Orkuskipti á Kili

Í síðustu viku var fagnað verklokum vegna lagningar rafstrengs og ljósleiðara með Kjalvegi og að Kerlingarfjöllum. Strengurinn er 67 kilómetra langur og leysir af hólmi díselvélar sem rekstraraðilar í ferðaþjónustu á svæðinu hafa nýtt til þessa. Með tilkomu ljósleiðara eykst einnig öryggi þeirra sem um svæðið fara, enda verða fjarskipti mun betri.

Þrjú sveitarfélög lögðu umtalsvert fé til verkefnsins, það eru Bláskógabyggð, Hrunamannahreppur og Húnavatnshreppur. Lagning strengsins kostaði um 285 milljónir, Bláskógabyggð lagði til 25 milljónir og Hrunamannahreppur og Húnavatnshreppur 7 milljónir hvort. Auk þess greiddi Bláskógabyggð mestan hluta kostnaðar við tengingu Árbúða og Gíslaskála, sem eru í eigu sveitarfélagsins, en rekstraraðili, Gjásteinn ehf, greiddi hluta kostnaðar og annaðist breytingar á húsunum sjálfum til að ganga frá tengingum. Rekstraraðilar í Kerlingarfjöllum og á Hveravöllum tóku einnig þátt í kostnaði, auk Neyðarlínunnar, Rarik og Fjarskiptasjóðs, en ríkið lagði fram stærsta framlagið, 100 milljónir króna.

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, og Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, ávörpuðu gesti í kaffisamsæti þeirra sem komu að verkefninu hjá þeim Lofti og Vilborgu í Myrkholti, og fögnuðu þau því að þetta mikilvæga verkefni væri í höfn.