Stórtónleikar í Skálholti

Stórtónleikar í Skálholti á aðventunni.

Laugardaginn 16. desember 2006 munu Skálholtskórinn og Barna- og kammerkór Biskupstungna, undir stjórn Hilmars Arnar Agnarssonar, halda sína árlegu aðventutónleika í Skálholtskirkju, ásamt hinum ástsælu söngvurum Sigrúnu Hjálmtýsdóttur og Óskari Péturssyni frá Álftagerði.  Kammersveit konsertmeistarans Hjörleifs Valssonar leikur undir. Að þessu sinni er kórinn styrktur af góðum vinum úr nágrannasveitunum, m.a. úr Vörðukórnum, og er það ánægjulegt og þakkarvert hve margir vilja vera með okkur á þessum tónleikum.

Á meðan kirkjugestir ganga til sætis, mun Hljómskálakvintettinn,með Þorkel Jóelsson hornaleikara Sinfóníuhljómsveitarinnar í broddi fylkingar, blása nokkra ljúfa tóna fyrir gestina og er það nýmæli.

Eins og undanfarin ár hefur kórinn fengið tónlistarmann af heimaslóðum til að semja fyrir sig jólalag, sem frumflutt verður á aðventutónleikunum.  Í þetta sinn er það Elín Gunnlaugsdóttir, tónskáld og tónfræðakennari, sem semur jólalag Skálholts 2006, en hún er ættuð úr Laugarási, eins og reyndar höfundur jólalagsins í fyrra, Hreiðar Ingi Þorsteinsson.  En jólalag hans verður endurflutt á tónleikunum í ár.

Heiðursgestur tónleikanna nú er Gunnar Þórðarson, sem hefur samið sérstakt jólalag fyrir barnakórinn.

Gunnar hefur verið í nánu samstarfi við kóra í Tungunum á þessu ári í gegnum flutning á verki hans “Brynjólfsmessu” í vor, í Keflavík, Skálholti og Grafarvogi, en messuna samdi hann í minningu Brynjólfs biskups Sveinssonar í Skálholti, í tilefni 400 ára árstíðar hans.  Er verkið væntanlegt á geisladiski nú í lok nóvember auk þess sem það verður flutt í sjónvarpi um jólin.  Að flutningi Brynjólfsmessu koma, auk Skálholtskórsins, kirkjukórar Keflavíkurkirkju og Grafarvogskirkju og barnakórar kirkjanna og hljómsveit.

Einnig er nýkominn út diskur með lögum Gunnars í flutningi Óskars Péturssonar, svo það má segja að Gunnar Þórðarson tengist aðventutónleikum í Skálholti á marga vegu í ár.

Aðventutónleikarnir verða tvennir að venju, kl 14 og 17.

Forsala aðgöngumiða er hafin í símum 865-4393 og 847-5057 og kostar miðinn kr 2.500,-.  Einnig verða miðar til sölu í Kirkjuhúsinu í Reykjavík, Versluninni Írisi á Selfossi, Versluninni Borg Grímsnesi, Versluninni Árborg í Gnúpverjahreppi, útibúi Lyfju í Laugarási Bisk, Versluninni H-Sel á Laugarvatni,Galleríinu á Laugarvatni og á Flúðum hjá Helga í Garði, s: 898-0913.