Stærðfræðikeppni Glitnis

Ögmundur Eiríksson, frá Gýgjarhólskoti í Biskupstungum, var  verðlaunaður í aðalstöðvum Glitnis á Kirkjusandi 31. okt. s.l. en þar fór fram verðlaunaafhending vegna stærðfræðikeppni framhaldsskólanema sem Stærðfræðafélagið stendur að.  Glitnir er aðalstyrktaraðili keppninnar.  Um 500 nemendur úr framhaldsskólum landsins tóku þátt í keppninni sem fram fór í hverjum skóla fyrir sig þann 17. október s.l. Keppendum er skipt í tvö þyngdarstig, neðra stig þar sem nemendur eru á fyrstu tveimur árum framhaldsskóla og efra stig þar sem nemendur á efri árum eru.

Ögmundur var efstur á neðra stigi með 82 stig af 100 mögulegum.  Næstu keppendur voru með 74 stig.  Tveir nemendur frá MR voru efstir og jafnir á efra stigi með 94 stig.  Heildarúrslit munu birtast í fjölmiðlum næstu daga.

Efstu tuttugu nemendur á hvoru stigi verða í nokkurskonar bréfaskóla í stærðfræði fram til mars á næsta ári en þá fer fram úrslitakeppni milli þeirra í Rvk.  Á grundvelli niðurstöðu þar verður valið í Ólympíulið Íslands í stærðfræði en Ólympíuleikarnir í stærðfræði 2007 fara fram næsta sumar í Víetnam.

Árangur Ögmundar er stórkostlegur og honum og Menntaskólanum að Laugarvatni til mikils sóma.  Einnig er ljóst að hann hefur góðan grunn frá grunnskóla sínum í Bláskógabyggð.  Ögmundi er óskað til hamingju með árangurinn.

hph

Frétt af vef ML.