Móttaka flóttafólks

Vinnumálastofnun hefur upplýst um að fyrirhugað sé að taka heimavist HÍ á Laugarvatni undir umsækjendur um alþjóðlega vernd. Rekstur úrræðisins verður á vegum ríkisins, en það er Vinnumálastofnun sem sér um þjónustu við umsækjendur um alþjóðlega vernd. Áætlað er að um 40-50 einstaklingar muni dvelja þar á meðan að umsóknir þeirra eru til meðferðar og er úrræðið ætlað fyrir barnlaus pör og litlar fjölskyldur. Ekki er gert ráð fyrir að reyna muni á þjónustu grunn- og leikskóla eða félagsþjónustu sveitarfélagsins. Unnið er að undirbúningi og er áætlað að hann muni taka um tvær vikur.