Fjölmargar náttúruperlur og sögustaði er að finna í Bláskógabyggð
Þekktastir þeirra eru Þingvellir, Geysir, Gullfoss, Haukadalur, Laugarvatn og Skálholt
Þingvallaþjóðgarður er einstakur staður vegna sögu og náttúru.
Þar var Alþingi stofnað 930 og margir merkisviðburðir í sögu þjóðarinnar hafa átt sér stað á Þingvöllum í aldanna rás.
Þingvellir voru samþykktir á náttúruminjaskrá Sameinuðu þjóðanna árið 2004..
Í þjóðgarðinum má fræðast um sögu og náttúru staðarins og einnig er mikið af upplýsingum að finna á heimasíðu þjóðgarðsins. www.thingvellir.is
Geysir í Haukadal er án efa þekktasti goshver í heimi enda er enska orðið yfir hver geyser dregið af nafni hans. Gosvirknin í Geysi hefur verið mjög breytileg í gegnum aldirnar og breytist gjarnan við jarðskjálfta. Eftir stóra skjálftann árið 2000 hefur Geysir gosið, en óreglulega og ekki eins hátt og þegar hann var upp á sitt besta. Goshverinn Strokkur á Geysissvæðinu er mjög virkur og gýs á 5-10 mínútna fresti.
Í Geysisstofu og á heimasíðunni www.geysircenter.is má finna fjölbreyttar upplýsingar um Geysir og nágrenni, sögu og jarðfræði svæðisins.
Gullfoss er einn af þekktustu fossum landsins. Fossinn fellur í tveimur þrepum sem eru samtals um 32 m. Gullfoss er ekki síður fallegur í klakaböndum en á góðum sumardegi. Fossinn var friðlýstur árið 1979. Sigríður Tómasdóttir í Brattholti varð fræg fyrir baráttu sína, þegar menn vildu virkja Gullfoss. Hún vann mikið afrek þegar henni tókst að afstýra því að fossinn yrði virkjaður.
Skálholt er einn af merkustu sögustöðum landsins, fyrrum höfuðstaður Íslands og sannkallað mennta- og menningarsetur í gegnum aldirnar. Í Skálholti hefur verið dómkirkja allt frá því að Ísleifur Gissurarson varð fyrstur biskup á Íslandi árið 1056, en núverandi kirkja var vígð 1963. Skóli var stofnaður í Skálholti á 11. öld. Þar er nú fræðslusetur kirkjunnar, þar sem haldin eru námskeið, málþing, ráðstefnur, tónleikar og kyrrðardagar.
Þéttbýli fór að myndast á Laugarvatni eftir að Héraðsskólinn var byggður þar árið 1928. Guðjón Samúelsson húsameistari ríkisins teiknaði húsið. Menntaskólinn á Laugarvatni var stofnaður 1953.
Vígðalaug dregur nafn sitt af því að þar oru menn skýrðir eftir kristnitökuna á Þingvöllum árið 1000.
Á Laugarvatni er íþróttafræðasetur Háskóla Íslands, menntaskóli, grunnskóli og leikskólinn Gullkistan. Þar er skrifstofa Byggingar- og skipulagsfulltrúa uppsveita Árnessýslu einnig staðsett.
Í Bláskógabyggð eru þrír þéttbýliskjarnar; Reykholt, Laugarás og Laugarvatn. Í Reykholti er Grunnskóli Bláskógabyggðar, leikskólinn Álfaborg, Reykholtslaug og félagsheimilið Aratunga þar sem skrifstofur sveitarfélagsins eru til húsa. Í Laugarási er heilsugæslustöð uppsveita Árnssýslu.