Málþing og aðalfundur Upplits 23. febrúar 2013

Aðalfundur Upplits og málþing um menningarstarf á landsbyggðinni
„Blómlegt menningarlíf og búsetuval“

„Blómlegt menningarlíf og búsetuval“ er yfirskrift málþings um menningarstarf á landsbyggðinni sem Upplit, menningarklasi uppsveita Árnessýslu, boðar til í tengslum við aðalfund sinn sem haldinn verður á Hótel Gullfossi í Brattholti laugardaginn 23. febrúar. Málþingið hefst kl. 14 og að því loknu, um kl. 16, hefst aðalfundurinn.

Sérstakur gestur málþingsins verður Ragnheiður Jóna Ingimarsdóttir, menningarfulltrúi Eyþings. Hún lauk námi í nútímafræði frá Háskólanum á Akureyri árið 2005 og meistaraprófi í menningarstjórnun frá Háskólanum á Bifröst 2012. Hún á að baki fjölbreytta reynslu af rekstri og  stjórnun verkefna og hefur starfað sem menningarfulltrúi Eyþings frá árinu 2007.

Erindi Ragnheiðar Jónu ber yfirskriftina „Skiptir menning máli?“ og er því ætlað að virka sem kveikja að umræðum meðal fundarmanna að því loknu. Þar mun hún segja frá menningarstarfi á Norðurlandi eystra og þróunarverkefni sem nú er að fara af stað á jaðarsvæði Þingeyjarsýslu. Verkefninu er ætlað að laða ungt menntað fólk í menningu og listum ættað af svæðinu heim til að standa fyrir metnaðarfullum menningarverkefnum. Þetta tengir Ragnheiður Jóna svo við niðurstöður meistaraprófsrannsóknar sem hún vann við Háskólann á Bifröst um samfélagsleg áhrif uppbyggingar atvinnustarfsemi á sviði menningar og lista í fámennum byggðarlögum.

Menningarklasinn Upplit var stofnaður snemma árs 2010 af hópi áhugasamra einstaklinga um menningu og sögu uppsveitanna. Upplit fékk styrk frá Vaxtarsamningi Suðurlands til þriggja ára verkefnis; 2010-2012, og aftur framhaldsstyrk fyrir árið 2013. Upplit hefur á undanförnum þremur árum staðið fyrir mánaðarlegum menningarviðburðum víðsvegar um uppsveitirnar, og þannig lagt sitt af mörkum til að efla og auðga þá ferðaþjónustu sem fyrir er á svæðinu og skapa ný tækifæri til uppbyggingar í menningartengdri ferðaþjónustu. Á árlegum málþingum sem haldin eru í tengslum við aðalfund Upplits eru menningarmálin rædd frá ýmsum hliðum og góðir gestir fengnir úr öðrum landshlutum með ferskan gust inn í umræðuna.

.

Upplitsfélagar, menningar-, ferðaþjónustu-, skóla- og sveitarstjórnarfólk, og allir þeir sem láta sig menningarstarfsemi í heimabyggð varða eru hvattir til að mæta og taka virkan þátt í málþinginu.

Aðalfundur Upplits

Að málþingi loknu, um kl. 16, verður aðalfundur Upplits haldinn á sama stað. Á dagskrá eru venjuleg aðalfundarstörf. Nánari upplýsingar um dagskrá er að finna á www.upplit.is.