fræðigreina eftir Arndísi S. Árnadóttur og Sólveigu Jónsdóttur sem ætlað er að auðga þessa sögu, ljá henni líf og styrkja sambandið við líf og list fortíðar. Með allt þetta í höndum er það síðan verkefni áhorfandans og lesandans að spegla sinn eigin reynsluheim í því sem hér er borið fram.

„Ég vil spegla nútímann í fornum veruleika í von um skilning á eigin tilveru,“ segir Guðrún A. Tryggvadóttir um ferðalag sitt til fortíðar. Með þeim orðum hvetur hún okkur til íhugunar um það hvernig umhverfi, uppruni og reynsla móta menn, letja eða hvetja á hverri tíð, og hvernig fjarlægðin milli okkar og Ámunda Jónssonar í árum og öldum býður okkur að skynja raunverulegt virði þess sem eitt sinn var.

Bókin er gefin út samhliða sýningu Guðrúnar Arndísar Tryggvadóttur í Hallgrímskirkju í Reykjavík, 1. desember 2019 – 1. mars 2020.

Sýning myndverka Guðrúnar úr bókinni verður í Skálholti og mun standa þar opin fram til loka janúar en opið er í Skálholtsskóla alla daga.

 

Um listamanninn:

 

Guðrún Arndís Tryggvadóttir er fædd í Reykjavík árið 1958. Hún nam við Myndlista- og handíðaskóla Íslands 1974–78, École nationale supérieure des Beaux-Arts í París 1978–79 og Akademie der Bildenden Künste í München 1979–83 þar sem hún hlaut hin virtu útskriftarverðlaun bæverska sambandslýðveldisins, Bayerischer Debütanten Förderpreis für Künstler und Publizisten. Guðrún hefur haldið sýningar hér heima, í Evrópu og Bandaríkjunum og hlotið fjölda viður-kenninga, bæði fyrir myndlist sína og störf á sviði nýsköpunar en hún hefur verið frumkvöðull á ýmsum sviðum, stofnað og rekið myndlistarskólann RÝMI og listrænu hönnunarstofuna Kunst & Werbung / Art & Advertising sem hún rak í Þýskalandi og hér á landi um árabil. Guðrún stofnaði einnig og rak umhverfisvefinn Náttúran.is um tíu ára skeið en hún hefur verið í framvarðasveit fyrir umhverfisfræðslu á Íslandi frá því að hún sneri aftur heim til Íslands árið 2000. Vefurinn hlaut m.a. Kuðunginn, umhverfisviðurkenningu umhverfis  og auðlindaráðuneytisins 2012. Aðalefniviður í myndlist Guðrúnar er olía á striga en hin stóru málverk hennar byggjast á sterkum hugmyndafræðilegum og oft sögulegum grunni. Verk hennar er að finna í opinberum söfnum hér á landi og erlendis.

 

Nánar um feril og list Guðrúnar á tryggvadottir.com