Opinn kynningarfundur – stjórnunar- og verndaráætlun fyrir Geysissvæðið

Fulltrúar Umhverfisstofnunar og Bláskógabyggðar boða til opins kynningarfundar vegna gerð stjórnunar- og verndaráætlunar fyrir Geysissvæðið.

Fundurinn fer fram þriðjudaginn 14. september frá klukkan 17:00-18:00 á Hótel Geysi.

Geysissvæðið var friðlýst sem náttúruvætti þann 17. júní 2020.

Svæðið er eitt þekktasta goshverasvæði jarðar. Fjölmargir hverir og laugar eru á svæðinu og eru goshverirnir Geysir og Strokkur þeirra þekktastir. Á svæðinu er einnig hverahrúður á stóru samfelldu svæði.

Örnefnið Geysir hefur gefið goshverum nafn á erlendum tungumálum auk þess sem hverahrúður er oft kallað „geyserite“ á erlendum tungumálum.

Upp af hverasvæðinu rís Laugarfell (187 m) sem er innskot úr líparíti þar sem ýmsar jarðmyndanir er að finna.

Á verndarsvæðinu er að finna plöntutegundina laugadeplu sem skráð hefur verið á válista sem tegund í nokkurri hættu.

Sjá nánari upplýsingar um vinnslu áætlunarinnar, drög sem voru til kynningar, fundargerðir og verk- og tímaáætlun.