Mótaðu framtíðina með okkur

Eins og fram hefur komið hefur Sveitarfélagið Bláskógabyggð sett af stað vinnu við stefnumótun sveitarfélagsins með Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna að leiðarljósi. Hluti þeirrar vinnu er mótun á stefnu til framtíðar, val á gildum og framtíðarsýn samfélagsins ásamt kynningu á Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna. Mörg ykkar hafa þegar svarað nokkrum spurningum í íbúakönnun á heimasíðunni okkar. Við hvetjum ykkur sem ekki hafið svarað ennþá að hafa áhrif og segja ykkar álit. Könnunin verður opin í viku í viðbót og þið farið inn á menti.com og sláið inn númeraröðina 15521194.

Ef þú brennur fyrir framtíð sveitarfélagsins þá viljum við jafnframt bjóða þér til íbúafundar þann 29. nóvember nk í Aratungu frá kl 17:00-19:00. Við viljum heyra hvað þér finnst og hvernig þú sérð framtíðina fyrir þér í sveitarfélaginu. Á fundinum munu sveitarstjóri, Ásta Stefánsdóttir,  ásamt Evu Magnúsdóttur, ráðgjafa hjá Podium kynna þá vinnu sem þegar hefur farið fram. Einnig verða kynntar niðurstöður könnunarinnar. Að síðustu mun Eva Magnúsdóttir leiða vinnustofu um framtíðarsýn íbúanna fyrir sveitarfélagið með Heimsmarkmiðin að leiðarljósi.

Áætlun um Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna eru framkvæmdaáætlun í þágu mannkynsins, jarðarinnar og hagsældar. Með henni er einnig leitast við að stuðla að friði um gjörvallan heim og þar með auknu frelsi. Öll lönd og haghafar munu, í gegnum samstarfsverkefni, hrinda þessari áætlun í framkvæmd. Með Heimsmarkmiðunum verða stigin afgerandi skref til breytinga sem nauðsynleg eru í því skyni að koma veröldinni á braut sjálfbærni. Sveitarfélagið Bláskógabyggð ætlar að taka þátt í þeirri vinnu. Sjá nánar um Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna.