Nemendur Bláskógaskóla taka þátt í aðalskipulagsvinnu Bláskógabyggðar

Endurskoðun aðalskipulags Bláskógabyggðar 2015-2027 stendur yfir en sveitarstjórn fól Steinsholti sf. að vinna aðalskipulag sveitarfélagsins. Starfshópur skipaður af sveitarstjórn hefur unnið með ráðgjafanum í rúmt ár við skipulagsvinnuna og íbúum sveitarfélagssins hefur staðið til boða að koma hugmyndum sínum á framfæri á íbúafundum sem haldnir hafa verið í Aratungu.

Á dögunum var brugðið á það ráð að fá nemendur Bláskógaskóla til liðs við starfshóp og ráðgjafa í hugmyndavinnu og tillögugerð. Tilgangurinn með framtakinu er að skapa vettvang fyrir börn og unglinga til þess að koma fram með sínar hugmyndir um það hvernig þau kjósa að komast sínar leiðir við leik og störf. M.ö.o – hvernig umhverfi kjósa þau að búa við? Hvað má betur fara? Hvar vilja þau leika sér? Hvert vilja þau komast? Hvernig vilja þau komast á milli staða?

Markmiðið hefur einnig upplýsandi gildi og yngsta kynslóðin vakin til umhugsunsar um það af hverju t.d. skólinn þeirra og sundlaugin eru staðsett þar sem þau eru í dag, og að þau geta bæði sem börn og fullorðin haft áhrif á hvernig öllu er fyrir komið.

Með þessu er einnig verið að vekja athygli fólks á öllum aldri á mikilvægi skipulagsvinnunnar en stærsti þáttur skipulagsins er einmitt að skapa umhverfi sem þykir eftirsóknarvert og fjölskylduvænn valkostur til búsetu, atvinnu og afþreyingar. Einnig er verið að sýna fram á mikilvægi þess að upplýsingar berist úr nærumhverfinu þegar skoða á hvað betur megi fara í átt að vænlegum árangri, sem og að hvetja til jákvæðrar umræðu og almennrar þátttöku íbúa við skipulagsvinnuna.

Þátttaka og viðbrögð nemenda og starfsfólks skólans var með besta móti. Nemendur fengu uppdrætti og sex tússliti þar sem hver litur táknar afmarkað viðfangsefni. Þeir staðsettu heimilið sitt og merktu inn nýja göngu-, hjóla- og reiðstíga, bílvegi, svæði til afþreyingar/áningar og svæði með vatnstengda afþreyingu.

Líflegar umræður og hugarflug án hafta fékk byr undir báða vængi við skipulagsvinnuna og áhuginn var mikill. Framsæknar hugmyndir á borð við vatnsrennibrautagarða, lengsta rússíbana í heimi á milli fjallstoppa hálendisins og kláfar litu dagsins ljós. Greina mátti sameiginlegar áherslur allra skólastiga um það að göngustígar ættu almennt að vera malbikaðir þannig að þau gætu verið á hjólabrettum, hjóla- og línuskautum, hjólum og hlaupahjólum. Tillögur að nýjum göngu-, hjóla- og reiðleiðum voru settar fram innan þéttbýla og í dreifbýli sem tengja m.a. þéttbýlin. Tillögur um að auka á fjölbreytni leiksvæða af stærri og minni gerðinni og dreifa þeim víðar. Svæði fyrir hjólabretti og bifhjól voru áberandi á öllum skólastigum. Einnig voru settar fram raunsæar og réttmætar ábendingar um úrbætur og viðhald á núverandi reiðleiðum, göngustígum og vegum.

Ekki er vitað til þess að slíkt framtak hafi átt sér stað við aðalskipulagsgerð sveitarfélaga á Íslandi. Tillögur og uppdrættir verða til sýnis við skólaslit í Bláskógaskóla 4. júní nk. Grunnskólaverkefnið fær einnig umfjöllun í greinargerð aðalskipulagsins.