Sendir á Bláfelli

428_Ýmsar myndir maí 006Tekin hefur verið í notkun á Bláfelli fyrsti  áfangi af þremur í neyðar- og öryggisfjarskiptakerfi sem ná á svo að segja til landsins alls. Þess má geta að Bláfell er eitt hæsta fjall á landinu með stafræn fjarskipti og dekkar afar stórt landssvæði m.a. Langjökul og Hofsjökul að hluta auk Kjalvegar. Þau svæði sem þessi sendir dekkar eru þau svæði sem björgunarsveitir fá flest útköll og mesta umferð almennings er um. Verkið er unnið í samvinnu við björgunarsveitir á suðurlandi og einnig hefur Landhelgisgæsla Íslands aðstoðað með þyrlu. Þegar uppsetningu þess er að fullu lokið munu  allir viðbragðsaðilar á landinu sem starfa að leitar- og björgunarmálum og hvers kyns almannavörnun  hafa aðgang að kerfinu og nota í öllum aðgerðum þar sem margir viðbragðsaðilar þurfa að starfa saman. Einnig munu orkufyrirtækin í landinu nota þessa öryggisfjarskiptaþjónustu eftir því sem þörf krefur. Fleiri opinberir þjónustuaðilar munu einnig nota það.  Kerfið mun fullbúið nota 150 senda og er langdrægni hvers sendis allt að 58 km.

Með þessu kerfi verða fjarskipti neyðar- og björgunaraðila að fullu samhæfð.

Neyðarlínan er rekstraraðili kerfisins og vinnur það verk  í samráði við aðra notendur þess.  Allur búnaður kerfisins er í eigu Öryggisfjarskipta hf., sem aftur er í eigu ríkisins að 75 hundraðshlutum og Neyðarlinunnar að 25 hundraðshlutum.

Það sem aðskilur öryggis- og fjarskiptakerfið frá öðrum fjarskiptakerfum landsmanna, að þetta kerfi sameinar þráðlaust símasamband  hópfjarskiptum og síðan er hægt að afmarka hópa eða fjarskiptasvæði sem hafa forgang á fjarskiptum í neyðarástandi.

Það einkennir núverandi símakerfi landsmanna, að þegar neyðarástand skapast , verður flutningsgetan takmörkuð og fjarskiptasambandið stíflast.   Með neyðar- og öryggiskerfinu verður ávallt aðgangur að óstífluðum línum fyrir stjórnkerfi almannavarna og viðbragðsaðila. Viðbragðsaðilar og stjórnstöðvar þeirra hafa forgang að kerfinu og Björgunarmiðstöðin við Skógahlíð hefur þar fyrsta  forgang.

Uppbygging þessa kerfis á sér nokkurn aðdraganda, en uppbyggingu þess sem sérstaks opinbers öryggiskerfis má rekja til ákvörðunar ríkistjórnarinnar frá 26. september s.l.    Síðan hefur verið gert sérstakt samkomulag við Slysavarnafélagið Landsbjörgu um notkun björgunarsveita á kerfinu.  Áður höfðu lögregla og slökkvilið notað þetta kerfi  um nokkurra ára skeið og auðveldaði það þær skipulagsbreytingar sem nú hafa verið gerðar á þessum tveimur þáttum almannaöryggis.

Það hefur verið unnið ötullega að því að auka öryggi landsmanna gagnvart slysum og náttúrhamförum á síðustu árum og hefur það haldist í hendur við styrkingu á löggæslu og landhelgisvörslu.

Hér má nefna atriði eins og sameiginlega neyðarsímsvörun í númer 112 sem tekið var í notkun árið 1996, fjarskiptamiðstöð lögreglunnar árið 2000, ferilvöktun farartækja lögreglu og slökkviliðs, starfsemi vaktstöðvar siglinga  og aðrar aðgerðir til að auka öryggi sæfarenda. Síðast en ekki síst má nefna Björgunarmiðstöðina í Skógahlíð og varastöð hennar á Akureyri  sem vissulega marka tímamót.